Vegabréf og persónuskilríki

420/2006

Reglugerð um breyting á reglugerð um íslensk vegabréf nr. 624/1999. - Brottfallin

1. gr.

Við 1. mgr. 5. gr. reglugerðarinnar bætist nýr málsliður er orðast svo: Vegabréf skal innihalda persónusíðu og örflögu og skulu varðveittar á henni upplýsingar sem unnar eru úr andlitsmynd vegabréfshafa.

2. gr.

2. málsl. 1. mgr. 6. gr. reglugerðarinnar orðast svo: Vegabréf, önnur en neyðarvegabréf, skulu vera 36 tölusettar blaðsíður, auk kápunnar.

3. gr.

7. gr. reglugerðarinnar breytist þannig:

  1. Í stað orðsins ,,þjóðerni" í 1. málsl. 2. mgr. kemur: ríkisfang.
  2. Á undan orðinu ,,ljósmynd" í 3. málsl. 2. mgr. kemur: stafræn.

4. gr.

8. gr. reglugerðarinnar breytist þannig:

1.     1. og 2. mgr. orðast svo:

Umsækjandi um vegabréf skal skráður í umsóknarkerfi vegabréfa á umsóknarstað. Þar skal jafnframt tekin stafræn ljósmynd af umsækjanda. Umsækjanda er þó heimilt að koma með mynd frá ljósmyndara á rafrænum miðli sem uppfyllir kröfur þær sem gerðar eru til gæða myndarinnar. Sækja má um vegabréf hjá lögreglustjóra óháð búsetu umsækjanda.

Mynd í vegabréf skal uppfylla eftirtalin skilyrði:       a.   Myndin skal vera andlitsmynd, tekin þannig að andlit umsækjanda snúi beint í myndavél og bæði augu sjáist:
b. Myndin skal vera jafnlýst, bakgrunnur ljósgrár, hlutlaus og án skugga.
c. Umsækjandi má ekki bera dökk gleraugu eða gleraugu með speglun.
d. Umsækjandi má ekki bera höfuðfat. Þó má heimila slíkt ef umsækjandi fer fram á það af trúarástæðum.
e. Ef umsækjandi kemur með ljósmynd á minniskubbi má ljósmyndin ekki vera eldri en 6 mánuða gömul.


2.     Í stað orðsins ,,þjóðerni" a-lið 3. mgr. kemur: ríkisfang.

3.     c-liður 3. mgr. fellur brott og breytist röð eftirfarandi stafliða til samræmis við það.

4.     1. málsl. a-liðar 4. mgr. fellur brott.

5. gr.

10. gr. reglugerðarinnar orðast svo:

Þegar sótt er um vegabréf skal starfsmaður gæta þess að upplýsingar um umsækjanda séu réttar og allar nauðsynlegar upplýsingar fyrirliggjandi. Umsækjandi skal framvísa eldra vegabréfi, ökuskírteini eða öðru opinberu skírteini með mynd. Ef umsækjandi getur ekki með fullnægjandi hætti sannað á sér deili, skal hann kveða til tvo sjálfráða einstaklinga, sem geta gert grein fyrir sér á fullnægjandi hátt og skulu þeir votta og staðfesta með undirskrift sinni að umsækjandi sé sá sem hann segist vera.

6. gr.

Reglugerð þessi, sem sett er samkvæmt 11. gr. laga um vegabréf, nr. 136 22. desember 1998, með síðari breytingum, öðlast þegar gildi.

Dóms- og kirkjumálaráðuneytinu, 23. maí 2006.

Björn Bjarnason.

Haukur Guðmundsson.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica