Leita
Hreinsa Um leit

Efnahags- og viðskiptaráðuneyti

666/2011

Reglugerð um tilkynningar til Eftirlitsstofnunar EFTA í tengslum við þjónustuviðskipti á innri markaði Evrópska efnahagssvæðisins.

1. gr.

Skilyrði er lúta að staðfesturétti þjónustuveitanda.

Lögbær stjórnvöld skulu tilkynna, til Eftirlitsstofnunar EFTA, ný lög og reglur er varða frelsi til að veita þjónustu með staðfestu á Íslandi ef um er að ræða:

 1. Fjölda- eða svæðisbundnar takmarkanir, einkum takmarkanir þar sem miðað er við fólksfjölda eða landfræðilega fjarlægð milli þjónustuveitenda,
 2. skilyrði um að starfsemi þjónustuveitanda sé rekin sem ákveðið lögbundið rekstrarform,
 3. skilyrði sem tengjast hlutafjáreign í félagi,
 4. skilyrði sem binda aðgang að viðkomandi þjónustustarfsemi við tiltekna þjónustu­veitendur með skírskotun til sérstaks eðlis starfseminnar. Það gildir þó ekki ef um er að ræða málefni er falla undir lög nr. 26/2010 um viðurkenningu á faglegri menntun og hæfi til að starfa hér á landi, eða aðrar reglur sem leiða má af EES-reglum,
 5. skilyrði um að þjónustuveitanda sé óheimilt að hafa fleiri en eina starfsstöð á Íslandi,
 6. skilyrði um lágmarksfjölda starfsmanna,
 7. skilyrði um fastsetta lágmarks- eða hámarksgjaldskrá sem þjónustuveitandi verður að fara eftir,
 8. skilyrði er skylda þjónustuveitanda til að reka tiltekna þjónustustarfsemi samhliða þjónustu sinni.

2. gr.

Skilyrði er lúta að frelsi til að veita þjónustu án staðfestu.

Þegar lögbær stjórnvöld setja ný skilyrði eða breyta fyrirliggjandi skilyrðum sem gilda um þjónustuveitendur er veita þjónustu án staðfestu, sbr. 13. gr. laga nr. 76/2011 um þjónustuviðskipti á innri markaði Evrópska efnahagssvæðisins, skulu þau tilkynna breytingarnar til Eftirlitsstofnunar EFTA.

3. gr.

Málsmeðferð við tilkynningar.

Efnahags- og viðskiptaráðuneytið annast milligöngu um tilkynningar til Eftirlitsstofnunar EFTA skv. 1. og 2. gr. Lögbær stjórnvöld skulu, í tengslum við tilkynningar skv. 1. og 2. gr., senda efnahags- og viðskiptaráðuneytinu eftirfarandi upplýsingar:

 1. Heildartexta þeirra skilyrða sem um ræðir,
 2. ástæðu þess að skilyrði er sett,
 3. hvers vegna skilyrði er nauðsynlegt með vísan til brýnna almannahagsmuna,
 4. hvort skilyrði er án mismununar,
 5. hvort og hvernig gætt sé að meðalhófi.

4. gr.

Gildistaka.

Reglugerð þessi er sett með heimild í 3. mgr. 21. gr. laga nr. 76/2011 um þjónustu­viðskipti á innri markaði Evrópska efnahagssvæðisins og öðlast þegar gildi.

Efnahags- og viðskiptaráðuneytinu, 29. júní 2011.

F. h. r.

Helga Jónsdóttir.

Kjartan Gunnarsson.
Þetta vefsvæði byggir á Eplica