Dóms- og kirkjumálaráðuneyti

148/2000

Reglugerð um happdrætti Dvalarheimilis aldraðra sjómanna.

Breytingareglugerðir:

I. KAFLI

Yfirstjórn.

1. gr.

Dvalarheimili aldraðra sjómanna í Reykjavík og Hafnarfirði, skammstafað D.A.S., er heimilt að reka flokkahappdrætti um bifreiðir, bifhjól, báta, búnaðarvélar, íbúðarhús og einstakar íbúðir, húsbúnað, hljóðfæri, búpening, flugvélar og farmiða til ferðalaga, svo og símahappdrætti um bifreiðir og húsbúnað, samkvæmt nánari ákvörðun í II. og III. kafla reglugerðarinnar.

2. gr.

Stjórn fulltrúaráðs sjómannadagsins í Reykjavík og Hafnarfirði fer með yfirstjórn happdrættisins og hefur á hendi reikningshald þess eða felur það framkvæmdastjóra. Hún skal færa ákvarðanir, er happdrættið varða, í gerðabók sína. Stjórn fulltrúaráðs sjómannadagsins ræður forstjóra happdrættisins.

3. gr.

Reikningsár happdrættisins er frá 1. maí til 30. apríl. Dómsmálaráðuneytið skipar tvo endurskoðendur reikninganna. Þóknun til þeirra greiðist af fé happdrættisins.

4. gr.

Dómsmálaráðherra skipar þriggja manna happdrættisráð til þriggja ára í senn og tvo til vara og ákveður formann þess. Dómsmálaráðuneytið ákveður þóknun happdrættisráðsmanna, er greiðist af fé happdrættisins. Happdrættisráð skal hafa aðgang að bókum og skjölum happdrættisins, og skal því veitt sú vitneskja um starfsemina sem það óskar. Það skal tafarlaust tilkynna dómsmálaráðuneytinu ef það telur ákvæði laga um happdrættið eða reglugerðar þessarar brotin. Happdrættisráð hefur eftirlit með og úrskurðarvald um drætti, svo sem síðar segir.

II. KAFLI

Flokkahappdrætti.

5. gr.

Happdrættið gefur árlega út 80.000 -áttatíuþúsund- hlutamiða. Af hverjum hlutamiða eru gefnar út tvær flokkaraðir, sem greinast að með bókstöfunum A og B. Sama verð gildir um hvora flokkaröð. Draga skal úr öllum útgefnum númerum í báðum flokkaröðunum.

Hver hlutamiði ber áprentað númer frá 1 - 80.000, flokksnúmer frá 1 - 12, verð miðans, síðasta söludag, dráttardaga og innlausnarfrest vinninga. Á miðann skal prenta eiginhandarundirskrift forstjóra happdrættisins og á honum skal vera undirskrift og eiginhandarstimpill söluumboðsmanns. Draga skal fjórum sinnum í mánuði í hverjum flokki þannig að útdrættir verði samtals 48 á happdrættisárinu.

6. gr.

Heildarverðmæti vinninga miðað við smásöluverð skal nema a.m.k. 40% af heildarsöluverði miða í öllum 12 flokkunum.

Stjórn happdrættisins ákveður vinningaskrá fyrirfram fyrir happdrættisárið að fengnu samþykki happdrættisráðsins. Verðmæti vinninga að meðaltali í hverjum flokki skal vera svipað. Fjöldi vinninga í flokkaröðinni skal vera tilgreindur í vinningaskrá svo og verðmæti þeirra.

7. gr.

Verð hlutamiða í hvorri flokkaröð skal vera 8.400 kr. ef keyptur er miði sem gildir í öllum 12 flokkum happdrættisársins sem er frá 1. maí til 30. apríl ár hvert.

Verð miða fyrir hvern flokk er 700 kr.

Sé óskað eftir að kaupa hlutamiða eftir að dregið hefur verið í fyrsta flokki happdrættisins eða síðar skal greiða fyrir hann, auk andvirðis þess flokks sem næst á að draga í, samanlagt verð hlutamiðans í öllum þeim flokkum sem dregið hefur verið í á árinu.

8. gr.

Hlutamiðar eru seldir í aðalumboði happdrættis D.A.S. í Reykjavík og hjá umboðsmönnum happdrættisins víðs vegar um landið. Endurnýjun hlutamiða hefst 20. hvers mánaðar og varir til kvölds síðasta endurnýjunardags, sem skráður er á hvern miða.

9. gr.

Um vinninga skal dregið á þeim fimmtudögum sem koma upp eftir þriðja virkan dag mánaðarins. Ef fyrsti fimmtudagur mánaðarins kemur upp á fyrstu þremur dögum mánaðarins er heimilt að framlengja endurnýjunartímann fram til annars fimmtudags mánaðarins, enda fari útdráttur þá fram á þeim degi. Beri fimmtudag upp á almennan frídag skal draga næsta virkan dag á undan eða eftir.

Happdrættisráð getur veitt undanþágu frá ákvæði þessarar greinar ef því þykir ástæða til.

10. gr.

Útdráttur vinninga fer fram opinberlega í Reykjavík þar sem happdrættisráð samþykkir.

Útdráttur fer fram undir eftirliti happdrættisráðs og að viðstöddum fulltrúa happdrættisins.

11. gr.

Við útdrátt vinninga skal nota eftirfarandi gögn og tæki:

a. Tölvu sem samþykkt er af happdrættisráði og stjórnað af sérfróðum manni.

b. Dráttarforrit og annan hugbúnað sem stýrir tölvunni við útdráttinn. Þessi hugbúnaður skal varðveittur í tölvutæku formi.

c. Stokk til útdráttar á lykiltölu fyrir dráttarforritið. Stokkurinn skal vera með 8 hólfum og í hverju hólfi skal vera reglulegur tvítugflötungur, en á hvern flöt hans skal skráð ein talnanna frá 0 til 9, þannig að sérhver tala er á tveimur flötum.

d. Nauðsynlegan tölvupappír og annan búnað í samræmi við þarfir forritsins.

12. gr.

Dráttarforrit skal gert samkvæmt viðurkenndum aðferðum. Dráttarforrit skal þannig gert, að fyrst er dreginn út hæsti (hæstu) vinningar, síðan næsthæsti (næsthæstu) o.s.frv. Happdrættisráð fær tvo sérfróða menn til að yfirfara dráttarforritið í upphafi, svo og í hvert sinn, sem breytingar eru gerðar á því. Skulu hinir sérfróðu menn leggja skriflega greinargerð um gerð forritsins fyrir happdrættisráðið, sem síðan staðfestir það.

Dráttarforritið og annar hugbúnaður skal varðveittur milli drátta með öruggum hætti og undir innsigli happdrættisráðs.

13. gr.

Útdráttur vinninga í happdrættinu fer fram með eftirfarandi hætti:

a.         Valin er 48 stafa lykiltala. Fer valið fram með þeim hætti að stokknum er snúið en að því búnu er skráð sú 8 stafa tala sem fram kemur. Er þetta síðan endurtekið þar til fyrir liggur 48 stafa tala.

b. Tölvan er hreinsuð og færð í upphafsstöðu.

c. Dráttarforritið og annar hugbúnaður er tekinn undan innsigli og búnaðurinn settur í tölvuna.

d. Lykiltalan og upplýsingar varðandi útdráttinn, svo sem fjöldi númera og tegundir vinninga og verðmæti, eru slegnar inn í tölvuna frá lyklaborði og prentast út jafnhliða.

e. Tölvan dregur og prentar út vinningaskrá sem happdrættisráð staðfestir með undirskrift sinni.

f. Sé óskað eftir afriti vinningaskrár á segulmiðli er það nú gert.

g. Dráttarforritið og annar hugbúnaður er tekinn til varðveislu af happdrættisráði.

Happdrættisráð færir skýrslu um framkvæmd útdráttarins.

14. gr.

Bili tölvan eða útdráttur stöðvast af öðrum óviðráðanlegum ástæðum, tekur happdrættisráð öll gögn vegna útdráttarins til varðveislu. Þessi sömu gögn, þ. á m. lykiltalan, skulu notuð við endurtekningu útdráttarins.

15. gr.

Ef ágreiningur rís um lögmæti eða gildi dráttar meðan dráttur fer fram eða eftir að honum er lokið, skal skjóta honum til happdrættisráðs, sem leggur fullnaðarúrskurð á ágreininginn.

16. gr.

Að loknum drætti lætur happdrættið prenta skýrslu um vinninga, hvaða númer hafa hlotið vinninga og hve háa. Skal skýrslan send öllum umboðsmönnum happdrættisins og vera þar til sýnis viðskiptamönnum.

17. gr.

Eigandi miða sem hlotið hefur vinning skal snúa sér til þess umboðsmanns er seldi miðann. Umboðsmaðurinn stimplar þá vinningsmerki á miðann, ritar á hann hver vinningurinn er, dagsetningu og skrifar nafn sitt undir.

Í upphafi hvers happdrættisárs eiga menn kost á því að kaupa hlutamiða með sama númeri, sem þeir hafa haft næsta ár á undan, ef þeir snúa sér til umboðsmanns happdrættisins á þeim tíma sem stjórn happdrættisins auglýsir. Þetta gildir þó því aðeins að umboðsmaðurinn hafi fengið umrætt númer aftur frá skrifstofu happdrættis D.A.S.

18. gr.

Allir vinningar greiðast í bifreiðum, bifhjólum, bátum eða búnaðarvélum, íbúðarhúsum eða einstökum íbúðum, húsbúnaði, hljóðfærum, búpeningi, flugvélum og farmiðum til ferðalaga, og er happdrætti D.A.S. óheimilt að greiða andvirði þeirra í peningum.

19. gr.

Vinninga afhenda einungis viðurkenndir umboðsmenn happdrættisins. Vinning má ekki afhenda nema gegn stimpluðum og árituðum miða samkv. 17. gr.

Á vinningaskrá skal auglýst hvenær afhending vinninga hefst. Ef mótmæli koma fram gegn afhendingu vinninga til handhafa hlutamiða, áður en afhending hefst samkvæmt auglýsingunni, skal vinningur ekki afhentur fyrr en 8 vikur eru liðnar frá því afhending átti að hefjast og skal hann þá afhentur handhafa miðans, nema sannað sé að mál sé þingfest til úrskurðar um eignarrétt vinningsins og skal þá vinningurinn ekki afhentur fyrr en dómsúrskurður er fallinn.

Ef miði sem vinning hlýtur hefur glatast getur eigandi hans snúið sér til stjórnar happdrættisins með beiðni um að fá vinninginn afhentan, en fylgja skal vottorð umboðsmanns sem seldi miðann um það að samkvæmt bókum hans hafi umsækjandi keypt miðann. Slík beiðni þarf að komast í hendur stjórnar happdrættisins innan 6 mánaða frá drætti, en hafi vinningur samkvæmt miðanum þegar verið afhentur er beiðnin kom fram, er happdrættið laust allra mála.

III. KAFLI

Símahappdrætti.

20. gr.

Þátttaka í símahappdrættinu fer fram með því að hringja í tiltekið símanúmer í símatorgsþjónustu Landssímans. Símsvari býður þátttakanda velkominn til þátttöku í happdrættinu og veitir upplýsingar um skilmála happdrættisins að kostnaðarlausu. Kemur þar m.a. fram að viðkomandi símanúmer verði birt opinberlega, hve mikið þátttaka kostar og að rétthafi símans sé vinningshafi. Þátttakandi staðfestir þátttöku með því að þrýsta á viðkomandi hnapp á takkaborði símans. Við það skráir tölva Landssímans símanúmer það sem hringt er úr og raðnúmer það sem viðkomandi hringing fær, sem notað er við útdrátt í happdrættinu.

Hægt er að hringja oftar en einu sinni úr hverju símanúmeri og fæst þá nýtt raðnúmer í hvert sinn sem hringt er. Óheimilt er þó að skrá fleiri en 20 raðnúmer á hvert símanúmer.

Skráður rétthafi símanúmers er jafnframt skráður handhafi raðnúmera þeirra sem símanúmerið fær.

21. gr.

Gjald fyrir hverja hringingu, þar sem þátttaka í happdrættinu er staðfest, er 100 kr. og gjaldfærist á símareikning rétthafa símanúmersins. Á reikningsyfirliti Landssímans kemur fram að um þátttöku í happdrætti D.A.S. sé að ræða. Landssíminn sér um að innheimta þátttökugjald í gegnum innheimtukerfi fyrirtækisins.

22. gr.

Fyrir hvern útdrátt í happdrættinu, sem fram fer vikulega, afhendir Landssíminn happdrætti D.A.S. skrá yfir raðnúmer og hvaða símanúmer tilheyra hverju raðnúmeri.

23. gr.

Útdráttur í happdrættinu fer að jafnaði fram á fimmtudegi í viku hverri. Beri fimmtudag upp á almennan frídag skal draga næsta virkan dag á undan eða eftir. Happdrættisráð getur veitt undanþágu frá ákvæði þessarar greinar ef því þykir ástæða til.

Sölutímabil hverrar viku er frá kl. 08.00 næsta dag eftir útdráttardag til kl. 16.00 á útdráttardegi.

24. gr.

Til vinninga í happdrættinu skal verja a.m.k. 20% af heildarsöluverði hverrar happdrættisviku.

Vinningsverðmæti skiptist þannig:

a) Einn bifreiðavinningur og skal hann vera að lágmarki 70% af vinningsverðmæti.

Verðmæti bifreiðavinningsins ákvarðast við að hjóli með 32 reitum er snúið í sjónvarpsþætti á vegum happdrættis D.A.S. og skal meðalverðmæti vinninga á hjólinu ekki vera undir 1.100.000 kr.

b) 100 húsbúnaðarvinningar og skal varið til þeirra að lágmarki 30% af vinningsverðmæti sem skiptist jafnt á þá.

Vinningsnúmer skal birta í fjölmiðlum eftir hvern útdrátt.

25. gr.

Um útdrátt í símahappdrættinu gilda ákvæði 10. - 16. gr. eftir því sem við á.

26. gr.

Rétthafi símanúmers, sem hlotið hefur vinning, skal snúa sér til skrifstofu happdrættis D.A.S. til að vitja vinnings.

IV. KAFLI

Almenn ákvæði.

27. gr.

Vinningar sem enginn hefur vitjað innan eins árs frá dráttardegi verða eign happdrættisins.

28. gr.

Reglugerð þessi, sem sett er samkvæmt heimild í lögum um happdrætti Dvalarheimilis aldraðra sjómanna, nr. 16 13. apríl 1973, sbr. lög nr. 53 25. maí 1976, lög nr. 24 26. mars 1987 og lög nr. 21 17. apríl 1997, um breyting á þeim lögum, öðlast þegar gildi. Jafnframt fellur úr gildi reglugerð um happdrætti Dvalarheimilis aldraðra sjómanna nr. 193 21. mars 1996.

Dóms- og kirkjumálaráðuneytinu, 1. mars 2000.

Sólveig Pétursdóttir.

Björn Friðfinnsson.

 


Þetta vefsvæði byggir á Eplica