Félagsmálaráðuneyti

206/1984

Reglugerð um gatnagerðargjöld í Reykjavík. - Brottfallin

REGLUGERÐ

um gatnagerðargjöld í Reykjavik.

 

1. gr.

Af öllum nýbyggingum, svo og stækkunum eldri húsa hvort sem er á eignar- eða leigulóð í Reykjavik, skal greiða gatnagerðargjald til borgarsjóðs skv. gjaldskrá þessari.

 

2. gr

Af hverjum rúmmetra húss greiðist ákveðinn hundraðshluti byggingarkostnaðar pr. rúmmetra, eins og hann er hverju sinni á vísitöluhúsinu skv. útreikningi Hagstofu Íslands, að frádregnum kostnaði við gatnagerð pr. rúmmetra svo sem hér segir:

 

Einbýlishús með eða án tvíbýlisaðstöðu                                           14%

Raðhús, tvíbýlishús, keðjuhús                                                           9%

Fjölbýlishús                                                                                     4%

Iðnaðarhús                                                                                      5%

Verslunar- og skrifstofuhús                                                              5%

Annað húsnæði                                                                                5%

 

Rúmmál húss skal reikna frá neðstu grunnplötu. Næsta nýtanleg hæð undir þaki skal teljast að rúmmáli flatarmál hennar margfaldað með 3.30 m. Bílgeymslur og önnur útihús skal telja með við útreikning á rúmmáli húsa. Af kjallararými íbúðarhúsa, sem myndast þegar hagkvæmara er að grafa út grunn en fylla hann upp skal greiða 25% af venjulegu rúmmetragjaldi, enda sé aðeins gengt í húsrýmið innan frá. Af sameiginlegum bílageymsl­um, sem byggðar eru skv. skipulagsskilmálum og koma í stað bifreiðastæða, skal greiða 25% af rúmmetragjaldi þeirra húsa, er þær skulu þjóna. Af iðnaðarhúsnæði, sem vegna starfsemi sinnar þarf meira en 5.5 m lofthæð, skal hámarkslofthæð að jafnaði reiknast 5.5 m við útreikning rúmmetragjalds.

 

3. gr.

Ef lóðarhafi rífur gamalt hús eða flytur af lóð og byggir stærra hús á sömu Ióð skal gjald skv. 2. gr. vera rúmmetragjald nýja hússins að frádregnum rúmmetrum þess húss, sem fjarlægt er. Sama gildir ef hús brennur og byggt er að nýju á sömu lóð.

 

4. gr.

Gjald skal áætla, þegar lóðarúthlutun fer fram. Gjald þetta skal vera lágmarksgjald og miðist við nýtingarmöguleika samkvæmt skipulagi og endurgreiðist ekki, þótt minna sé byggt á 1óð. Innan mánaðar frá úthlutun skal greiða ákveðinn hluta gatnagerðargjalds, skv. ákvörðun borgarráðs, ella fellur úthlutunin sjálfkrafa úr gildi. Borgarráð ákveður gjalddaga og greiðsluskilmála á eftirstöðvum. Gatnagerðargjald af rúmmáli, sem er umfram það sem lágmarksgatnagerðargjald er miðað við skv. framansögðu, fellur í gjalddaga, þegar byggingarnefndarteikning er samþykkt og skal greiða það eigi síðar en innan mánaðar. Verði breytingar á byggingarkostnaði vísitöluhússins á þeim tíma, sem líður frá lóðarúthlut­un og til þess dags, sem teikning er samþykkt, skal umframgatnagerðargjald greiðast skv. því rúmmetragjaldi, sem gildir þá. Þegar byggt er á eignarlóð, áður úthlutaðri lóð eða eldra hús er stækkað, skal greiða allt gjaldið við útgáfu byggingarleyfis.

 

5. gr.

Hafi byggingarleyfi fallið úr gildi eða verið fellt úr gildi skal við endurnýjun leyfisins greiða skv. þágildandi gjaldskrá af þeim hluta byggingarinnar, sem byggingarleyfi er endurnýjað fyrir, að frádregnu því gatnagerðargjaldi, sem áður hefur verið greitt af sama á fanga.

 

6. gr.

Nú er lóð endurúthlutað og skal þá greiða gatnagerðargjald á grundvelli þeirrar gjaldskrár, sem í gildi er, þegar endurúthlutun fer fram. Nú hefur gjaldskrá hækkað frá frumúthlutun og er þá heimilt að veita undanþágu frá ofangreindum skilmálum, þegar eftirfarandi skilyrðum er fullnægt:

1. Fyrri lóðarhafi hefur byrjað framkvæmdir innan árs frá því að lóð varð byggingarhæf.

2. Framkvæmdir eru komnar það langt, að botnplata hafi verið steypt og gengið frá lögnum og fyllt að sökkli.

3. Fyrri lóðarhafi leggur fram reikninga fyrir kostnaði hans vegna lóðarinnar.

Gatnagerðargjald skal þó aldrei vera lægra en gatnagerðargjald eins og það var við frumúthlutun, að viðbættum 30 af hundraði þeirrar hækkunar, sem orðið hefur á gjaldskránni.

 

7. gr.

Ef lóðarhafi ætlar að byggja á lóð í áföngum getur borgarráð heimilað að greitt verði gatnagerðargjald af fyrirhuguðum mannvirkjum skv. áfangaskiptingu, en þá skal endanlegt gatnagerðargjald vera rúmmetragjald, sem í gildi er, þegar byggingarleyfi hvers áfanga er útgefið. Umsækjandi skal taka það sérstaklega fram í umsókn um úthlutun lóðar, að hann ætli að reisa fyrirhugað mannvirki í áföngum.

 

8. gr.

Óski lóðarhafi að skila lóð á hann rétt á endurgreiðslu á greiddu gatnagerðargjaldi ásamt hæstu lögleyfðu skuldabréfavöxtum af inneign hans hjá borgarsjóði. Heimilt er að fresta endurgreiðslu, uns lóðin hefur verið vent að nýju, þó ekki lengur en 6 mánuði frá því að lóðinni var skilað. Sama gildir ef lóð er tekin af lóðarhafa vegna vanefnda hans á skilmálum.

 

9. gr.

Gatnagerðargjaldi fylgir lögveð í fasteign þeirri, sem það er lagt á, og gengur það ásamt vöxtum og kostnaði fyrir öllum veðkröfum, sem á eigninni hvíla, og tekur einnig til vátryggingarfjár hennar.

 

Ákvæði til bráðabirgða.

Til 1. janúar 1986 skulu eftirfarandi ákvæði gilda:

Eigendur eignarlóða, aðrir en þeir, sem borgarstjórn hefur gert sérstakan samning við, handhafar leigulóða og lóðarhafar lóða, sem borgarstjórn hefur úthlutað fyrir gildistöku reglugerðar þessarar, en hafa enn ekki fengið leigulóðarsamning, geta sótt um nýbyggingar, stækkanir og breytingar húsa til byggingarnefndar samkvæmt nýtingarhlutfalli samþykkts aðal- eða deiliskipulags. Gatnagerðargjald greiðist þennan tíma hvorki af eignarlóðum né leigulóðum, sem borgarstjórn hefur úthlutað fyrir 1. janúar 1959. Af öðrum lóðum, sem borgarstjórn hefur úthlutað, skal greiða gatnagerðargjald samkvæmt því rúmmetragjaldi, er gild, þegar úthlutun fór fram.

Felli byggingarnefnd úr gildi byggingarleyfi húss, byggingaráfanga eða stækkunar, samkvæmt ákvæðum byggingarreglugerðar gr. 3.4.6. 1. mgr. eftir 1. janúar 1986 skulu gilda ákvæði 5. gr. reglugerðar þessarar.

Reglugerð þessi sem samin er og samþykkt af borgarstjórn Reykjavíkur staðfestist hér með samkvæmt lögum nr. 51/1974 um gatnagerðargjöld til þess að öðlast gildi þegar í stað.

 

Félagsmálaráðuneytið, 17. apríl 1984.

F. h. r.

Hallgrímur Dalberg.

Hólmfríður Snæbjörnsdóttir.

 


Þetta vefsvæði byggir á Eplica