Dómsmálaráðuneyti

91/2023

Reglugerð um breytingu á reglugerð um skilyrði gjafsóknar og starfshætti gjafsóknarnefndar nr. 45/2008.

1. gr.

Á eftir 4. gr. reglugerðarinnar kemur ný grein, 4. gr. a, sem orðast svo ásamt fyrirsögn:

Um nægilegt tilefni til málsóknar eða málsvarnar.

Við mat á því hvort tilefni sé til málsóknar eða málsvarnar skal höfð hliðsjón af eftirfarandi atriðum:

  1. Málsefnið sé nægilega skýrt og að málsókn sé nauðsynleg og tímabær. Þar með talið hvort:
    1. málatilbúnaður sé nægilega skýr þannig að ætla megi að málið sé tækt til efnis­meðferðar fyrir dómstóli,
    2. leitast hafi verið við að leysa málið utan réttar, þ. á m. fyrir úrskurðarnefndum,
    3. gagnaöflun utan réttar sé lokið og málshöfðun sé nauðsynleg og tímabær.
  2. Málsefnið sé þannig að nokkrar líkur séu á því að málið vinnist fyrir dómi. Heimilt er m.a. að horfa til þess hvort dómstólar hafi áður leyst úr sambærilegu ágreiningsefni.
  3. Varði málið réttarágreining sem þegar er til meðferðar hjá dómstólum og um er að ræða sambærilegt sakarefni, sem ætla má að hafi fordæmisgildi, er heimilt að synja um veitingu gjafsóknar þar til séð verður hvort málsókn sé nauðsynleg og tímabær.

 

2. gr.

5. gr. reglugerðarinnar orðast svo ásamt fyrirsögn:

Um mat á því hvort eðlilegt sé að málshöfðun eða málsvörn sé kostuð af almannafé.

Þegar metið er hvort eðlilegt sé að málshöfðun eða málsvörn sé kostuð af almannafé skal tekið mið af eftirtöldum meginsjónarmiðum:

  1. Að jafnaði skal ekki veita gjafsókn í máli þar sem ágreiningsefnið er eins og að neðan greinir nema sérstakar ástæður mæli með því:
    1. ágreiningsefnið varðar viðskipti umsækjanda er tengjast verulega atvinnustarfsemi hans og hann hefur með aðgerðum sínum eða aðgerðaleysi komið sér í þá aðstöðu sem mál­sókninni er ætlað að bæta úr,
    2. ágreiningsefnið er milli nákominna,
    3. um er að ræða mál sem varðar óverulega hagsmuni og ekki er eðlilegt hlutfall milli þeirra og líklegs málskostnaðar,
    4. umsækjandi hefur sýnt af sér verulegt tómlæti sem hefur í för með sér sönn­unar­vanda.

 

3. gr.

Reglugerð þessi sem sett er með heimild í 3. málsl. 2. mgr. 125. gr. og 1. mgr. 126. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991 öðlast þegar gildi.

 

Dómsmálaráðuneytinu, 18. janúar 2023.

 

Jón Gunnarsson.

Haukur Guðmundsson.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica