1. gr.
Stæðiskort fyrir hreyfihamlaða veitir, í sambandi við flutning á þeim sem fengið hefur slíkt kort útgefið, heimild til að leggja ökutæki hvar sem er á landinu í bifreiðastæði sem ætlað er fyrir fatlaða og auðkennt er með þar til gerðu umferðarmerki.
2. gr.
Umsókn um stæðiskort fyrir hreyfihamlaða skal leggja fram hjá lögreglustjóra þar sem umsækjandi á lögheimili eða dvelur að jafnaði, svo sem í skóla.
Skilyrði fyrir útgáfu stæðiskorts er að umsækjandi hafi annaðhvort sem ökumaður sérstaka þörf á ívilnun til að leggja ökutæki vegna heimilis, vinnu eða annarrar starfsemi vegna þess að hann getur ekki gengið eða á mjög erfitt með að hreyfa sig nokkurn spöl eða að hann hafi sem farþegi sérstaka þörf á sams konar ívilnun af sömu ástæðu.
Umsókn um stæðiskort skal fylgja vottorð læknis sem gert skal samkvæmt fyrirmælum landlæknis.
Umsókn um stæðiskort skal rita á eyðublað sem lögreglustjóri lætur í té.
3. gr.
Lögreglustjóri skal leggja sjálfstætt mat á umsókn um stæðiskort og tryggja að fullnægjandi upplýsingar um hreyfihömlun umsækjanda liggi fyrir áður en ákvörðun um útgáfu korts eða endurnýjun er tekin.
Ríkislögreglustjóri gefur út stæðiskort fyrir hreyfihamlaða.
Ríkislögreglustjóri skal halda landsskrá um útgefin stæðiskort.
4. gr.
Stæðiskort fyrir hreyfihamlaða skal vera af EES gerð í samræmi við ákvæði í viðauka.
Stæðiskort skal gefa út í tiltekinn tíma, að hámarki fimm ár, þó ekki skemur en tvö ár. Ef þörf er tímabundin má gefa út kort til skemmri tíma.
Ef vetrarfærð veldur hreyfihömlun sérstaklega má gefa út stæðiskort er gildi fyrir tímabilið frá 15. október til 1. maí.
5. gr.
Þegar ökutæki er lagt í bifreiðastæði skal stæðiskortinu komið fyrir innan við framrúðu þannig að framhlið þess sjáist vel að utan.
Skylt er að sýna stæðiskort við eftirlit. Heimilt er lögreglumanni eða stöðuverði sem annast eftirlit með stöðvunarbrotum að leggja hald á stæðiskort til bráðabirgða ef grunur leikur á misnotkun þess.
Ef stöðuvörður eða lögreglumaður verður var við misnotkun stæðiskorts skal hann gera viðkomandi lögreglustjóra viðvart.
6. gr.
Útlendingi sem í heimalandi sínu hefur fengið útgefið stæðiskort fyrir hreyfihamlaða er heimilt að leggja ökutæki eins og greinir í 1. gr.
Slíkt stæðiskort skal bera hið alþjóðlega tákn fyrir fatlaða, svo og nafn rétthafa eða skráningarmerki ökutækisins.
Stæðiskort sem gefið er út samkvæmt 4. gr. gildir erlendis að því leyti sem hvert land ákveður.
7. gr.
Lögreglustjóri getur afturkallað stæðiskort ef það er misnotað eða ef aðstæður breytast þannig að skilyrði sem sett eru í 2. gr. eru ekki lengur fyrir hendi.
Sá sem fengið hefur útgefið stæðiskort samkvæmt reglugerð þessari skal tilkynna lögreglustjóra um breyttar aðstæður sem varðað geta gildi kortsins.
8. gr.
Synjun um útgáfu stæðiskorts samkvæmt 3. gr. og ákvörðun um afturköllun samkvæmt 7. gr. má skjóta til sérstakrar úrskurðarnefndar sem dómsmálaráðherra skipar til þriggja ára í senn.
Úrskurðarnefndin skal skipuð einum fulltrúa tilnefndum af ríkislögreglustjóra, sem skal vera formaður nefndarinnar, einum fulltrúa tilnefndum af Sjálfsbjörg, landssambandi fatlaðra og einum tilnefndum af landlækni. Varamenn skulu skipaðir á sama hátt.
9. gr.
Bifreiðastæðiskort fyrir fatlaða (P-merki) sem gefin hafa verið út af Sjálfsbjörg, landssambandi fatlaðra fyrir gildistöku reglugerðar þessarar skulu halda gildi sínu hér á landi þar til gildistími þeirra rennur út eða stæðiskort fyrir hreyfihamlaða verður gefið út samkvæmt reglugerð þessari.
Ákvæði reglugerðarinnar gilda að öðru leyti um þessi kort eftir því sem við á.
10. gr.
Reglugerð þessi, sem sett er samkvæmt heimild í 78. gr. a umferðarlaga nr. 50 30. mars 1987, sbr. 6. gr. laga nr. 48 22. maí 1997, svo og með hliðsjón af 90. tölul. í XIII. viðauka (tilmæli 98/376/EB) við EES-samninginn, öðlast gildi 5. júní 2000.
EES-gerðin sem vísað er til er birt í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi EB, nr. 46 1999, bls. 159-163.
Dóms- og kirkjumálaráðuneytinu, 30. maí 2000.
F. h. r.
Björn Friðfinnsson.
__________________
Sandra Baldvinsdóttir.
VIÐAUKI
Gerð stæðiskorts fyrir hreyfihamlaða skal vera í samræmi við meðfylgjandi mynd:
Um útlit stæðiskortsins og efni gildir að öðru leyti eftirfarandi:
Stærð kortsins skal vera 106 mm á lengd og 148 mm á breidd.Kortið skal vera ljósblátt að lit, að undanskildu hvíta tákninu fyrir fatlaða, á dökkbláum grunni.Kortið skal vera plasthúðað, nema á þeim stað sem ætlaður er fyrir undirskrift korthafans vinstra megin á bakhlið.Á framhlið kortsins skal koma fram lokadagur þess og gildistími ef um vetrarkort er að ræða, svo og raðnúmer kortsins.Hægra megin á framhlið kortsins skal þjóðernismerkið, ÍS, í sporöskjulaga hring vera sem bakgrunnur.Vinstra megin á bakhlið kortsins skal rita:Eiginnafn (eiginnöfn) korthafa og, ef því er að skipta, millinafn.Kenninafn korthafa.Auk þess skal þar vera undirskrift korthafa og ljósmynd.