1. Skipun nefndarinnar og skipulag.
1. Stjórnarfarslega heyrir nefndin undir ríkislögreglustjóra.
2. Nefndina skipa fjórir menn, rannsóknarlögreglumaður af almennu sviði, sem jafnframt er formaður, rannsóknarlögreglumaður af tæknisviði, réttarlæknir og tannlæknir.
3. Fyrir hvern nefndarmann skulu vera a.m.k. tveir varamenn. Við skipun varamanna fyrir réttarlækni og tannlækni skal taka tillit til landfræðilegrar staðsetningar þeirra, eftir því sem tök eru á.
4. Að fenginni tillögu frá ríkislögreglustjóranum, réttarlæknisdeild Læknaráðs og tannlæknadeildar Háskóla Íslands, skipar dómsmálaráðherra nefndarmenn og varamenn til þriggja ára.
2. Verkefni nefndarinnar.
1. Nefndin skal leitast við að bera kennsl á menn, er margir hafa týnt lífi í flugslysi, skriðuföllum, snjóflóðum, flóði eða skipstapa eða öðrum náttúruhamförum, eða þegar óþekkt lík eða líkamsleifar finnast.
2. Við störf sín skal nefndin tryggja að gögn, sem finnast og geta haft þýðingu við að varpa ljósi á orsakir óhapps eða ábyrgð á óhappi, verði varðveitt.
3. Nefndin skal halda gerðabók um rannsóknir sínar. Í hana skal færa nákvæmlega allar niðurstöður.
4. Nefndinni ber að semja skýrslu um niðurstöður sínar. Þegar þær lúta að því að kennsl séu borin á einhvern, skal tilgreint á hvaða atriðum niðurstöðurnar séu byggðar.
5. Ríkissaksóknari getur gefið nánari fyrirmæli um það, hvenær einstök lögreglustjóraembætti skuli gera ríkislögreglustjóra viðvart um mál, sem greinir í lið 2.1 og um samvinnu nefndarinnar og hlutaðeigandi lögreglustjóraembættis.
3. Skipan nefndarinnar í einstöku máli.
1. Ríkislögreglustjóri ákveður í samráði við hlutaðeigandi lögreglustjóra og formann nefndarinnar, hvort nefndin fullskipuð eða einstakir nefndarmenn taki þátt í rannsókn tiltekins máls.
2. Á sama hátt skal ákveða hvort kveðja skuli aðra sérfræðinga til.
3. Þegar ákvörðun er tekin samkvæmt lið 3.1 eða 3.2 skal leitast við, eftir því sem tök eru á, að kveðja til nefndarmenn frá þeim landshluta sem rannsókn fer fram í.
4. Vettvangur rannsóknar.
1. Ríkislögreglustjóri ákveður að höfðu samráði við hlutaðeigandi lögreglustjóra og formann nefndarinnar hvort störf nefndarinnar skuli fara fram að nokkru eða öllu leyti á vettvangi eða annars staðar.
2. Ef rannsókn þarf að fara fram erlendis, að nokkru eða öllu leyti, þarf að leita ferðaheimildar hjá dómsmálaráðuneytinu með venjulegum hætti.
5. Fundir nefndarmanna.
1. Nefndarmenn og staðgenglar þeirra skulu hið minnsta koma saman til fundar einu sinni á ári, þar sem þeir beri saman bækur sínar um helstu nýjungar í tækjabúnaði og starfsaðferðum á þessu sviði. Á fundunum skal einnig ræða annað, er máli skiptir varðandi störf nefndarinnar.
2. Formaður skal sjá til þess að fundargerð verði rituð og ríkislögreglustjóra sent eintak hennar.
3. Við lok hvers árs skal formaður taka saman greinargerð um störf nefndarinnar.
6. Kostnaður af störfum nefndarinnar.
1. Starf lögreglumanna, sem skipaðir eru í nefndina, telst hluti lögreglustarfs þeirra og er launað sem slíkt.
2. Fyrir starf annarra nefndarmanna skal greiða þóknun samkvæmt gildandi töxtum fyrir sérfræðistörf. Þóknun greiðist af málskostnaðarreikningi samkvæmt venjulegum greiðsluskilmálum.
3. Ferðakostnaður vegna funda samkvæmt lið 5.1. og funda sem haldnir eru erlendis og nauðsynlegt þykir að sækja skal greiðast af rekstrarfé ríkislögreglustjóra.
Reglugerð þessi, sem sett er samkvæmt heimild í 10. gr. laga um mannskaðaskýrslur og rannsókn á fundnum líkum nr. 42 10. nóvember 1913 og 40. gr. lögreglulaga nr. 90 13. júní 1996, öðlast gildi 1. júlí 1997.
Frá sama tíma fellur úr gildi reglugerð um skipun og verkefni rannsóknarnefndar, er hefur það hlutverk að bera kennsl á látna menn, nr. 433 6. september 1997.
Dóms- og kirkjumálaráðuneytinu, 27. júní 1997.
Þorsteinn Pálsson.
________________
Þorsteinn Geirsson.