Dóms- og kirkjumálaráðuneyti

282/1997

Reglugerð um lögregluskilríki og notkun þeirra. - Brottfallin

I. KAFLI

Handhafar lögregluskilríkja, útgáfa þeirra og efni.

1. gr.

                Lögregluskilríki eru skilríki sem gefin eru út af ríkislögreglustjóra til lögreglustjóra, varalögreglustjóra og lögreglumanna.

                Skilríkin eru eign ríkislögreglustjóra.

 

2. gr.

                Lögregluskilríkin skulu vera samsett úr tveimur einingum, skilríkjakorti og öryggiskorti, og er stærð hvors korts um sig 70 x 100 mm. Skulu þau prentuð á sérstakan öryggispappír.

                Á skilríkjakortinu skal vera gyllt lögreglumerki í efra vinstra horni (10 mm breitt) og í efra hægra horni skal vera skjaldarmerki lýðveldisins í lit (10 mm breitt). Milli þessara merkja skal vera áletrunin Lögreglan með svörtu letri. Grunnlitur skal vera hvítur með gylltu lögreglumerki sem vatnsmerki (65 mm milli horna). Steingrá yrjuð rönd skal umlykja skilríkjakortið, 15 mm breið að ofan, 10 mm að neðan og 4 mm breið á hliðum.

                                Á öryggiskortinu skal vera gyllt lögreglumerki (57 mm milli horna) fyrir miðju. Efst skal vera áletrunin Lögreglan og síðan með smækkuðu letri Police, Polizei, Poliza og Polis. Neðst skal vera áletrunin Ísland. Grunnlitur skal vera hvítur með stóru gylltu lögreglumerki sem vatnsmerki, sem "flæðir út fyrir" kortið. (Innanmál ytri hrings er 52 mm). Steingrá yrjuð rönd skal umlykja öryggiskortið, 15 mm breið að ofan, 10 mm að neðan og 4 mm breið á hliðum.

                Á bakhlið beggja kortanna skulu vera upplýsingar á íslensku og ensku um hvers konar skilríki er að ræða ásamt reglum um hvað gera skuli ef skilríki finnst. Litir og vatnsmerki skulu vera þeir sömu á bakhlið en gráa röndin að neðan er 3 mm breið.

 

3. gr.

                Hjá ríkislögreglustjóra skulu þessar upplýsingar skráðar á skilríkjakortið:

a.             Raðnúmer skilríkis.

b.             Brjóstmynd (35 x 45 mm) af skírteinishafa í litum á ljósum bakgrunni. Hann skal vera í hvítri skyrtu með hálsbindi án einkennishúfu.

c.             Eiginnafn og kenninafn skírteinishafa.

d.             Starfsheiti.

e.             Útgáfudagur.

f.              Lögreglunúmer lögreglumanns og kennitala. Ef um er að ræða starfsmann, sem ekki hefur lögreglunúmer, þá einungis kennitala.

g.             Undirskrift og útgáfustimpill ríkislögreglustjóra.

                Hjá ríkislögreglustjóra skulu þessar upplýsingar skráðar á öryggiskortið:

a.             Raðnúmer skilríkis.

b.             Lögreglunúmer lögreglumanns. Ef um er að ræða starfsmann, sem ekki hefur lögreglunúmer, þá einungis kennitala.

 

4. gr.

                Öryggi skilríkjanna skal felast í gæðum pappírsins og vatnsmerkjunum. Skilríkin skulu jafnframt brædd í plast. Skjaldarmerkið skal greypt í plastið (öryggismerki) á bakhlið kortanna.

                Skilríkjakortið og öryggiskortið skal varðveita í svörtu skinnveski. Veskið skal vera ein opna með tveimur plastvösum sem kortunum er smeygt í þannig að framhlið þeirra sjáist þegar veskið er opnað, öryggiskortið að ofan og skilríkjakortið að neðan.

 

II. KAFLI

Notkun lögregluskilríkja.

5. gr.

                Handhafi lögregluskilríkja skal jafnan bera skilríkin á sér við skyldustörf. Honum er óheimilt að nota skilríkin í öðrum tilgangi en fellur undir skyldustörf hans. Þegar skilríkin eru sýnd, skal að jafnaði sýna bæði skilríkjakortið og öryggiskortið.

 

6. gr.

                Óeinkennisklæddur lögreglumaður við störf skal að jafnaði gera viðkomandi borgara það ljóst, að hann sé lögreglumaður, áður en hann ber upp erindi sitt. Þetta getur hann gert með því að framvísa lögregluskilríkjunum.

                Handhafar lögregluskilríkja skulu verða við ósk um að sýna lögregluskilríki þegar þeir eru við störf. Þó er heimilt að víkja frá þessu við handtöku á manni, ef ólæti standa yfir, eða hann beðinn um það af manni sem bersýnilega er undir áhrifum áfengis eða annarra vímuefna, ögrandi eða í miklu uppnámi.

                Þegar starfsmaður með lögregluvald er við eftirlit á samkomu, og þess er óskað af samkomuhaldara að hann sýni skilríki sín, skal hann verða við því og gera grein fyrir af hvaða ástæðum hann er staddur þar. Telji hann sig ekki geta skýrt ástæðu fyrir veru sinni skal hann vísa samkomuhaldara á að hafa samband við yfirmann sinn.

 

V. KAFLI

Endurútgáfa glataðra og stolinna skilríkja o.fl.

7. gr.

                Nú glatast lögregluskilríki eða þeim er stolið og skal þá strax tilkynna það ríkislögreglustjóra þar sem skráð verður að skilríkin séu glötuð. Ríkislögreglustjóri gefur þá út ný skilríki.

                Finnist glötuð skilríki skal afhenda þau aftur til handhafa þeirra hafi ný skilríki ekki verið gefin út.

 

VI. KAFLI

Skil á lögregluskilríkjum vegna starfsloka, fría o.þ.h.

8. gr.

                Þegar handhafi lögregluskilríkja hættir störfum skal hann skila lögregluskilríkjum sínum til viðkomandi embættis sem framsendir þau til ríkislögreglustjóra.

                Ef um tímabundna brottvísun er að ræða skal lögregluskilríkjunum skilað. Þegar viðkomandi hefur störf á ný skal afhenda honum sömu skilríki aftur.

                Fari handhafi lögregluskilríkja í launalaust leyfi skal hann skila inn lögregluskilríkjum sínum. Ríkislögreglustjóri getur heimilað að starfsmaður haldi skilríkjunum, liggi það fyrir að starfsmaðurinn fari tímabundið til lögreglustarfa við annað lögregluembætti.

 

9. gr.

                Ríkislögreglustjóri skal halda skrá yfir útgefin lögregluskilríki þar sem fram komi raðnúmer skilríkis, nafn skilríkjahafa, lögreglunúmer og kennitala, útgáfudagur og hvenær skilríki voru afhent og hvenær þeim er skilað. Í skránni skulu einnig vera upplýsingar um glötuð skilríki. Endurheimt skilríki skal varðveita hjá ríkislögreglustjóra.

 

VII. KAFLI

Endurnýjun lögregluskilríkja.

10. gr.

                                Gildistími lögregluskilríkja skal vera 15 ár frá útgáfudegi. Endurnýja skal skilríki fyrr ef útlit viðkomandi hefur breyst það mikið að hann þekkist ekki af myndinni að mati viðkomandi lögreglustjóra.

 

VIII. KAFLI

Gildistaka.

                Reglugerð þessi sem er sett samkvæmt heimild í 3. mgr. 13. gr. lögreglulaga, nr. 90 13. júní 1996, öðlast gildi 1. júlí 1997. Frá sama tíma falla úr gildi ákvæði um lögregluskilríki, liður 3.2, í 3. kafla reglugerðar nr. 118 9. febrúar 1990, um einkennisbúninga, merki og búnað lögreglumanna.

                Lögregluskilríki sem gefin hafa verið út fyrir gildistöku þessarar reglugerðar falla jafnframt út gildi og skulu lögreglustjórar í hverju umdæmi, sjá um að þau verði innkölluð.

 

Dóms- og kirkjumálaráðuneytinu, 23. apríl 1997.

 

Þorsteinn Pálsson.

Símon Sigvaldason.

 


Þetta vefsvæði byggir á Eplica