Dóms- og kirkjumálaráðuneyti

674/1995

Reglugerð um dvöl útlendinga, sem falla undir samninginn um Evrópska efnahagssvæðið, hér á landi. - Brottfallin

Reglugerð

 um dvöl útlendinga, sem falla undir samninginn um

 Evrópska efnahagssvæðið, hér á landi.

Koma til landsins og dvalarleyfi.

1. gr.

Útlendingi (EES-útlendingi), sem fellur undir reglur samningsins um Evrópska efnahagssvæðið, er heimilt að koma til landsins án sérstaks leyfis og dvelja eða starfa hér í allt að þremur mánuðum. Dvöl í Danmörku, Finnlandi, Noregi eða Svíþjóð kemur ekki til frádráttar á lengd dvalartíma.

EES-útlendingi, sem dvelur eða starfar hér á landi lengur en þrjá mánuði, er skylt að hafa dvalarleyfi. Þetta á þó ekki við um útlending sem starfar hér en hverfur að jafnaði til heimilis í öðru EES-ríki a.m.k. einu sinni í viku.

Útlendingur, sem er undanþeginn dvalarleyfi skv. 2. mgr., skal innan tveggja vikna frá því hann hóf starf, tilkynna það til útlendingaeftirlitsins.

Sækja má um dvalarleyfi eftir að komið er til landsins.

2. gr.

Ákvæði reglugerðar um eftirlit með útlendingum gilda um danska, finnska, norska og sænska ríkisborgara. Ríkisborgarar þessara landa, sem uppfylla skilyrði til þess, geta sótt um dvalarleyfi samkvæmt reglum þessum og öðlast réttindi í samræmi við það.

Ríkisborgurum annarra EES-ríkja en greinir í 1. mgr. er heimilt að koma til landsins án vegabréfsáritunar, enda hafi þeir við komuna gilt vegabréf eða annað viðurkennt kennivottorð.

Aðstandendum EES-útlendings, sem ekki eru ríkisborgarar EES-ríkis, er heimilt að koma til landsins, enda hafi þeir við komuna gilt vegabréf, eftir atvikum með vegabréfsáritun, eða annað viðurkennt kennivottorð. Þeir þeirra sem þurfa vegabréfsáritun til að koma til landsins eiga rétt á að fá slíka áritun, enda sanni þeir fjölskyldutengsl sín við EES-ríkisborgarann.

EES-útlendingar sem eiga rétt á dvalarleyfi.

3. gr.

EES-útlendingur á rétt á dvalarleyfi, eftir umsókn þess efnis, ef hann framvísar því ferðaskilríki, sem hann komst inn í landið með, og gögnum sem sýna að hann, að uppfylltum frekari skilyrðum í 4.-7. gr.:

a.er launþegi sem fellur undir 2. tölul. V. viðauka við EES-samninginn (reglugerð ráðsins (EBE) nr. 1612/68 og nr. 312/76) um frelsi launþega til flutninga innan EES,

b.ætlar að stunda sjálfstæða atvinnustarfsemi hér á landi eða að veita eða njóta hér þjónustu,

c.þiggur fastar reglulegar greiðslur sem svara a.m.k. til lágmarkslífeyris almannatrygginganna, eða

d.er innritaður hjá viðurkenndri námsstofnun með það að meginmarkmiði að öðlast þar starfsþjálfun.

Heimilt er að synja um dvalarleyfi skv. 1. mgr. ef þær aðstæður eru fyrir hendi sem geta veitt tilefni til að synja útlendingnum um komu til landsins, dvöl eða vinnu samkvæmt öðrum ákvæðum reglugerðar þessarar.

Frekari skilyrði fyrir útgáfu dvalarleyfis.

4. gr.

Skilyrði fyrir dvalarleyfi skv. a-lið 1. mgr. 3. gr. er að umsækjandi leggi fram staðfestingu frá vinnuveitanda um ráðningu eða atvinnuvottorð um starf sem að jafnaði skal nema a.m.k. hálfri stöðu í viðkomandi starfsgrein. Ef ekki er um fullt starf að ræða verður umsækjandi að sýna fram á að vinnusambandið sé raunverulegt og í ákveðnu umfangi. Við mat á því skal m.a. hafa til hliðsjónar hvort launin eru næg til framfærslu umsækjandans.

5. gr.

Skilyrði fyrir dvalarleyfi skv. b-lið 1. mgr. 3. gr., er að umsækjandi ætli:

a.að stunda sjálfstæða atvinnustarfsemi í landinu. Leggja skal fram ítarlega lýsingu á starfseminni og gögn sem sýna fram á að nauðsynleg leyfi hafi verið gefin eða verði gefin út af þar til bæru stjórnvaldi samkvæmt lögum. Það er skilyrði að stefnt skuli að varanlegri starfsemi,

b.að veita þjónustu í landinu. Veita skal upplýsingar um eðli þjónustunnar og hve lengi henni er ætlað að vara. Það er skilyrði að megintilgangur dvalarinnar sé að veita þjónustu, að þjónustan skuli látin í té í því skyni að afla tekna og að ákveðin tímamörk séu á hve lengi þjónustan verði látin í té, eða

c.að njóta þjónustu í landinu. Veita skal upplýsingar um eðli þjónustunnar og hve lengi hennar verði notið. Það er skilyrði að megintilgangur dvalarinnar sé að njóta þjónustu, að umsækjandinn eigi að greiða fyrir hana og að ákveðin tímamörk séu á því hve lengi þjónustunnar verði notið.

Umsækjandi verður sýna fram á nægileg fjárráð til framfærslu sinnar.

6. gr.

Skilyrði fyrir dvalarleyfi skv. c-lið 1. mgr. 3. gr. er að umsækjanda sé tryggð framfærsla með föstum reglulegum greiðslum sem svara a.m.k. til lágmarkslífeyris almannatrygginganna til einstaklings með uppbót og að hann njóti sjúkratryggingar sem nær til allra þátta sem hann myndi njóta eftir íslenskum lögum.

7. gr.

Skilyrði fyrir dvalarleyfi skv. d-lið 1. mgr. 3. gr. er að umsækjandinn leggi fram gögn um að hann hafi verið innritaður hjá viðurkenndri námsstofnun og að markmið dvalarinnar sé að öðlast starfsþjálfun. Leggja skal fram áætlun um námstilhögun. Umsækjanda skal vera tryggð framfærsla þann tíma sem umsóknin nær til og skal hann gefa yfirlýsingu um hvernig hún er tryggð. Það er og skilyrði að hann njóti sjúkratryggingar sem nær til allra þátta sem hann myndi njóta eftir íslenskum lögum.

Dvalarleyfi til aðstandenda EES-útlendings.

8. gr.

Aðstandandi EES-útlendings, sem hefur eða öðlast dvalarleyfi skv. 1. mgr. 3. gr., á rétt á dvalarleyfi, eftir umsókn þess efnis, að þeim skilyrðum uppfylltum sem talin eru í 9. og 10. gr.

9. gr.

Þessir teljast til aðstandenda EES-útlendings skv. 1. mgr. 3. gr.:

a.maki,

b.niðji útlendings skv. 4. eða 5. gr. og/eða maka hans, ef niðjinn er yngri en 21 árs eða á þeirra framfæri,

c.niðji útlendings skv. 6. eða 7. gr. og/eða maka hans, ef niðjinn er á þeirra framfæri,

d.ættmenni útlendings skv. 4.-6. gr. eða maka hans að feðgatali, sem eru á framfæri þeirra.

10. gr.

Aðstandanda útlendings, sbr. 9. gr., sem hefur eða öðlast dvalarleyfi hér á landi á grundvelli 1. mgr. 3. gr., skal, eftir umsókn þess efnis, veitt dvalarleyfi, ef hann framvísar því ferðaskilríki sem hann komst inn í landið með, nema fyrir hendi séu aðstæður sem geta veitt tilefni til að synja umsækjandanum um komu til landsins, dvöl eða vinnu samkvæmt öðrum ákvæðum reglugerðar þessarar. Leggja skal fram vottorð frá viðkomandi stjórnvaldi í heimalandinu eða því landi þar sem hann bjó síðast til staðfestingar á fjölskyldutengslunum.

Hvað varðar aðstandanda útlendings skv. 4. gr. er það, auk skilyrðis skv. 1. mgr., skilyrði að útlendingurinn hafi yfir að ráða húsnæði. Hvað varðar aðstandanda útlendings skv. 5. og 6. gr. er það, auk skilyrðis skv. 1. mgr., skilyrði að framfærsla hans sé tryggð og að hann njóti sjúkratryggingar sem nær til allra þátta sem hann myndi njóta eftir íslenskum lögum.

Að uppfylltum skilyrðum skv. 1. mgr. og framfærsla er tryggð má einnig veita öðrum aðstandendum en þeim, sem taldir eru í 9. gr., dvalarleyfi, ef þeir eru á framfæri útlendingsins eða hafa haldið heimili með honum í heimalandinu og leggja fram gögn því til staðfestingar. Einnig má setja að skilyrði að útlendingurinn hafi yfir að ráða húsnæði og að umsækjandinn njóti sjúkratryggingar sem nær til allra þátta sem hann mundi njóta eftir íslenskum lögum.

Áframhaldandi dvöl að loknu starfi hér á landi.

11. gr.

Um rétt útlendings skv. a- og b-lið 1. mgr. 3. gr. til áframhaldandi dvalar að loknu starfi, svo og aðstandenda hans skv. 8. gr., fer skv. 12.-21. gr.

12. gr.

Reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (EBE) nr. 1251/70, 1. gr.:

Ákvæði þessarar reglugerðar (þ.e. 12.-19. gr.) gilda um ríkisborgara í EES-ríki, sem hafa starfað sem launþegar á yfirráðasvæði annars EES-ríkis, svo og aðstandendur þeirra samkvæmt skilgreiningu 10. gr. reglugerðar ráðsins (EBE) nr. 1612/68 um frelsi launþega til flutninga innan bandalagsins (sbr. lög um frjálsan atvinnu- og búseturétt launafólks innan Evrópska efnahagssvæðisins, nr. 47 18. maí 1993).

13. gr.

Reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (EBE) nr. 1251/70, 2. gr.:

1. Eftirtaldir hafa rétt til að dveljast til frambúðar á yfirráðasvæði EES-ríkis:

a. launþegi sem við lok starfsævi sinnar hefur náð eftirlaunaaldri samkvæmt lögum þess aðildarríkis og sem hefur starfað í því ríki síðastliðna tólf mánuði hið minnsta og verið búsettur þar samfellt í meira en þrjú ár;

b. launþegi sem hættir starfi vegna þess að hann varð varanlega óvinnufær eftir að hafa verið búsettur í aðildarríki í meira en tvö ár samfellt. Engin skilyrði eru sett um búsetutíma hafi hann orðið óvinnufær vegna vinnuslyss eða atvinnusjúkdóms og eigi þar með rétt til lífeyris sem stofnun í aðildarríkinu er að hluta til eða að öllu leyti ábyrg fyrir;

c. launþegi sem, eftir þriggja ára samfelldan starfs- og búsetutíma á yfirráðasvæði þess ríkis, starfar á yfirráðasvæði annars EES-ríkis, en er búsettur í fyrra ríkinu sem hann hverfur til daglega eða að minnsta kosti einu sinni í viku.

d. Starfstímabilum sem lokið er á þennan hátt á yfirráðasvæði annars EES-ríkis, skal talið lokið í búseturíkinu til þess að hlutaðeigandi öðlist þann rétt sem getið er í a- og b-lið.

2. Skilyrði um lengd búsetu og starfstíma sem um getur í a-lið 1. mgr. og skilyrði um lengd búsetu sem um getur í b-lið 1. mgr. gilda ekki ef maki launþega er ríkisborgari í hlutaðeigandi EES-ríki eða hefur misst ríkisborgararétt sinn í því ríki við að giftast launþeganum.

14. gr.

Reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (EBE) nr. 1251/70, 3. gr.:

1. Aðstandendur launþega sem um getur í 1. gr. þessarar reglugerðar (þ.e. 9. gr.) og eru búsettir hjá honum á yfirráðasvæði EES-ríkis eiga rétt á búsetu þar til frambúðar, jafnvel eftir fráfall hans, enda hafi launþeginn öðlast rétt til að dveljast áfram á yfirráðasvæði þess ríkis skv. 2. gr. (þ.e. 13. gr.).

2. Hafi launþegi hins vegar látist á starfsævi sinni og áður en hann öðlaðist rétt til að dveljast áfram á yfirráðasvæði hlutaðeigandi ríkis eiga aðstandendur hans rétt á að dveljast þar til frambúðar með því skilyrði að:

-launþeginn hafi, á dánardægri sínu, verið búsettur á yfirráðasvæði aðildarríkisins samfellt í að minnsta kosti tvö ár, eða

-hann hafi látist af völdum vinnuslyss eða atvinnusjúkdóms, eða

-eftirlifandi maki hans sé ríkisborgari í búseturíkinu eða hafi misst ríkisborgararétt í því ríki við að giftast launþeganum.

15. gr.

Reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (EBE) nr. 1251/70, 4. gr.:

1. Votta má samfellda búsetu sem kveðið er á um í 1. mgr. 2. gr. (þ.e. 12. gr.) og 2. mgr. 3. gr. (þ.e. 14. gr.) með hverjum þeim hætti sem tíðkast í búseturíkinu. Hún skerðist ekki við tímabundna fjarvist sem er skemmri en þrír mánuðir á ári alls né við lengri fjarvist sem er tilkomin vegna skuldbindinga í herþjónustu.

2. Tímabil þegar launþegi er atvinnulaus gegn vilja sínum, sem eru skráð skilvíslega hjá þar til bærri vinnumiðlun, eða vegna veikinda eða slyss telst engu að síður til starfstímabila samkvæmt skilningi 1. mgr. 2. gr. (þ.e. 13. gr.).

16. gr.

Reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (EBE) nr. 1251/70, 5. gr.:

1. Sá einstaklingur sem hefur öðlast rétt til að dvelja um kyrrt samkvæmt a- og b-lið 1. mgr. 2. gr. (þ.e. 13. gr.) og 3. gr. (þ.e. 14. gr.) getur nýtt sér slíkan rétt í tvö ár frá þeim tíma sem hann öðlaðist hann. Á því tímabili er honum heimilt að fara frá yfirráðasvæði EES-ríkisins án þess að réttur hans skerðist.

2. Þess er ekki krafist að hlutaðeigandi einstaklingur uppfylli nein formsatriði til að njóta réttarins til að dvelja um kyrrt.

17. gr.

Reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (EBE) nr. 1251/70, 6. gr.:

1. Einstaklingar sem falla undir ákvæði þessarar reglugerðar (þ.e. 12.-19. gr.) eiga rétt á dvalarleyfi sem skal:

a. gefið út og endurnýjað þeim að kostnaðarlausu eða gegn greiðslu sem má ekki vera hærri en þau gjöld og skattar sem innlendir ríkisborgarar greiða fyrir útgáfu eða endurnýjun kennivottorða;

b. gilda alls staðar á yfirráðasvæði þess EES-ríkis sem gefur það út;

c. gilda í fimm ár hið minnsta og endurnýjað sjálfkrafa.

2. Búseturof, sem varir eigi lengur en sex samfellda mánuði, skal ekki skerða gildi dvalarleyfis.

18. gr.

Reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (EBE) nr. 1251/70, 7. gr.:

Réttur til jafnrar málsmeðferðar sem komið var á með reglugerð ráðsins (EBE) nr. 1612/68 (sbr. lög um frjálsan atvinnu- og búseturétt launafólks innan Evrópska efnahagssvæðisins, nr. 47 18. maí 1993) gildir einnig um þá einstaklinga sem heyra undir þessa reglugerð (þ.e. 12.-19. gr.).

19. gr.

Reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (EBE) nr. 1251/70, 8. gr.:

1. Þessi reglugerð (þ.e. 12.-19. gr.) hefur ekki áhrif á ákvæði laga eða stjórnsýslufyrirmæla EES-ríkjanna sem væru hagstæðari ríkisborgurum annarra EES-ríkja.

2. EES-ríkin skulu auðvelda launþegum, sem yfirgefið hafa yfirráðasvæði þeirra eftir að hafa átt þar fasta búsetu um lengri tíma og starfað þar og vilja koma aftur þegar þeir hafa náð aldri til að láta af störfum eða eru orðnir varanlega óvinnufærir, endurkomu til yfirráðasvæða sinna.

20. gr.

Ákvæði 13.-19. gr. gilda með hliðstæðum hætti um þá sem hafa stundað sjálfstæða atvinnustarfsemi hér á landi, sbr. a-lið 1. mgr. 5. gr., og aðstandendur þeirra, sbr. 8.-10. gr. Búseturof sem greinir í 17. gr. má þó vara lengur en sex samfellda mánuði ef það er vegna skuldbindinga í herþjónustu.

21. gr.

Heimilt er að víkja frá ákvæðum 12.-20. gr. ef það er nauðsynlegt vegna allsherjarreglu, almannaöryggis eða almannaheilbrigðis, sbr. 28. gr.

Gildistími og efni dvalarleyfis.

22. gr.

Dvalarleyfi, sem gefið er út í fyrsta skipti, skv. 3. gr. skal gefið út til fimm ára, nema annað leiði af ákvæðum 2.-5. mgr.

Ef starfi er ætlað að standa lengur en þrjá mánuði en skemur en eitt ár skal leyfi til útlendings skv. 4. gr. gefið út til samsvarandi tíma.

Leyfi til útlendings sem ætlar að veita þjónustu eða njóta þjónustu, sbr. b- og c-lið 1. mgr. 5. gr., skal hafa sama gildistíma og þjónustan verður veitt eða hennar notið.

Leyfi sem gefið er út í fyrsta skipti til útlendings skv. 6. gr. má takmarka við tvö ár, ef umsækjandinn getur ekki sýnt fram á að skilyrði fyrir leyfinu verði uppfyllt í fimm ár.

Leyfi til útlendings skv. 7. gr. skal gefið út til tíma sem svarar til lengdar námsins, þó ekki lengur en eitt ár.

Leyfi sem er gefið út í fyrsta skipti til aðstandanda EES-útlendings, sbr. 8. gr., skal gefið út í samsvarandi tíma og leyfi þess síðarnefnda, þó þannig að það gildi ekki lengur en leyfi hans.

Dvalarleyfi skv. 11. gr., sem gefið er út í fyrsta skipti, skal gefið út til fimm ára.

23. gr.

Dvalarleyfi veitir rétt til að dvelja og til að ráða sig í vinnu eða starfa sjálfstætt hvar sem er á landinu, nema annað sé tekið fram í leyfinu eða leiði af lögum.

Útlendingi, sem fellur undir 7. gr., er einungis heimilt að ráða sig í vinnu eða starfa sjálfstætt eða veita þjónustu, sbr. 4. gr. og a- og b-lið 1. mgr. 5. gr., sem nemur allt að hálfu starfi.

Leyfi skal bera með sér hvaða skilyrði og takmarkanir eru settar með leyfinu.

Dvalarleyfi til EES-útlendings, sem háður er reglum um vegabréfsáritun, veitir honum rétt til ótakmarkaðra endurkoma til landsins meðan leyfið er í gildi.

Endurnýjun dvalarleyfis.

24. gr.

Dvalarleyfi skv. 3., 8. og 11. gr. skal endurnýja samkvæmt umsókn, ef skilyrðin eru enn uppfyllt.

Dvalarleyfi skal að jafnaði endurnýjað til fimm ára, sbr. þó 3. og 4. mgr.

Fyrstu endurnýjun leyfis til umsækjanda sem fellur undir 4. gr. má gefa út til eins árs, ef umsækjandinn er atvinnulaus gegn vilja sínum og hefur verið það samfellt í meira en tólf mánuði. Ef umsækjandi er enn atvinnulaus þegar það leyfi rennur út verður leyfi ekki endurnýjað til launþega.

Ákvæði 3., 5. og 6. mgr. 22. gr. gilda eftir því sem við á.

Gildi endurnýjaðs leyfis telst frá þeim tíma sem fyrra dvalarleyfi rennur út.

Að öðru leyti gilda ákvæði 23. gr. um efni dvalarleyfis eftir því sem við á.

Afturköllun dvalarleyfis.

25. gr.

Heimilt er að afturkalla dvalarleyfi EES-útlendings, ef ákvæði 3. tölul. 1. mgr. 11. gr. laga um eftirlit með útlendingum eiga við og skilyrði fyrir útgáfu leyfisins eru ekki lengur fyrir hendi. Afturköllun er þó ekki heimil, ef útlendingurinn er ekki lengur í starfi, hvort heldur er vegna veikinda eða slyss eða vegna þess að hann er atvinnulaus gegn vilja sínum.

Enn fremur er heimilt að afturkalla dvalarleyfi sem gefið var út í fyrsta skipti til útlendings sem fellur undir 4.-6. gr., ef um er að ræða búseturof sem varað hefur lengur en sex samfellda mánuði og er ekki komið til vegna herþjónustu.

Ákvæði 2.-4. mgr. 1. gr. gilda eftir því sem við á.

Synjun um landgöngu og brottvísun.

26. gr.

EES-útlendingi skal því aðeins meinuð landganga:

a.að hann fullnægi ekki reglum um ferðaskilríki og vegabréfsáritun,

b.að honum hafi verið vísað héðan úr landi eða frá Danmörku, Finnlandi, Noregi eða Svíþjóð, og hann reynir að koma aftur án leyfis,

c.að atvik séu til staðar sem heimila brottvísun skv. b- og c-lið 1. mgr. 27. gr., eða

d.að það sé nauðsynlegt vegna öryggis ríkisins eða krefjandi þjóðarhagsmuna.

27. gr.

EES-útlendingi skal því aðeins vísað úr landi:

a.að hann hafi framið alvarlegt eða ítrekuð brot á ákvæðum laga um eftirlit með útlendingum,

b.að hann hafi á síðustu fimm árum afplánað refsingu erlendis eða verið dæmdur þar til refsingar fyrir háttsemi sem getur varðað meira en þriggja mánaða fangelsi að íslenskum lögum, eða hafi verið dæmdur hér á landi til refsingar eða öryggisgæslu fyrir slíka háttsemi eða ítrekað verið dæmdur á síðustu þremur árum til fangelsisrefsingar. Hafi hann verið dæmdur til refsingar erlendis skal það metið hvort telja megi líklegt að hann muni fremja refsiverð brot hér á landi. Útlendingi sem hefur fengið dvalarleyfi má því aðeins vísa úr landi að hin refsiverða háttsemi geti varðað meira en eins árs fangelsi,

c.að það sé nauðsynlegt með skírskotun til allsherjarreglu, almannaöryggis eða almannaheilbrigðis, sbr. 28. gr., eða

d.að það sé nauðsynlegt vegna öryggis ríkisins.

28. gr.

EES-útlendingi verður m.a. meinuð landganga eða honum vísað úr landi með skírskotun til allsherjarreglu eða almannaöryggis ef útlendingurinn:

a.er háður fíkniefnum eða öðrum eiturlyfjum og hefur orðið það áður en honum er veitt fyrsta dvalarleyfi, eða

b.er haldinn alvarlegum geðrænum truflunum eða geðrænum truflunum sem einkennast af uppnámi, óráði, ofskynjunum eða hugsanabrenglun, enda hafi slíkt ástand hans hafist áður en honum er veitt fyrsta dvalarleyfi.

Ákvörðun um að meina EES-útlendingi landgöngu eða vísa honum úr landi með skírskotun til allsherjarreglu eða almannaöryggis skal eingöngu byggð á framferði hlutaðeigandi útlendings og má því aðeins framkvæma að heimilt sé að grípa til úrræða gagnvart íslenskum ríkisborgara við sambærilegar aðstæður.

EES-útlendingi verður því aðeins meinuð landganga eða honum vísað úr landi með skírskotun til almannaheilbrigðis að útlendingurinn sé haldinn:

a.sjúkdómum sem falla undir sóttvarnarákvæði og taldir eru upp í alþjóðlegri heilbrigðisreglugerð nr. 2 sem Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin gaf út 25. maí 1951,

b.berklum í öndunarfærum sem eru virkir eða sýna merki um að þeir ágerist,

c.sárasótt, eða

d.öðrum smitsjúkdómum eða smitnæmum sníkilsjúkdómum falli þeir undir reglur til verndar íslenskum ríkisborgurum.

Útlendingnum verður því aðeins meinuð landganga eða vísað úr landi með skírskotun til almannaheilbrigðis að hann hafi fengið sjúkdóminn áður en honum er veitt fyrsta dvalarleyfi.

Málsmeðferð.

29. gr.

Þegar til álita kemur hvort útlendingi, sem sótt hefur um leyfi fyrsta sinni, skuli meinuð landganga eða honum vísað úr landi með skírskotun til allsherjarreglu, almannaöryggis eða almannaheilbrigðis, sbr. 28. gr., skal ákvörðun tekin eins fljótt og unnt er og ekki síðar en sex mánuðum eftir að umsókn barst. Umsækjandi á rétt á að dvelja í landinu þar til umsókn hefur fengið endanlega meðferð.

Rökstuðningur skal fylgja ákvörðun um synjun dvalarleyfis eða um brottvísun, nema það gangi gegn öryggishagsmunum ríkisins.

Í ákvörðun um synjun dvalarleyfis eða brottvísun úr landi skal koma fram sá frestur sem gefinn er til að yfirgefa landið. Að frátöldum bráðatilvikum skal fresturinn ekki vera styttri en fimmtán dagar hafi hlutaðeigandi ekki enn fengið dvalarleyfi og eigi styttri en einn mánuður í öllum öðrum tilvikum.

30. gr.

Reglugerð þessi, sem sett er samkvæmt 2. mgr. 6. gr. laga um eftirlit með útlendingum, nr. 45 12. maí 1965, sbr. lög nr. 133 31. desember 1993, svo og með hliðsjón af 1.-5. tölul. V. viðauka (tilskipun 64/221/EBE, reglugerðir EBE nr. 1612/68 og 312/76, tilskipun 68/360/EBE, reglugerð EBE nr. 1251/70 og tilskipun 72/194/EBE) og 3.-8. tölul. VIII. viðauka (tilskipanir 73/148/EBE, 75/34/EBE, 75/35/EBE, 90/364/EBE, 90/365/EBE og 93/96/EBE) við EES samninginn, öðlast þegar gildi.

EBE gerðirnar sem vísað er til eru birtar í sérritinu EES gerðir S 32 og S 35, sbr. auglýsingu nr. 31/1993 í C-deild Stjórnartíðinda, og í EES viðbæti við Stjórnartíðindi EB, sérstakri útgáfu, bók 4, bls. 135-136.

Dóms- og kirkjumálaráðuneytið, 20. desember 1995.

Þorsteinn Pálsson.

Þorsteinn Geirsson.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica