Dóms- og kirkjumálaráðuneyti

93/1998

Reglugerð um samninga um söluþjónustu fasteignasala og söluyfirlit. - Brottfallin

REGLUGERÐ

um samninga um söluþjónustu fasteignasala og söluyfirlit.

1. gr.

Samningar um söluþjónustu.

                Óski eigandi fasteignar, fyrirtækis eða skips milligöngu fasteignasala um sölu á eign sinni skulu þeir gera sín á milli samning um þá þjónustu. Í þeim samningi skal m.a. koma fram hvort fasteignasala sé einum falin sala eignarinnar, hvaða söluþóknun aðilar hafi orðið ásáttir um og fyrirkomulag á greiðslu annars kostnaðar, þ. á m. kostnaðar við öflun teikninga, vottorða og annarra gagna. Þá skal koma fram hver sé gildistími samningsins, hvernig staðið skuli að uppsögn samnings og hver séu viðurlög við vanefndum samningsins. Þá skal tilgreint hvernig staðið skuli að söfnun þeirra upplýsinga um eignina sem nauðsynlegar eru fyrir gerð söluyfirlits, birtingu auglýsinga um eignina o.fl.

2. gr.

Söluyfirlit.

                Nú hefur fasteignasali fengið eign til sölumeðferðar skal hann þá semja yfirlit yfir þau atriði sem skipt geta kaupanda máli. Skal yfirlit þetta m.a. hafa að geyma upplýsingar um eftirfarandi atriði:

                1.             Söluverð eignar, ef það er ákveðið, og söluskilmála.

                2.             Staðsetningu, stærð, fasteignamat, brunabótamat, byggingarlag og byggingarefni, aldur eignar svo og önnur atriði sem máli geta skipt. Skal teikning, sem sýni fyrirkomulag innan húss, jafnan vera fyrir hendi.

                3.             Ástand eignar, þ. á m. um galla sem seljanda og/eða fasteignasala er kunnugt um, um hversu upphitun og glerjun sé háttað og um ástand rafkerfis, vatns- og frárennslislagna.

                4.             Föst gjöld af eigninni, áhvílandi veðskuldir, kvaðir og önnur eignahöft, samkvæmt veðbókarvottorði. Tilgreina skal eftirstöðvar allra áhvílandi veðskulda og kvaða og geta þess hvort um vanskil sé að ræða. Um þær veðskuldir sem fylgt geta eign við sölu skal ennfremur tilgreina lánskjör, þ. á m. vexti og verðtryggingu og um fjölda ógreiddra afborgana.

                5.             Þann kostnað kaupanda sem fylgir kaupum eignarinnar, þ. á m. þinglýsingarkostnað, kostnað við stimplun skjala og lántökukostnað.

                6.             Tekjur af eigninni, ef um er að ræða eign sem ætluð er til atvinnustarfsemi.

                7.             Afhendingarástand eignar sem seld er ófullgerð, í samræmi við staðla Rannsóknarstofnunar byggingariðnaðarins.

                8.             Húsgjöld og yfirstandandi eða væntanlegar framkvæmdir á vegum húsfélags, þegar um fjöleignahús er að ræða, og um stöðu eiganda gagnvart hússjóði og framkvæmdasjóði húsfélags.

                Gera skal yfirlit með hliðstæðum upplýsingum og greinir í 1. mgr. varðandi fyrirtæki og skip, eftir því sem við á.

                Upplýsingar í söluyfirliti skulu, eftir því sem kostur er, sóttar í opinberar skrár og skulu gögn þeim til staðfestingar vera fyrir hendi á starfsstöð fasteignasala, þ. á m. yfirlýsing húsfélags varðandi þau atriði er greinir í 8. tl. 1. mgr. og þinglýst eignaskiptayfirlýsing, sé hún til.

                Seljandi skal, með áritun sinni á söluyfirlit, staðfesta að þær upplýsingar sem þar greinir séu réttar.

                Varðar sektum að semja ekki söluyfirlit eða gera það með ófullnægjandi hætti.

3. gr.

                Reglugerð þessi er sett samkvæmt heimild í 17. og 18. gr. laga nr. 54/1997 og öðlast þegar gildi. Jafnframt er felld úr gildi staðfesting á söluyfirlitseyðublaði samkvæmt auglýsingu nr. 195/1988 og staðfesting á söluumboðseyðublaði samkvæmt eyðublaði nr. 188/1997.

Dóms- og kirkjumálaráðuneytinu, 16. febrúar 1998.

Þorsteinn Pálsson.

Jón Thors.

 


Þetta vefsvæði byggir á Eplica