Fara beint í efnið

Prentað þann 24. apríl 2024

Stofnreglugerð

42/1953

Reglugerð um töluspjaldahappdrætti

Birta efnisyfirlit

1.gr.

Dómsmálaráðuneytið getur veitt héraðssamböndum íþrótta- og ungmennafélaga, hverju á sínu héraðssvæði, leyfi til að stofna til og reka töluspjaldahappdrætti ("Bingo" happdrætti), samkvæmt reglum þeim, sem settar eru hér á eftir.

2.gr.

Umsóknir um leyfi samkvæmt reglugerðinni skulu undirritaðir af formanni og ritara fyrir hönd stjórnar sambands.

3.gr.

Leyfi skal eigi veita til lengri tíma en eins árs í senn, og skal leyfishafi að leyfistíma liðnum senda ráðuneytinu skýrslu um starfsemina á liðnu leyfistímabili.

4.gr.

Töluspjaldahappdrætti má aðeins halda á skemmtunum héraðssambanda eða einstakra félaga innan þeirra.

5.gr.

Þátttökugjald í hverju happdrætti má eigi nema hærri upphæð en 10 krónum fyrir hvern þátttakanda. Má eigi halda fleiri en eitt slíkt happdrætti á hverri skemmtun, nema þátttökugjald samtals nemi eigi hærri en 10 krónum..

Eigi má halda töluspjaldahappdrætti á fleiri en þremur skemmtunum í viku hverri á hverju héraðssvæði.

Stjórnarmaður eða starfsmaður héraðssambands skal annast um framkvæmd töluspjaldahappdrættis ásamt stjórnendum félags þess, er skemmtun heldur hverju sinni. Skal fulltrúi héraðssambands gera skýrslu um þátttakendafjölda og þátttökugjöld og verðmæti vinnings eða vinninga í hverju happdrætti, og fulltrúi félags þess er skemnmtun heldur og þátttakandi er vinning hlýtur rita nöfn sín á skýrsluna. Skulu þessi skilríki geymd unz árleg skýrsla hefur verið gefin, og má þá krefjast endurskoðunar þeirra, ef þörf þykir.

6.gr.

Verðmæti vinnings eða vinninga skal eigi nema minna en 25% af söluverði happdrættisspjalda í hverju happdrætti.

Leyfi samkvæmt reglugerð þessari má afturkalla þegar í stað, ef brugðið er út af fyrirmælum reglugerðarinnar.

Reglugerð þessi, sem sett er samkvæmt lögum nr. 15 31. janúar 1952, öðlast gildi þegar í stað.

Í dómsmálaráðuneytinu, 28. febrúar 1953.

Bjarni Benediktsson.

_________________

Gústav A. Jónasson.

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.