Dóms- og kirkjumálaráðuneyti

392/2003

Reglugerð um lögmæltar ökutækjatryggingar. - Brottfallin

392/2003

REGLUGERÐ
um lögmæltar ökutækjatryggingar.

I. KAFLI
Skylda vátryggingafélags til að taka að sér vátryggingu
og gildistaka vátryggingar.
1. gr.
Skyldur vátryggingafélaga.

Vátryggingafélagi sem býður ökutækjatryggingar samkvæmt umferðarlögum nr. 50 30. mars 1987 er skylt að taka að sér lögmælta ábyrgðartryggingu og lögmælta slysatryggingu ökumanns og vátryggingartaka sem farþega í eigin ökutæki fyrir sérhvern vátryggingarskyldan aðila, sem undirgengst vátryggingarskilyrði ákveðin í samræmi við þá áhættu, sem félagið tekur að sér.

Vátryggingafélag sem býður ökutækjatryggingar samkvæmt umferðarlögum, skal vera aðili að Alþjóðlegum bifreiðatryggingum á Íslandi sf. (ABÍ).


2. gr.
Gildistaka.

Vátrygging gengur í gildi þegar félagið eða umboðsmaður þess tekur við vátryggingarbeiðni, nema vátryggingartaki óski þess að hún taki gildi síðar.

Hafi vátrygging verið tekin með einhliða yfirlýsingu vátryggingartaka, t.d. símleiðis eða skriflega, er vátryggingafélaginu heimilt að skora á vátryggingartaka að greiða iðgjaldið eða semja um greiðslu þess þegar í stað og í síðasta lagi innan viku frá móttöku slíkrar tilkynningar. Verði vátryggingartaki ekki við áskoruninni er félaginu heimilt að fella vátrygginguna strax úr gildi, þrátt fyrir ákvæði 11. gr. Skal félagið tilkynna vátryggingartakanum þá ákvörðun skriflega, jafnframt því að senda tilkynningu til Umferðarstofu um lok vátryggingarinnar.


II. KAFLI
Gildissvið vátryggingar, réttarstaða þriðja manns o.fl.
3. gr.
Gildissvið vátryggingar.

Lögmælt ábyrgðartrygging skal gilda í aðildarríkjum Evrópska efnahagssvæðisins (EES) og Fríverslunarsamtaka Evrópu (EFTA) á grundvelli eins og sama iðgjalds. Vátryggingin skal veita þá vernd í hverju aðildarríki sem kveðið er á um í löggjöf viðkomandi ríkis, eða þá vernd sem íslensk löggjöf mælir fyrir um þegar sú vernd er víðtækari.


4. gr.
Réttarstaða þriðja manns.

Vátryggingafélag skal taka að sér vátrygginguna þannig að þriðji maður eigi beina kröfu á félagið, sbr. 1. mgr. 91. gr. og 1. mgr. 95. gr. umferðarlaga.

Vanræksla vátryggingartaka á því að standa við skuldbindingar sínar gagnvart félaginu veitir því engan rétt til að neita greiðslu til þess sem á rétt á skaðabótum. Öll ákvæði í vátryggingarsamningi er takmarka ábyrgð félagsins að þessu leyti eru ógild.

Í samningi félagsins og vátryggingartaka má áskilja að vátryggingartaki skuli að öllu leyti eða að hluta bera áhættu af tjónsatburðum sem falla undir vátrygginguna, en slík ákvæði hafa engin áhrif á réttarstöðu þriðja manns. Má þannig almennt áskilja að eigin áhætta vátryggingartaka vegna hvers tjónsatburðar skuli vera tiltekin fjárhæð, allt að 200.000 króna fyrir vátryggingartaka sem einstakling og allt að 1.000.000 króna fyrir vátryggingartaka með rekstur, ef tjónið nemur þeirri fjárhæð, eða ella að fullu, enda hafi félagið samþykkt skriflega beiðni vátryggingartaka um eigin áhættu. Vátryggingafélaginu er heimilt að setja ákvæði þess efnis í iðgjaldagrundvöll, að ef nánar tiltekin skilyrði eru uppfyllt skuli vátryggingartaki bera eigin áhættu allt að 50.000 króna. Ráðuneytið getur að fengnum tillögum Fjármálaeftirlitsins breytt fjárhæðum þessum árlega í samræmi við verðlagsbreytingar.

Ákvæði 2. mgr. eiga einnig við um lögmælta slysatryggingu ökumanns og vátryggingartaka.


5. gr.
Endurgreiðsla iðgjalds.

Þegar ökutæki er afskráð eða selt og vátryggt af hinum nýja eiganda (varanlegum umráðamanni) skal vátryggingafélag endurgreiða iðgjald í hlutfalli við það sem eftir er af vátryggingartímabilinu.

Hafi ökutækið eigi verið í notkun a.m.k. 30 daga samfleytt skal félagið endurgreiða iðgjaldið hlutfallslega fyrir innistöðutímabilið, enda hafi skráningarmerki ökutækis þá verið í vörslu Umferðarstofu eða þess sem hefur umboð hennar. Ákvæði þetta gildir ekki um dráttarvélar eða torfærutæki.


6. gr.
Reglur um ökutæki sem skráð eru til leigu án ökumanns.

Í vátryggingarskilmálum fyrir ökutæki sem skráð eru til leigu án ökumanns, samkvæmt lögum nr. 64 20. maí 2000 um bílaleigur, skal vera ákvæði um endurkröfurétt vátryggingafélags á hendur vátryggingartaka (bílaleigu) vegna allra tjónsatvika, sem verða þegar ökutækið er leigt án ökumanns andstætt ákvæðum nefndra laga, nema leitt sé í ljós að orsakir tjóns eða umfang verði ekki rakið til þess að ökutækið var leigt andstætt þeim.


7. gr.
Reglur um erlend ökutæki.

Um vátryggingu ökutækja sem skráð eru erlendis og heimilt er að nota hér á landi fer samkvæmt reglugerð um notkun erlendra ökutækja.


III. KAFLI
Eftirlit með því að vátryggingarskyldu sé gætt
og lok lögmæltra ökutækjatrygginga.
8. gr.
Eftirlit með vátryggingarskyldu o.fl.

Við skráningu vélknúins ökutækis skal færa sönnur á að vátryggingar vegna ökutækisins í samræmi við umferðarlög séu í gildi með staðfestingu frá vátryggingafélagi. Þegar eigendaskipti að ökutæki eru skráð skal ganga úr skugga um að nýr eigandi (varanlegur umráðamaður) hafi keypt lögmælta vátryggingu fyrir ökutækið. Við almenna skoðun ökutækis svo og þegar afhent eru að nýju skráningarmerki ökutækis sem verið hafa í vörslu Umferðarstofu eða þess sem hefur umboð hennar, skal með sama hætti færa sönnur á að lögmælt vátrygging sé í gildi fyrir ökutækið.

Í skráðu ökutæki skulu jafnan varðveitt gögn sem bera með sér að í gildi séu lögmæltar vátryggingar vegna ökutækisins.

Þegar vélknúið ökutæki er búið til að draga eftirvagn eða tengitæki skal vátryggingin einnig taka til aksturs með tengt ökutæki.

Þegar keypt er vátrygging hjá öðru vátryggingafélagi en því sem ökutækið hefur til þessa verið vátryggt hjá skal eigandi (varanlegur umráðamaður) ökutækisins senda Umferðarstofu staðfestingu þessa efnis. Skal staðfestingin hafa borist Umferðarstofu eigi síðar en þann dag sem fyrri vátryggingin fellur úr gildi.


9. gr.

Þegar eigendaskipti verða að skráðu vélknúnu ökutæki gildir hin fyrri vátrygging gagnvart nýjum eiganda (varanlegum umráðamanni) í 14 daga nema ökutæki hafi áður verið afskráð eða ný vátrygging keypt fyrir það.


10. gr.

Eigi má vátryggja skráð vélknúið ökutæki ef vátryggingartaki skuldar iðgjald fyrir eldri vátryggingu á sama ökutæki sem fallið hefur í gjalddaga á síðastliðnum tveimur árum.

Komi í ljós að keypt hefur verið vátrygging fyrir skráð vélknúið ökutæki andstætt ákvæði 1. mgr. fellur vátryggingin þegar úr gildi. Skal vátryggingafélagið þá strax vara vátryggingartaka við og senda tilkynningu um lok vátryggingar skv. 11. gr.


11. gr.
Lok lögmæltra ökutækjatrygginga.

Falli vátrygging vegna skráðs vélknúins ökutækis úr gildi vegna vanskila á iðgjaldi þeirrar vátryggingar skal vátryggingafélagið senda tilkynningu um það til Umferðarstofu þremur mánuðum eftir gjalddaga iðgjaldsins. Falli vátrygging úr gildi af annarri ástæðu en vanskilum skal félagið tilkynna það Umferðarstofu þegar eftir að vátryggingin er úr gildi fallin.

Jafnframt tilkynningu til Umferðarstofu skv. 1. mgr. skal félagið gera vátryggingartaka (eiganda eða varanlegum umráðamanni ökutækis) aðvart og kynna honum réttaráhrif slíkrar tilkynningar.

Félagið skal ekki senda tilkynningu skv. 1. mgr. ef það hefur vitneskju um að ökutækið hafi verið vátryggt hjá öðru félagi eða það hafi verið afskráð.

Tilkynning skv. 1. mgr. verður ekki gefin svo gilt sé, ef vátryggingin er upphaflega tekin vegna annars ökutækis og vanskilin stafa frá tíma áður en vátryggingin var færð yfir á hið nýja ökutæki.


12. gr.

Þegar Umferðarstofa fær tilkynningu skv. lokamálsl. 2. mgr. 2. gr. eða l. mgr. 11. gr. og í ljós kemur að ökutækið hefur ekki verið afskráð og að ný fullnægjandi vátrygging er ekki fyrir hendi, skal lögreglustjóri þar sem eigandi (varanlegur umráðamaður) er skráður til heimilis hlutast til um að skráningarmerki séu tafarlaust tekin af ökutækinu.

Enda þótt vátryggingin sé fallin úr gildi ber félagið áfram ábyrgð gagnvart þriðja manni á sérhverju tjóni sem verður þar til fjórar vikur eru liðnar frá því að vátryggingin féll úr gildi nema önnur fullnægjandi vátrygging hafi verið keypt. Hafi vátryggingin fallið úr gildi áður en Umferðarstofa fær tilkynningu skv. l. mgr. 11. gr. helst ábyrgð félagsins í fjórar vikur frá móttöku tilkynningarinnar.


13. gr.

Tilkynningar og staðfestingar skv. 2. mgr. 2. gr., 8. og 1. mgr. 11. gr. skal senda Umferðarstofu rafrænt eða á sérstökum eyðublöðum. Skal form tilkynninganna ákveðið af Umferðarstofu. Tilkynningar sem ekki eru í samræmi við kröfur Umferðarstofu skulu teljast ógildar og ber að vísa þeim frá.

Ákvæði 8.-12. gr. gilda einnig um vátryggingu á ökutækjum með reynslumerki.


IV. KAFLI
Tjónsuppgjörsfulltrúar.
14. gr.
Hlutverk tjónsuppgjörsfulltrúa og skilyrði fyrir viðurkenningu á þeim.

Tjónsuppgjörsfulltrúar, sem tilnefndir eru á Íslandi til að koma fram fyrir hönd erlendra vátryggingafélaga í samræmi við 11. tölul. 2. mgr. 21. gr. laga um vátryggingastarfsemi nr. 60, 11. maí 1994, skulu afgreiða og taka ákvörðun eða semja um skaðabótakröfur tjónþola, sem búsettir eru á Íslandi, vegna tjónsatviks í öðru aðildarríki Evrópska efnahagssvæðisins (EES) eða Fríverslunarsamtaka Evrópu (EFTA) eða í öðru ríki sem er aðili að tilhöguninni um græna kortið, enda verði tjónsatvik rakið til ökutækis sem er vátryggt og að öllu jöfnu staðsett í öðru EES- eða EFTA-ríki.

Tjónsuppgjörsfulltrúi skal vera búsettur á Íslandi og vera fær um að sinna starfi sínu á íslensku. Honum er heimilt að starfa fyrir fleiri en eitt vátryggingafélag.


15. gr.
Rökstutt tilboð um bætur eða rökstutt svar.

Tjónsuppgjörsfulltrúi skal innan þriggja mánaða frá því að tjónþoli beinir að honum kröfu um bætur vegna tjónsatviks skv. 14. gr. gera skriflega rökstutt tilboð um bætur, þegar ekki er ágreiningur um bótaskyldu og tjón hefur verið metið, nema vátryggingafélagið hafi áður gert rökstutt tilboð.

Þegar bótaskyldu er hafnað eða ekki hefur verið skorið úr um hana eða ef tjón hefur ekki verið metið að fullu, skal tjónsuppgjörsfulltrúi innan frests skv. 1. mgr. skriflega gefa rökstutt svar við þeim atriðum sem tiltekin eru í kröfunni nema vátryggingafélagið hafi áður gert rökstutt tilboð.

Innan þriggja mánaða eftir að tjónþoli, sem búsettur er í öðru EES- eða EFTA-ríki, hefur vegna tjónsatviks í öðru aðildarríki en þar sem hann er búsettur, eða í öðru ríki sem er aðili að tilhöguninni um græna kortið, beint bótakröfu að vátryggingafélagi tjónvalds eða tjónsuppgjörsfulltrúa þess í búseturíki tjónþola skal félagið gera rökstutt tilboð eða svar skv. 1.-3. mgr. Þetta á þó aðeins við, ef félagið hefur starfsleyfi til að taka að sér ábyrgðartryggingu sbr. 1. mgr. 91. gr. umferðarlaga og ökutækið, sem tjónið hlaust af, er að öllu jöfnu staðsett í öðru aðildarríki en því sem tjónþoli býr í. Ákvæði 1. málsl. á ekki við ef tjónsuppgjörsfulltrúi félagsins hefur innan þriggja mánaða látið í té rökstutt tilboð eða svar.


V. KAFLI
Tjónsuppgjörsmiðstöð.
Greiðsluskylda vegna óþekktra eða óvátryggðra ökutækja.
16. gr.
Íslensk tjónsuppgjörsmiðstöð og ábyrgðaraðili.

Alþjóðlegar bifreiðatryggingar á Íslandi sf. (ABÍ) hefur verið viðurkennt sem íslensk tjónsuppgjörsmiðstöð, sem greitt getur bætur vegna tjóns af völdum vélknúins ökutækis, ef:

a. tjónþoli er búsettur á Íslandi,
b. ökutækið er vátryggt og að öllu jöfnu staðsett í öðru EES- eða EFTA-ríki, eða ef ökutæki er óþekkt, eða ef ekki er unnt að hafa upp á vátryggingafélagi því sem vátryggði ökutækið, og
c. tjónið varð í öðru EES- eða EFTA-ríki eða í öðru ríki sem er aðili að tilhöguninni um græna kortið.

ABÍ er óheimilt að gegna starfi tjónsuppgjörsfulltrúa fyrir erlent vátryggingafélag.

ABÍ er sem ábyrgðaraðila skylt að greiða bætur fyrir tjón sem hlýst af notkun óþekkts eða óvátryggðs skráningarskylds vélknúins ökutækis eins og nánar er kveðið á um í 18. gr.


17. gr.

Tjónþoli, sem er búsettur á Íslandi getur beint skaðabótakröfu að ABÍ sem tjónsuppgjörsmiðstöð vegna tjónsatviks, sem lýst er í 1. mgr. 16. gr., ef erlent vátryggingafélag tjónvalds eða tjónsuppgjörsfulltrúi þess á Íslandi hefur ekki gert rökstutt tilboð eða gefið rökstutt svar innan þriggja mánaða frá því að tjónþoli krafði vátryggingafélagið eða tjónsuppgjörsfulltrúann skaðabóta, sbr. 1. og 2. mgr. 15. gr.

Tjónþoli skv. 1. mgr. getur einnig krafið ABÍ sem tjónsuppgjörsmiðstöð ef vátryggingafélag tjónvalds hefur ekki tilnefnt tjónsuppgjörsfulltrúa á Íslandi. Tjónþoli getur þó ekki haft uppi skaðabótakröfu gagnvart ABÍ skv. 1. málsl., ef hann hefur beint kröfu að vátryggingafélagi tjónvalds og fengið rökstutt svar við henni innan þriggja mánaða.

Tjónþoli getur ekki haft uppi skaðabótakröfu gagnvart ABÍ eftir 1. eða 2. mgr. ef hann hefur höfðað mál gegn vátryggingafélagi tjónvalds.

ABÍ skal hefja aðgerðir til afgreiðslu bótakröfu innan tveggja mánaða eftir að hún barst frá tjónþola. ABÍ lýkur meðferð kröfunnar ef vátryggingafélag tjónvalds eða tjónsuppgjörsfulltrúi þess gefur tjónþola rökstutt svar við kröfunni.

Þegar skaðabótakrafan hefur borist tilkynnir ABÍ vátryggingafélagi tjónvalds eða tjónsuppgjörsfulltrúanum á Íslandi, tjónsuppgjörsmiðstöðinni í aðildarríkinu þar sem vátryggingafélagið, sem gaf út vátryggingarskírteinið, hefur staðfestu og tjónvaldi, ef vitað er um hann, að tjónþoli hafi krafið ABÍ um bætur og að ABÍ muni svara kröfunni innan tveggja mánaða frá því að tjónþoli gerði hana.


18. gr.
Tjón af völdum óþekktra eða óvátryggðra ökutækja.

ABÍ skal sem tjónsuppgjörsmiðstöð greiða tjónþola búsettum á Íslandi tjón vegna atviks í öðru EES- eða EFTA-ríki, ef ætla má að það hafi hlotist af notkun óþekkts vélknúins ökutækis eða vélknúnu ökutæki, sem að öllu jöfnu er staðsett í EES- eða EFTA-ríki eða öðru ríki sem er aðili að tilhöguninni um græna kortið, ef ekki er unnt innan tveggja mánaða að hafa upp á vátryggingafélagi því sem ábyrgðartryggði ökutækið.

ABÍ skal sem ábyrgðaraðili greiða tjónþola bætur fyrir líkamsáverka eða missi framfæranda vegna slyss á Íslandi ef ætla má að tjónið hafi hlotist af notkun óþekkts vélknúins ökutækis.

ABÍ skal sem ábyrgðaraðili greiða tjónþola bætur vegna tjónsatviks sem hlotist hefur á Íslandi af notkun ökutækis, sem engin ábyrgðartrygging hefur verið keypt fyrir, eða vátrygging þess hefur verið felld niður af vátryggingafélaginu eða ekki haldið í gildi.

Skaðabætur skv. 1.-3. mgr. greiðast af ABÍ á grundvelli gildandi umferðarlaga allt að vátryggingarfjárhæð, sem þar er ákveðin.

Skaðabætur skv. 1.-3. mgr. greiðast ekki ef ABÍ sýnir fram á að tjónþoli, sem af fúsum vilja hefur tekið sér far í ökutæki sem tjón hlýst af, vissi að lögmælt ábyrgðartrygging var ekki fyrir hendi er tjónsatvikið gerðist. Sama á við um tjón á munum, sem fluttir eru með ökutæki, sem eigandi eða sendandi þeirra vissi að var óvátryggt. Skaðabætur eftir ákvæðum þessum skal ekki heldur greiða til að fullnægja endurkröfu frá þriðja manni.

ABÍ bætir ekki tjón er ætla má að sé af völdum vélknúins ökutækis sem undanþegið er vátryggingarskyldu og er í eigu ríkissjóðs Íslands, erlends ríkis eða alþjóðastofnunar.

Auk endurkröfuréttar skv. 3. og 4. mgr. 20. gr., má ABÍ samkvæmt almennum reglum íslensks réttar endurkrefja þá, sem bera skaðabótaábyrgð á tjóni af völdum óvátryggðs ökutækis, þ.m.t. eiganda (umráðamann) og ökumann. Sama á við hafi ABÍ greitt bætur fyrir tjón af völdum óþekkts ökutækis, ef síðar upplýsist um það. Í því tilviki á ABÍ einnig endurkröfurétt á hendur vátryggjanda ökutækisins. Ákvæði þessarar málsgreinar hagga ekki reglum um kröfur samkvæmt öðrum endurkröfuheimildum.


19. gr.

ABÍ er skylt að greiða skaðabætur sem ábyrgðaraðili vegna óvátryggðs erlends ökutækis, sem um stundarsakir er notað á Íslandi án þess að vera skráð hér á landi.


20. gr.
Endurgreiðsla, endurkrafa og kröfuhafaskipti.

Sú tjónsuppgjörsmiðstöð sem hefur skv. 94. gr. a umferðarlaga greitt bætur til tjónþola í því EES- eða EFTA-ríki, sem tjónþoli býr, getur krafist þess að ABÍ endurgreiði bæturnar, ef:

a. vátryggingafélag sem gefið hefur út vátryggingarskírteini fyrir ökutækið, sem tjónið hlaust af, hefur starfsleyfi til að taka að sér ábyrgðartryggingu,
b. ökutækið sem tjónið hlaust af er að jafnaði staðsett í öðru EES- eða EFTA-ríki en því þar sem tjónþoli er búsettur, og
c. tjónsatvikið varð í öðru EES- eða EFTA-ríki en því þar sem tjónþoli er búsettur eða öðru ríki sem er aðili að tilhöguninni um græna kortið.

Tjónsuppgjörsmiðstöð sem hefur skv. 94. gr. a umferðarlaga greitt bætur til tjónþola í því EES- eða EFTA-ríki, þar sem tjónþoli býr, getur krafist þess að ABÍ endurgreiði bæturnar, ef:

a. ökutæki er að öllu jöfnu staðsett á Íslandi og ekki er vitað um vátryggingafélag þess, eða
b. ökutæki er óþekkt eða er að öllu jöfnu staðsett í öðru ríki sem er aðili að tilhöguninni um græna kortið, og tjónsatvikið verður á Íslandi.

Í samningi tjónsuppgjörsmiðstöðva skulu vera nánari reglur um framkvæmd endurgreiðslna í skiptum ABÍ og tjónsuppgjörsmiðstöðva og ábyrgðaraðila í öðrum EES- eða EFTA-ríkjum.

ABÍ öðlast rétt tjónþola á hendur tjónvaldi eða vátryggingafélagi hans að svo miklu leyti sem tjónsuppgjörsmiðstöðin í því EES- eða EFTA-ríki, þar sem tjónþoli býr, hefur greitt honum bætur, enda hafi ABÍ endurgreitt tjónsuppgjörsmiðstöðinni bæturnar í samræmi við samning, sem greindur er í 3. mgr.


VI. KAFLI
Upplýsingamiðstöð.
21. gr.

Alþjóðlegar bifreiðatryggingar á Íslandi sf. (ABÍ) hefur verið viðurkennt sem upplýsingamiðstöð.

Félagið skal safna og miðla upplýsingum um:

a. skráningarmerki vélknúinna ökutækja sem eru að öllu jöfnu staðsett á Íslandi,
b. númer vátryggingarskírteina sem taka til ábyrgðar á tjóni af notkun ökutækja, sem eru að öllu jöfnu staðsett á Íslandi, og þann dag sem vátryggingarvernd fellur niður ef gildistíma vátryggingarinnar er lokið,
c. númer græna kortsins eða landamæravátryggingarskírteinis vegna þeirra ökutækja, sem undanþegin eru ábyrgðartryggingarskyldu, ef skjöl þessi eiga við um ökutækið,
d. þau vátryggingafélög, sem ábyrgðartryggja ökutæki, sem eru að öllu jöfnu staðsett á Íslandi, og þá tjónsuppgjörsfulltrúa, sem vátryggingafélög hafa tilnefnt skv. lögum um vátryggingastarfsemi, og sem tilkynnt er um til ABÍ skv. 3. mgr. þessarar greinar,
e. ökutæki sem undanþegin eru ábyrgðartryggingarskyldu og hvaða stjórnvald ábyrgist greiðslu bóta fyrir tjón sem hlýst af þeim.

Vátryggingafélög, sem skv. lögum um vátryggingastarfsemi hafa starfsleyfi til rekstrar ábyrgðartrygginga ökutækja, skulu veita upplýsingamiðstöðvum í öllum EES- eða EFTA-ríkjum upplýsingar um nafn og heimilisfang tjónsuppgjörsfulltrúa sem er tilnefndur skv. lögum um vátryggingastarfsemi.

ABÍ skal aðstoða tjónþola, sbr. 22. gr., við að afla þeirra upplýsinga sem taldar eru í 2. mgr.

Upplýsingar sem greinir í liðum a.-e. 2. mgr., skal geyma í sjö ár frá afskráningu ökutækis eða lokum vátryggingarsamnings.


22. gr.

Tjónþoli, sem er búsettur á Íslandi, á í allt að sjö ár frá tjónsatviki rétt á að fá tafarlaust hjá ABÍ upplýsingar sem taldar eru hér á eftir ef ökutæki tjónvalds er vátryggt og að öllu jöfnu staðsett í öðru EES- eða EFTA-ríki og tjónsatvik varð í öðru aðildarríki en Íslandi eða í öðru ríki sem er aðili að tilhöguninni um græna kortið:

a. nafn og heimilisfang vátryggingafélags,
b. númer vátryggingarskírteinis,
c. nafn og heimilisfang tjónsuppgjörsfulltrúans sem vátryggingafélag hefur tilnefnt hér á landi.

Tjónþoli, sem er búsettur í öðru EES- eða EFTA-ríki en Íslandi, á í allt að sjö ár frá tjónsatviki rétt á að fá tafarlaust hjá ABÍ upplýsingar sem taldar eru hér á eftir ef ökutæki tjónvalds er vátryggt og að öllu jöfnu staðsett á Íslandi og tjónsatvik varð í öðru aðildarríki en þar sem tjónþoli er búsettur, eða í öðru ríki sem er aðili að tilhöguninni um græna kortið:

a. nafn og heimilisfang vátryggingafélags,
b. númer vátryggingarskírteinis,
c. nafn og heimilisfang tjónsuppgjörsfulltrúans, sem vátryggingafélag hefur tilnefnt í aðildarríki, þar sem tjónþoli er búsettur.

Tjónþoli, sem er búsettur í öðru EES- eða EFTA-ríki en Íslandi, á einnig, í allt að sjö ár frá tjónsatviki, rétt á að fá tafarlaust upplýsingar þær, sem greinir í 2. mgr., ef tjónsatvikið varð á Íslandi og ökutæki tjónvalds er vátryggt og að öllu jöfnu staðsett í öðru aðildarríki.

ABÍ skal hafa samvinnu við upplýsingamiðstöðvar annarra aðildarríkja.


23. gr.

ABÍ skal láta tjónþola skv. 22. gr. í té nafn og heimilisfang eiganda ökutækisins, þess sem ekur því að jafnaði eða skráðs umráðamanns, ef tjónþoli hefur lögmæta hagsmuni af því að fá þessar upplýsingar.

ABÍ lætur tjónþola í té nafn þess stjórnvalds, sem ábyrgist greiðslu bóta vegna tjóns af völdum ökutækja sem undanþegin eru ábyrgðartryggingarskyldu.


VII. KAFLI
Endurkröfunefnd.
24. gr.

Vátryggingafélag sem greitt hefur bætur vegna tjóns, sem ætla má að hafi verið valdið af ásetningi eða stórkostlegu gáleysi, skal senda gögn málsins til endurkröfunefndar sem starfar skv. umferðarlögum. Skal félagið rekja ástæður þess að endurkröfu skuli beitt og gera grein fyrir bótafjárhæðum og öðrum atriðum sem máli skipta.

Endurkröfunefnd skal heimill aðgangur að öllum gögnum sem vátryggingafélag hefur byggt á bótagreiðslur sínar samkvæmt lögmæltum ábyrgðartryggingum. Nefndin getur að eigin frumkvæði tekið mál til meðferðar.


25. gr.

Um málsmeðferð fyrir endurkröfunefnd fer eftir ákvæðum stjórnsýslulaga nr. 37 30. apríl 1993.


26. gr.

Nefndin skal eftir því sem kostur er fylgjast með að fyrirmælum sé fylgt, m.a. að mál verði látið ganga til dómstóla, ef sá sem endurkrafa beinist gegn neitar að greiða endurkröfu eða ekki semst um greiðslu hennar.


27. gr.

Nefndin skal halda gerðabók þar sem skráð skal skýrsla um fundi nefndarinnar. Þar skal í hverju máli m.a. koma fram númer máls hjá nefndinni, aðilar þess, tjónsdagur, ástæður þess að endurkröfuheimildar er óskað og niðurstaða nefndarinnar.

Nefndinni er heimilt með samþykki dómsmálaráðuneytis að ráða sér starfslið er undirbúi mál fyrir fundi nefndarinnar og annist önnur störf fyrir nefndina á hennar ábyrgð.

Endurkröfunefnd skal fyrir 1. mars ár hvert skila dómsmálaráðuneytinu skýrslu um störf sín á næstliðnu ári.


28. gr.

Kostnaður af störfum endurkröfunefndar greiðist úr ríkissjóði. Vátryggingafélögin skulu endurgreiða þann kostnað samkvæmt ákvörðun dómsmálaráðuneytis í hlutfalli við fjölda mála, sem félögin leggja fyrir nefndina.


VIII. KAFLI
Gildistaka.
29. gr.

Reglugerð þessi, sem sett er samkvæmt heimild í 6. mgr. 91. gr., 1. mgr. 94. gr., 3. mgr. 94. gr. a, 2. mgr. 94. gr. b og 2. og 3. mgr. 96. gr. umferðarlaga, nr. 50 30. mars 1987 með síðari breytingum, svo og með hliðsjón af IX. viðauka við EES-samninginn, tilskipun 72/166/EBE með breytingu samkvæmt tilskipun 72/430/EBE, tilskipunum 84/5/EBE, 90/232/EBE, 2000/26/EB og ákvörðunum 91/323/EBE, 93/43/EBE, 97/828/EB og 1999/103/EB, öðlast þegar gildi og á við um tjónsatvik, sem verða eftir gildistöku reglugerðarinnar.

Jafnframt fellur úr gildi reglugerð um lögmæltar ökutækjatryggingar nr. 556 29. desember 1993 ásamt breytingum með reglugerðum nr. 531 3. júní 1998, 532 31. ágúst 1998 og 309 3. maí 1999.


Dóms- og kirkjumálaráðuneytinu, 27. maí 2003.

Björn Bjarnason.
Björn Friðfinnsson.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica