Dóms- og kirkjumálaráðuneyti

206/1991

Reglugerð um Jöfnunarsjóð sókna.

1. gr.

Kirkjuráð hinnar íslensku þjóðkirkju hefur á hendi umsjá og stjórn Jöfnunarsjóðs sókna og ber á honum ábyrgð.

2. gr.

Hlutverk Jöfnunarsjóðs sókna er:

1. Að veita styrki til þeirra kirkna, sem hafa sérstöðu umfram aðrar sóknarkirkjur, þannig að þær vegna sögulegra eða annarra sérstakra ástæðna geta talist kirkjur alls landsins. Er hér fyrst og fremst átt við Dómkirkjuna í Reykjavík, Hóladómkirkju, Skálholtsdómkirkju, Hallgrímskirkju í Reykjavík og Hallgrímskirkju í Saurbæ.

Veita má styrki til rekstrar, viðhalds og endurbóta nefndra kirkna, svo og til kaupa, endurnýjunar og viðhalds á nauðsynlegum búnaði þeirra, til viðbótar þeim styrkjum, sem veittir kunna að verða úr ríkissjóði.

Heimilt er að veita allt að 30% af ráðstöfunarfé sjóðsins til þessa liðar.

2. Að leitast við að jafna aðstöðu sókna og styrkja sóknir, þar sem tekjur skv. lögum um sóknargjöld, nægja ekki fyrir nauðsynlegum útgjöldum að dómi sóknarnefndar og sóknarprests og að fenginni umsögn héraðsnefndar.

Heimilt er að veita styrki samkvæmt þessari grein til nauðsynlegra verklegra framkvæmda á vegum sókna, til að styrkja rekstur kirkna, t.d. til kaupa á nauðsynlegum búnaði þeirra og til að styðja kirkjulegt starf innan sókna. Ennfremur er heimilt að veita styrki til að greiða fyrir sameiningu fámennra sókna, sbr. 3. gr. laga nr. 25/1985 og til að styrkja sóknir, sem bera sérstakan kostnað skv. 8. gr. sömu laga.

Með styrkjum til verklegra framkvæmda er átt við framlög til viðhalds, endurbóta og nýbygginga kirkna. Ennfremur styrki til byggingar þjónusturýmis og safnaðarheimila, þar sem þeirra er þörf.

Heimilt er að veita allt að 60% af ráðstöfunartekjum sjóðsins til þessa töluliðar.

3. Að veita styrki til að auðvelda stofnun sókna í nýjum byggðahverfum og greiða fyrir kirkjulegu starfi þar.

Heimilt er að veita allt að 15% af ráðstöfunartekjum sjóðsins til þessa liðar.

4. Að styrkja safnaðaruppbyggingu og aðra kirkjulega félags- og menningarstarfsemi innan sókna eða prófastsdæma og veita héraðssjóðum styrki til verkefna, er undir þá falla, sbr. 8. gr. laga um sóknargjöld.

Einnig er heimilt skv. þessum lið að veita styrki til kirkjulegrar félags- og menningarstarfsemi og verkefna, sem þjóðkirkjan í heild eða einstakar stofnanir hennar standa fyrir. Ennfremur að styrkja landssamtök, sem eiga rétt á að tilnefna fulltrúa á leikmannastefnu kirkjunnar.

Við mat á styrkveitingum til héraðssjóða, skal m.a. höfð hliðsjón af því, hvort þeir fullnýti tekjustofna sína, sbr. 8. gr. laga um sóknargjöld.

Heimilt er að veita allt að 15% af ráðstöfunarfé sjóðsins til þessa liðar.

3. gr.

Kirkjuráð semur árlega fjárhagsáætlun fyrir sjóðinn. Áætlun um úthlutun og fjárhag skal kynnt dóms- og kirkjumálaráðuneytinu fyrir lok maímánaðar ár hvert. Áætlun skal einnig kynnt kirkjuþingi.

4. gr.

Umsóknir um framlög úr Jöfnunarsjóði sókna skulu berast biskupsstofu fyrir 15. mars ár hvert og skal stjórn sjóðsins hafa lokið úthlutun fyrir 1. maí sama ár. Umsóknir skulu rökstuddar og þeim skulu fylgja greinargerðir, þar sem m.a. skal gera grein fyrir fjárþörf og þeim verkefnum, sem sótt er um styrk til.

Umsóknir um styrki til nýbygginga kirkna og annarra fjárfrekra famkvæmda skulu að jafnaði berast sjóðnum áður en hafist er handa um framkvæmdir. Umsóknum eiga að fylgja nákvæmar kostnaðar- og framkvæmdaáætlanir, ásamt teikningum. Stjórn jöfnunarsjóðs getur leitað álits sérfróðra aðila um fyrirhugaðar framkvæmdir, sérstaklega ef það hefur ekki þegar verið gert. Heimilt er að veita greiðsluloforð til allt að fjögurra ára.

5. gr.

Jöfnunarsjóði er heimilt með samþykki biskups og dóms- og kirkjumálaráðuneytis, að taka lán og endurlána eða ábyrgjast greiðslu lána, vegna verkefna, sem sjóðnum er ætlað að sinna.

6. gr.

Biskupsstofa fer með reikningshald Jöfnunarsjóðs sókna. Heimilt er með samþykki dóms- og kirkjumálaráðuneytisins að greiða af óskiptum tekjum sjóðsins kostnað vegna stjórnunar og bókhalds.

Ríkisendurskoðun endurskoðar bókhald sjóðsins.

7. gr.

Reglugerð þessi, sem sett er með heimild í 9. gr. laga um sóknargjöld o.fl., nr. 91 frá 29. des. 1987, öðlast þegar gildi.

Dóms- og kirkjumálaráðuneytið, I1. apríl 1991.

Óli Þ. Guðbjartsson.

Anna G. Björnsdóttir.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica