Dóms- og kirkjumálaráðuneyti

459/1988

Reglugerð um breyting á reglugerð nr.660/1981 um veitingu lögreglustarfs, lögregluskóla o.fl. - Brottfallin

REGLUGERÐ

um breyting á reglugerð nr. 660/1981 um veitingu lögreglustarfs, lögregluskóla o.fl.

1. gr.

3. mgr. 2. gr. orðist þannig:

Valnefnd skal skipuð fimm mönnum: Lögreglustjóranum í Reykjavík, sem jafnframt er formaður nefndarinnar, skólastjóra Lögreglustjóra ríkisins og þremur mönnum, sem skipaðir eru eftir tilnefningu dómsmálaráðuneytisins, Landssambandi lögreglumanna og Sýslumanna­félagi Íslands. Nú er sótt um starf við tiltekið embætti og tekur þá viðkomandi lögreglustjóri sæti í nefndinni. Heimilt er honum að senda skriflega álitsgerð um umsækjanda í stað þess að taka sæti í nefndinni.

 

2. gr.

6. gr. orðist þannig:

Starfræktur skal sérstakur skóli, Lögregluskóli ríkisins, er veiti lögreglumönnum al­menna menntun í lögreglufræðum sbr. 7. og 10. gr. , svo og sérmenntun í hinum ýmsu greinum löggæslunnar.

Dómsmálaráðherra fer með yfirstjórn skólans og skipar skólastjóra, er veitir skólanum forstöðu. Hann ákveður tölu fastra kennara og ræður þá, svo og annað starfslið að fenginni umsögn skólastjóra og skólanefndar. Skólastjóri ræður stundakennara með samþykki skóla­nefndar. Ráðning lögreglumanna, sem ráðast til kennarastarfa að skólanum í fast starf, skal að jafnaði vera til þriggja ára. Að þeim tíma liðnum hverfa þeir aftur til fyrra starfs, sem þeir hafa verið í leyfi frá.

Kennarafundir skulu jafnan haldnir mánaðarlega. Haldnar skulu fundargerðir um þá fundi.

Skólanefnd, skipuð lögreglustjóranum í Reykjavík, rannsóknarlögreglustjóra ríkisins, ríkissaksóknara, fulltrúa Landssambands lögreglumanna og starfsmanni dómsmálaráðuneyt­isins, tilnefndum af dómsmálaráðherra, skal hafa yfirumsjón með starfsemi skólans. Starfs­maður dómsmálaráðuneytisins er formaður skólanefndar. Skólastjóri situr fundi skólanefnd­ar með málfrelsi og tillögurétt, nema þegar fjallað er um mál er varða hann persónulega.

Skólanefnd skal gera tillögur um námsefni. Nefndinni er heimilt að fella niður eða bæta við námsgreinum eftir því sem þörf þykir.

Færðar skulu fundargerðir um fundi skólanefndar.

 

3. gr.

Við bætist ný grein, er verði 7. gr. svohljóðandi:

Lögreglumenn, er sækja fyrri önn og síðari önn grunnnáms, skulu lúta húsbóndavaldi skólans á meðan dvöl þeirra stendur. Skólastjóri getur sett almennar reglur, að fengnu samþykki skólanefndar, um hegðan, mætingar, klæðaburð, o.fl., og hvernig taka skuli á málum, ef út af er brugðið.

Lögregluskólanemar á fyrri og síðari önn mega ekki á dvalartímanum vinna að lögreglustörfum utan námsins nema að fengnu skriflegu samþykki skólans. Skólinn getur skipulagt launuð störf fyrir lögregluskólanema, annars vegar sem verkefni í starfsþjálfun, og þá í samráði við hlutaðeigandi lögreglustjóra, og hins vegar störf vegna stórverkefna, þegar þörf er viðbótarlögregluliðs. Skólastjóri og kennarar lögregluskólans geta annast stjórnun lögreglunema á vettvangi eða staðbundnir yfirmenn lögreglu, eftir því sem um semst við viðkomandi lögreglustjóra.


Nú kemur í ljós í grunnnámi að nemi fullnægir ekki þeim kröfum, sem gerðar eru til lögreglumanna hvað snertir námshæfileika, ástundun, reglusemi, framkomu og heilsufar og skal skólinn þá senda hlutaðeigandi lögreglustjóra rökstudda greinagerð um það sem áfátt þykir. Skal lögreglunemanum skýrt frá efni greinargerðarinnar.

Skólastjóri hefur á námstímanum sama agavald gagnvart kennurum og nemendum í skólanum og lögreglustjórar viðkomandi manna endranær.

 

4. gr.

Breytingar á greinum verða sem hér segir: Greinar 7. - 16. verði greinar 8. - 17.

 

5. gr.

17. gr. falli brott.

 

6. gr.

Ákvæði til bráðabirgða falli brott.

 

7. gr.

Reglugerð þessi, sem sett er með heimild í 2. málsgr. 9. gr. laga nr. 56/1972 um lögreglumenn, öðlast gildi 10. október 1988.

 

Dómsmálaráðuneytið, 3. október 1988.

 

Halldór Ásgrímsson.

Hjalti Zóphaníasson

 


Þetta vefsvæði byggir á Eplica