Fara beint í efnið
Fyrri útgáfa

Prentað þann 29. mars 2024

Reglugerð með breytingum síðast breytt 25. ágúst 2007

1095/2005

Reglugerð um próf til að öðlast réttindi til að vera héraðsdómslögmaður.

I. KAFLI Prófnefnd.

1. gr.

Samkvæmt 5. tölul. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 77/1998, sbr. 4. gr. laga nr. 93/2004, verður umsækjandi um réttindi til að vera héraðsdómslögmaður að standast prófraun til þess að öðlast þau réttindi.

Þriggja manna prófnefnd annast prófraunina. Dómsmálaráðherra skipar nefndina til fjögurra ára í senn, eftir því sem nánar er fyrir mælt í 1. mgr. 7. gr. laga nr. 77/1998, sbr. 5. gr. laga nr. 93/2004.

2. gr.

Formaður prófnefndar stýrir nefndarfundum og kemur fram fyrir hönd nefndarinnar út á við.

Prófnefnd heldur gerðabók. Í hana skal færa ákvarðanir nefndarinnar og niðurstöður prófa.

II. KAFLI Námskeið.

3. gr.

Prófnefnd skipuleggur og stendur fyrir námskeiðum til undirbúnings prófraun.

Námskeið skulu að jafnaði haldin á hverju ári og eigi sjaldnar en annað hvert ár. Skal auglýsa þau með hæfilegum fyrirvara sem aldrei skal vera skemmri en hálfur mánuður.

Námskeið skulu haldin í Reykjavík eða nágrenni. Að auki er prófnefnd heimilt að efna til námskeiðs annars staðar á landinu ef næg þátttaka fæst.

4. gr.

Prófraun skiptist í tvo hluta eftir því sem nánar er fyrir mælt í 7. gr., auk verklegrar prófraunar, sbr. 15. gr.

Þeir einir geta sótt námskeið til undirbúnings fyrri hluta prófi sem lokið hafa fullnaðarnámi í lögfræði með embættis- eða meistaraprófi við lagadeild háskóla sem viðurkenndur er hér á landi samkvæmt lögum um háskóla. Ennfremur þeir, sem lokið hafa sambærilegu prófi frá öðrum háskóla, enda telji prófnefnd sýnt að þeir hafi öðlast næga þekkingu á íslenskum lögum. Til að sannreyna það er nefndinni heimilt að leggja fyrir þá að gangast undir sérstakt próf á vegum hennar í einni eða fleiri lögfræðigreinum.

Þeir einir geta sótt námskeið í síðari hluta prófraunar sem staðist hafa fyrri hluta próf.

5. gr.

Kennslugreinar á námskeiðum eru þessar og skiptast á milli fyrri og síðari hluta námskeiðs eftir því sem kveðið er á um í 2. og 3. mgr.

Námskeið til undirbúnings fyrri hluta prófum:

  1. Einkamálaréttarfar.
  2. Sakamálaréttarfar.
  3. Fullnusturéttarfar.
  4. Samning lögfræðilegrar álitsgerðar.
  5. Lögfræðileg skjalagerð.

Námskeið í síðari hluta prófraunar:

  1. Réttindi og skyldur lögmanna, þ. á m. siðareglur lögmanna og þóknun fyrir lögmannsstörf.
  2. Málflutningur og önnur störf lögmanna, svo sem samningsgerð og meðferð stjórnsýslumála.

Í tengslum við námskeiðið fer fram kynning á rekstri lögmannsstofa og starfsemi Lögmannafélags Íslands og úrskurðarnefndar lögmanna.

6. gr.

Kennslustundir skulu vera 55-65 á námskeiði til undirbúnings fyrri hluta prófum og 30-40 á námskeiði í síðari hluta prófraunar. Prófnefnd ákveður fjölda kennslustunda innan þessara marka, svo og námsefni í hverri kennslugrein.

Prófnefnd hefur umsjón með kennslu og skal ráða til þess kennara. Ennfremur er prófnefndinni heimilt að fela Lögmannafélagi Íslands eða þeim háskólum, sem kenna lögfræði til embættis- eða meistaraprófs og viðurkenndir eru hér á landi samkvæmt lögum um háskóla, að annast kennslu í einstökum kennslugreinum.

III. KAFLI Prófraun.

7. gr.

Bókleg prófraun er annars vegar fólgin í prófum í fyrri hluta prófraunar, sbr. 2. mgr. 9. gr., og hins vegar í námskeiði með tilheyrandi verkefnavinnu og eftir atvikum prófum, skv. nánari ákvörðun prófnefndar, í síðari hluta prófraunar, sbr. 3. mgr. 5. gr.

Að auki skal prófmaður þreyta verklega prófraun eftir því sem nánar er fyrir mælt í 15. gr.

8. gr.

Markmið með prófraun er að tryggja að prófmaður hafi:

- tileinkað sér almenna þekkingu á íslenskum lögum til að geta stundað lögmannsstörf,
- öðlast þjálfun við að leysa úr helstu álitaefnum er koma til kasta lögmanna,
- öðlast þjálfun við að flytja mál fyrir dómi og leysa af hendi önnur lögmannsstörf,
- öðlast þekkingu á hlutverki lögmanna og réttindum þeirra og skyldum,
- kynnst starfsemi Lögmannafélags Íslands og úrskurðarnefndar lögmanna.

9. gr.

Þeir einir geta þreytt próf í fyrri hluta prófraunar sem skráð hafa sig til þátttöku og greitt tilskilið gjald skv. 16. gr.

Prófgreinar eru þessar:

  1. Einkamálaréttarfar.
  2. Sakamálaréttarfar.
  3. Fullnusturéttarfar.
  4. Samning lögfræðilegrar álitsgerðar.
  5. Lögfræðileg skjalagerð.

10. gr.

Próf í fyrri hluta prófraunar skulu haldin á hverju ári, án tillits til þess hvort efnt er til námskeiðs til undirbúnings þeim.

Ef maður mætir ekki í próf eða stenst það ekki á hann þess ekki kost að þreyta prófið að nýju fyrr en næst þegar námskeið og próf verða haldin og skal hann þá greiða fyrir það sérstakt gjald.

11. gr.

Prófnefnd tilkynnir þátttakendum á námskeiði, svo og öðrum þeim sem öðlast hafa rétt til að þreyta próf, hvar og hvenær próf eru haldin.

Próf skulu ýmist vera munnleg eða skrifleg samkvæmt ákvörðun prófnefndar. Nefndin ákveður lengd próftíma og aðra tilhögun prófa.

12. gr.

Prófnefnd tekur ákvörðun um prófsefni.

Prófnefndarmenn semja og leggja prófverkefni fyrir prófmenn. Skulu þeir jafnframt leggja mat á frammistöðu próftaka, ásamt óháðum prófdómurum sem dómsmálaráðherra skipar. Prófnefndarmenn geta falið kennurum, sem annast hafa kennslu á námskeiði, að sjá um framkvæmd prófa. Ekki skulu gefnar einkunnir fyrir frammistöðu á prófum, en miðað skal við að próftaki standist því aðeins próf að árangur hans jafngildi því að hann hafi fengið að lágmarki einkunnina 6 á einkunnastiganum 0 til 10.

Mat prófnefndarmanns eða kennara og prófdómara á því hvort próftaki hafi staðist próf er endanlegt.

13. gr.

Þeir einir geta skráð sig til þátttöku á námskeiði í síðari hluta prófraunar sem staðist hafa próf í öllum prófgreinum skv. 2. mgr. 9. gr. Ef próftaki hefur staðist eitt próf eða fleiri gefst honum kostur á að ljúka þeim prófum, sem eftir standa, innan tveggja ára.

Að þeim tíma liðnum þarf hann að þreyta öll prófin að nýju. Prófnefnd getur þó veitt undanþágu frá þessu ákvæði, ef sérstakar ástæður mæla með því.

Ef maður hefur lokið fyrri hluta prófum skal hann ljúka námskeiði í síðari hluta prófraunar innan þriggja ára. Að þeim tíma liðnum þarf hann að þreyta öll fyrri hluta próf að nýju. Ef maður hefur lokið verklegri prófraun þarf hann ekki að endurtaka hana.

14. gr.

Þeir einir teljast hafa lokið bóklegri prófraun að fullu sem sótt hafa námskeið og eftir atvikum lokið prófum, í síðari hluta prófraunar með fullnægjandi hætti að mati prófnefndar. Ennfremur verða þeir að hafa leyst af hendi þau verkefni sem fyrir þá eru lögð á námskeiðinu með tilskildum árangri að mati prófnefndarmanns eða kennara. Því mati má skjóta til prófnefndar til endanlegrar ákvörðunar.

Prófnefnd afhendir þeim, sem staðist hafa prófraun, þ.m.t. verklega prófraun, skírteini þess efnis.

15. gr.

Prófmaður skal leggja fyrir prófnefnd vottorð sjálfstætt starfandi lögmanns um að hann hafi þreytt verklega prófraun. Prófraunina skal prófmaður hafa þreytt eftir að hann hefur staðist fyrri hluta próf og innan árs frá því hann lýkur bóklegri prófraun að fullu. Prófnefnd er heimilt að framlengja þann frest í sérstökum tilvikum.

Verkleg prófraun er fólgin í því að veita lögmanninum aðstoð við flutning eins máls fyrir héraðsdómi þ. á m. að veita honum aðstoð við að afla sönnunargagna og undirbúning málflutningsræðu og aðra þætti aðalmeðferðar málsins. Prófmanni ber jafnframt að vera lögmanninum til aðstoðar við aðalmeðferð málsins.

Áður en prófraun er þreytt skal prófmaður leita staðfestingar prófnefndar á því að dómsmálið sé þess eðlis að með aðstoð við flutning þess reyni á þá kunnáttu sem ætlast er til að prófmaður hafi tileinkað sér á námskeiði fyrir fyrri hluta próf. Með umsókn skal prófmaður láta fylgja lýsingu sína á dómsmálinu og helstu ágreiningsefnum og rökstyðja að dómsmálið uppfylli skilyrði 1. málsl. þessarar málsgreinar.

IV. KAFLI Önnur ákvæði.

16. gr.

Dómsmálaráðherra ákveður, að fenginni tillögu prófnefndar, gjald sem þátttakendur skulu greiða fyrir námskeið, próf og verklega prófraun.

Gjaldið skal ákveðið sérstaklega fyrir hvorn hluta prófraunar, próf skv. 2. mgr. 10. gr. svo og fyrir verklega prófraun og skal gjaldið nema kostnaði við námskeið, próf og stjórnun.

Greiða skal þátttökugjald við skráningu og er það því aðeins endurkræft að námskeið sé fellt niður.

17. gr.

Prófnefnd er heimilt að leita samráðs, við þá háskóla sem kenna lögfræði til embættis- eða meistaraprófs og viðurkenndir eru hér á landi samkvæmt lögum um háskóla, um náms- og prófsefni svo og um tilhögun námskeiða og prófa.

18. gr.

Prófnefnd er heimilt að fela Lögmannafélagi Íslands að hafa umsjón með framkvæmd námskeiða og prófa, fyrir hönd nefndarinnar, þ. á m. að sjá um skráningu á námskeið og innheimtu gjalda skv. 16. gr.

19. gr.

Reglugerð þessi, sem sett er samkvæmt heimild í 2. mgr. 7. gr. laga um lögmenn nr. 77 15. júní 1998, sbr. 5. gr. laga nr. 93/2004 öðlast þegar gildi. Jafnframt falla úr gildi reglugerðir nr. 774 frá 18. október 2000 og nr. 26. 3. janúar 2005.

Ákvæði til bráðabirgða:

Þeir sem sótt hafa námskeið í fyrri hluta prófraunar samkvæmt eldri reglugerð nr. 774 frá 18. október 2000, sbr. reglugerð nr. 26 frá 3. janúar 2005, hafa rétt til að ljúka fyrri hluta prófraunar samkvæmt þeirri reglugerð, eftir því sem kveðið var á um í 2. mgr. 8. gr. og 10. gr. hennar, enda hljóti þeir a.m.k. 5,0 í einkunn í hverri prófgrein og a.m.k. 7,0 í meðaleinkunn úr öllum prófgreinum. Um síðari hluta prófraunar og verklega prófraun, svo og um önnur atriði, gildir þessi reglugerð, að öðru leyti en því að þeir, sem lokið hafa fyrri hluta prófraunar samkvæmt þessu ákvæði, þurfa ekki að sækja námskeið í réttindum og skyldum lögmanna, sbr. 6. tölul. 5. gr.

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.