Leita
Hreinsa Um leit

Dóms- og kirkjumálaráðuneyti

16/1922

Reglugerð um útgáfu almanaks. - Brottfallin

Telst fallin brott með brottfellingu laga nr. 25/1921

1. gr.

Háskóli Íslands hefir einkarjett til þess að gefa út og selja eða afhenda með öðrum hætti almanök og dagatöl á Íslandi. Einkarjetturinn byrjar með útgáfu almanaks fyrir árið 1923.

2. gr.

Það er brot á einkarjetti Háskólans, þeim er ræðir um í 1. gr., ef maður:

1. Flytur inn í landið til sölu eða afhendingar með öðrum hætti önnur almanök eða dagatöl en þau, er Háskólinn hefir gefið út.

2. Selur hjer á landi eða afhendir með öðrum hætti önnur almanök eða dagatöl en þau er Háskólinn hefir gefið út.

3. Gefur út hjer á landi á prenti eða með öðrum hætti almanök eða dagatöl eða kafla úr þeim.

4. Prentar upp eða fjölritar almanök Háskólans eða dagatöl, eða kafla úr þeim til að selja eða láta af hendi með öðrum hætti.

Þó er heimilt að taka kafla úr erlendum almanökum eða almanaki Háskólans í vísindarit eða kenslubækur og þess konar rit til skýringar, svo og að flytja inn í landið og selja þar útlend vísindarit eða kenslubækur með köflum úr almanökum, enda megi þeir teljast, að dómi ráðherra, aðeins óverulegur hluti ritsins eða bókarinnar.

3. gr.

Háskólanum er skylt að sjá um að íslenskt almanak sje ár hvert gefið út í nægilega mörgum eintökum og svo snemma, að almenningur eigi þess kost, að afla sjer þess fyrir ár það, er í hönd fer, hjá útsölumönnum, sem víðast um landið, í hverri sýslu eða kaupstað, fyrir hver áramót.

4. gr.

Í almanakið skal taka: dagatal eftir mánaðardögum og vikudögum, bæði eftir gregoriönsku tímatali og íslensku, hátíðir kirkjuársins og helstu kafla þess, sumarkomu og veturnætur, helstu merkisdaga búskaparársins svo sem byrjun og lok vertíðar og fardaga, þjóðminningardaga hina helstu. Þar skal skýrt frá tunglkomum, kvartilaskiftum tungls og fyllingu, hvenær tungl er í hádegisstað í Reykjavík dag hvern, hvenær tungl er næst jörðu eða til viðar í Reykjavík einu sinni á viku hverri, hvenær jörð er næst sólu eða fjarst, jafndægrum, sólstöðum og sólhvörfum og sólmyrkvum. Þar skal skýrt frá íslenskum meðaltíma, er sól er í hádegisstað í Reykjavík dag hvern, gyllinitali og sunnudagsbókstaf ársins, gefið yfirlit yfir gang reikistjarna á árinu, þar skal vera tafla um flóð og fjöru í Reykjavík, og leiðbeiningar um það, hvernig finna megi af þeirri töflu flóð og fjöru í helstu kauptúnum landsins, og skýringar á lengdar- og breiddarleiðrjettingum á gangi sólar og tungls á Íslandi utan Reykjavíkur.

5. gr.

Háskólaráðið sjer um útreikning almanaksins útgáfu þess og sölu. Er því heimilt að fela einstökum mönnum, stofnunum eða fjelögum framkvæmd þessara atriða eins eða fleiri, og að greiða endurgjald fyrir þau störf.

Háskólaráðið getur, að fengnu samþykki ráðuneytisins í hvert sinn, selt einstökum mönnum, stofnunum eða fjelögum einkarjett Háskólans til útgáfu íslensks almanaks, um ákveðið árabil, enda sje næg trygging fyrir því, að útgáfan verði vel af hendi leyst, útsala almanaksins haganleg fyrir almenning, og hlíti útgefandi sömu reglum um verð almanaksins sem Háskólinn. Endurgjaldið fyrir útgáfurjettinn renni í almanakssjóð.

6. gr.

Háskólaráðið heldur reikning yfir tekjur og gjöld af útgáfu almanaksins og birtir hann árlega í árbók Háskólans, endurskoðaðan, með sama hætti sem ársreikning Háskólans.

7. gr.

Ráðherra ákveður verð almanaka þeirra, er Háskólinn gefur út, eftir tillögum Háskólaráðs. Verðið skal ákveðið fyrir eitt ár í senn og skal það prentað á almanökunum.

8. gr.

Almanök þau, er Háskólinn gefur út, skal stimpla áður en þau sjeu afhent, með stimpli, er Háskólaráðið lætur gjöra. Ekkert almanak má selja eða afhenda með öðrum hætti, hafi það eigi verið stimplað þannig.

9. gr.

Ráðherra getur, eftir tillögum Háskólaráðs, leyft að gefa út dagatöl og þess konar bækur eða töflur, svo og að flytja inn í landið útlend almanök eða dagatöl.

Sá er fá vill slíkt leyfi sendi um það skriflega umsókn til dóms- og kirkjumálaráðuneytisins. Skal þar skýrt greinilega frá gerð og efni ritsins, eintakafjölda, hvar afhenda eigi ritið, hvort það sje ætlað til sölu eða afhendingar með öðrum hætti og hvert söluverð þess sje, eigi að selja það.

Leyfið skal því aðeins veitt, að leyfisbeiðandi greiði til Háskólans gjald af hverju eintaki. Gjaldið ákveður ráðherra í hvert skifti eftir tillögum Háskólaráðs. Hvert eintak rita þeirra, er þannig er leyft að gefa út eða flytja inn, skal á kostnað leyfisbeiðanda stimplað með stimpli þeim, er getur um í 7. gr., og má eigi afhenda neitt þeirra án þess þau hafi verið stimpluð.

10. gr.

Hreinan arð af útgáfu almanaks ár hvert, skaðabætur og sektir fyrir brot á einkarjettinum, andvirði upptækra rita og gjöld samkv. 4. og 8. gr. þessarar reglugerðar, skal leggja í sjerstakan sjóð, sem almanakssjóður heiti, og stjórnar Háskólaráðið honum. Skal verja vöxtum sjóðsins, þegar innstæðan þykir hafa vaxið nægilega, til eflingar stærðfræðisvísindum á Íslandi.

Háskólaráðið skal árlega birta reikning sjóðsins í árbók Háskólans, og skal það, er innstæða sjóðsins er orðin kr. 10000.00 semja skipulagsskrá fyrir sjóðinn, er ráðherra staðfesti.

Reglugjörð þessi, sem Háskólaráðið hefir samið samkvæmt lögum nr. 25 frá 27. júní 1921, um einkaleyfi handa Háskóla Íslands til útgáfu almanaks, staðfestist hjermeð.

Dóms- og kirkjumálaráðuneytið, 25. febrúar 1922.


Jón Magnússon.


G. Sveinbjörnsson.
Þetta vefsvæði byggir á Eplica