Dóms- og kirkjumálaráðuneyti

79/1997

Reglugerð um starfshætti skráningarstofu ökutækja.

Skilgreiningar.

1. gr.

                Skráningarstofa: Skráningarstofa ökutækja sem annast skráningu ökutækja samkvæmt umferðarlögum.

                Ökutækjaskrá: Opinber skrá yfir ökutæki sem skráð hafa verið hér á landi.

                Skráningarskírteini: Staðfesting á skráningu ökutækis.

                Skoðunarstofa: Faggilt skoðunarstofa fyrir ökutæki.

 

Hlutverk skráningarstofu.

2. gr.

                Hlutverk skráningarstofu er

                -               að annast skráningu ökutækja; hún metur skráningargögn, hvort þau uppfylla kröfur um form og efni og getur óskað eftir ítarlegri upplýsingum þegar þess er þörf,

                -               að annast útgáfu skráningarskírteina og dreifingu skráningarmerkja,

                -               að annast uppfærslu, viðhald og rekstur ökutækjaskrár,

                -               að veita upplýsingar og vera dómsmálaráðuneytinu til ráðuneytis í tæknilegum málefnum er varða ökutæki, gerð þeirra og búnað,

                -               að annast skráningu á aðilum sem hafa hlutverki og skyldum að gegna við skráningu ökutækja eða skoðun, svo sem innflytjendum ökutækja, faggiltum skoðunarstofum, B-faggiltum endurskoðunarverkstæðum og löggiltum bifreiðasölum,

                -               að sjá um gerð eyðublaða vegna skráningar ökutækja, svo og samskiptaforrita,

                -               að hafa eftirlit með útgáfu og notkun skoðunarmiða,

                -               að efla almennt umferðaröryggi.

 

Ökutækjaskrá.

3. gr.

                Hlutverk og skyldur skráningarstofu varðandi ökutækjaskrá eru:

                Skráning upplýsinga um ökutæki:

                Skráning í ökutækjaskrá fer fram samkvæmt reglugerð um skráningu ökutækja og reglum um ökutækjaskrá. Skráningarstofu er heimilt að skrá fleiri atriði í ökutækjaskrá en fram koma í reglunum.

                Rekstur tölvukerfis:

                Ökutækjaskrá skal varðveitt í tölvukerfi. Rekstur tölvukerfisins felur í sér hönnun, þróun og notkun ökutækjaskrár í samræmi við reglur um ökutækjaskrá, svo og ábyrgð á öruggri varðveislu gagna og forrita og ábyrgð á rekstraröryggi og viðvarandi aðgengi að skránni. Réttmæti og áreiðanleiki skráðra upplýsinga er einnig á ábyrgð skráningarstofu sem og rekjanleiki skráninga og samtenging við aðrar skrár.

                Upplýsingamiðlun:

                Einstaklingum, fyrirtækjum og stofnunum er heimill aðgangur að upplýsingum um einstök ökutæki úr ökutækjaskrá eins og nánar er kveðið á um í starfsreglum skráningarstofu, sem staðfestar skulu af tölvunefnd. Skráningarstofa hefur umsjón með aðgengi að skránni. Miðlun upplýsinga um eigendur og umráðamenn ökutækja er háð leyfi tölvunefndar. Opinber birting upplýsinga úr ökutækjaskrá eða miðlun þeirra er óheimil. Þó getur skráningarstofa, að fengnu samþykki tölvunefndar, heimilað slíkt, enda komi þá jafnan fram hvaðan upplýsingarnar eru fengnar.

 

Framkvæmd ökutækjaskráningar.

4. gr.

                Skráningarstofa skal tryggja að koma megi til skila á aðgengilegan hátt beiðnum og tilkynningum um skráningu ökutækja og beiðnum um skráningarmerki. Í þeim tilgangi er skráningarstofu heimilt að fela

                -               skráðum innflytjendum ökutækja að annast skráningu beiðna um færslu ökutækja í forskrá og skráningu gerðarviðurkenndra ökutækja, sem og að annast afhendingu skráningarmerkja,

                -               skoðunarstofum að annast móttöku á tilkynningum um eigendaskipti að ökutækjum, beiðnum um skráningarmerki, beiðnum um færslu ökutækja, sem skal skráningarviðurkenna, í forskrá og beiðnum um skráningu þeirra, tilkynningum um breytingu á skráningu ökutækja og afskráningu, svo og vörslu og afhendingu skráningarmerkja,

                -               pósthúsum að annast móttöku á tilkynningum um eigendaskipti að ökutækjum og beiðnum um skráningarmerki,

                -               löggiltum bifreiðasölum að annast móttöku á tilkynningum um eigendaskipti að ökutækjum,

                -               vátryggingafélögum er annast lögmæltar ökutækjatryggingar að annast móttöku á tilkynningum um eigendaskipti og afskráningu ökutækja, svo og vörslu og afhendingu skráningarmerkja,

                -               lögreglu að annast vörslu og afhendingu skráningarmerkja.

                Aðilar þessir skulu tilkynna skráningarstofu um móttekin skráningargögn þegar í stað, t.d. með rafrænum skilaboðum, og senda skráningarstofu skráningargögn samdægurs. Skráningarstofu er jafnframt heimilt að fela aðilum þessum færslu upplýsinga í ökutækjaskrá, uppfylli þeir gæðakröfur sem skráningarstofa setur. Þá getur skráningarstofa, með sömu skilyrðum, heimilað opinberum stofnunum að færa tilteknar upplýsingar í ökutækjaskrá.

                Skráningarstofu er einnig heimilt að veita viðtöku beiðnum, tilkynningum og pöntunum með aðstoð póst- og símaþjónustu, tölvupóstþjónustu eða annarrar sambærilegrar þjónustu.

                Skráningarstofa skal hafa eftirlit með þeim verkþáttum sem aðilar vinna í umboði skráningarstofu, svo sem móttöku skráningargagna og færslu þeirra í ökutækjaskrá og vörslu skráningarmerkja. Hún getur afturkallað heimild einstakra aðila sem ekki sinna ábendingum eða fyrirmælum.

                Skráningarstofa skal setja almennar reglur um samskipti aðila við skráningarstofu.

 

Tæknideild.

5. gr.

                Skráningarstofa skal reka tæknideild sem skal

                -               veita upplýsingar um reglur er varða gerð og búnað ökutækja og skráningu þeirra,

                -               vera til ráðuneytis um þróun og mótun reglna um gerð og búnað ökutækja,

                -               annast faglega forvinnslu á reglum sem varða skráningu og skoðun ökutækja,

                -               annast gerð og dreifingu uppfærðra skjala í Skoðunarhandbók, m.a. með tölvutækum hætti.

 

Hæfniskröfur.

6. gr.

                Allt verklag varðandi ökutækjaskrá skal vera samkvæmt kerfisbundinni gæðastjórnun í samræmi við vottað gæðakerfi samkvæmt staðlinum ÍST ISO 9001.

 

Gjaldskrá.

7. gr.

                Dómsmálaráðherra setur reglur um gjald fyrir skráningu ökutækja og skráningarmerki.

                Að öðru leyti fer um gjald fyrir starfsemi skráningarstofu samkvæmt gjaldskrá sem skráningarstofan setur.

 

Gildistaka.

8. gr.

                Reglugerð þessi sem sett er samkvæmt 64. gr. umferðarlaga, nr. 50 30. mars 1987, öðlast gildi 4. febrúar 1997.

 

Dóms- og kirkjumálaráðuneytinu, 30. janúar 1997.

 

Þorsteinn Pálsson.

Ólafur W. Stefánsson.

 

 


Þetta vefsvæði byggir á Eplica