Dóms- og kirkjumálaráðuneyti

1010/2003

Reglugerð um ættleiðingar barna erlendis. - Brottfallin

1010/2003

REGLUGERÐ
um ættleiðingar barna erlendis.

1. gr.

Þeim sem óska eftir að ættleiða barn erlendis er skylt að leita milligöngu um ættleiðinguna hjá félagi sem hefur löggildingu dómsmálaráðherra samkvæmt 34. gr. ættleiðingarlaga, nr. 130/1999.


2. gr.

Víkja má frá ákvæði 1. gr. í undantekningartilvikum ef umsækjendur um ættleiðingu, annar eða báðir, eru nátengdir því landi sem þeir óska eftir að ættleiða frá, eða ef aðrar alveg sérstakar ástæður mæla með ættleiðingu án milligöngu ættleiðingarfélags.


3. gr.

Ef óskað er eftir að vikið verði frá ákvæði 1. gr. skulu umsækjendur leggja fram gögn frá viðkomandi ríki sem sýni að ættleiðingar sem þar fara fram séu í samræmi við íslensk ættleiðingarlög og grundvallarreglur Haag-samnings um vernd barna og samvinnu varðandi ættleiðingu milli landa frá 1993 og sáttmála Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins. Enn fremur skulu umsækjendur leggja fram gögn um og/eða skýra nákvæmlega frá gangi ættleiðingarmáls í viðkomandi ríki, hvar og hvernig ættleiðing er veitt og gefa nákvæmar upplýsingar um þau gjöld sem greiða ber í því ríki og til hvers eða hverra þau greiðist. Þá skulu umsækjendur leggja fram ættleiðingarlög þess ríkis. Ráðuneytið getur aflað staðfestingar frá viðkomandi ríki um að veittar upplýsingar séu réttar.


4. gr.

Verði ráðuneytið við beiðni um útgáfu forsamþykkis án milligöngu löggilts ættleiðingarfélags skal ráðuneytið senda forsamþykkið ásamt nauðsynlegum gögnum til þess ríkis sem óskað er ættleiðingar frá.


5. gr.

Reglugerð þessi, sem sett er samkvæmt 2. mgr. 35. gr. og 41. gr. laga um ættleiðingar nr. 130/1999, öðlast þegar gildi.


Dóms- og kirkjumálaráðuneytinu, 17. desember 2003.

Björn Bjarnason.
Björn Friðfinnsson.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica