Dóms- og kirkjumálaráðuneyti

69/2000

Reglugerð um starfshætti gjafsóknarnefndar. - Brottfallin

1. gr.

Umsókn um gjafsókn skal senda dómsmálaráðuneytinu. Umsókn skal vera skrifleg og í fjórum eintökum. Umsókn skal leggja fram nægjanlega tímanlega fyrir aðalmeðferð máls. Ráðuneytið framsendir umsókn síðan til gjafsóknarnefndar.

2. gr.

Í umsókn um gjafsókn skal koma fram fullt nafn, kennitala, staða og heimilisfang umsækjanda og gagnaðila. Einnig skal upplýst fyrir hvaða dómi málið er eða verður rekið og hvaða lögmaður fari með það fyrir umsækjanda.

Umsókn skal vera ítarlega rökstudd og þar skal meðal annars fjallað um:

  1. helstu málsatvik, málsástæður og lagarök,
  2. hvort nægilegt tilefni sé til málshöfðunar eða málsvarnar,
  3. fjölskylduhagi umsækjanda, framfærslubyrði og hvort efnahag hans sé þannig komið að kostnaður við rekstur dómsmáls verði honum fyrirsjáanlega ofviða,
  4. hvort úrlausn máls hafi almenna þýðingu eða varði verulega miklu fyrir atvinnu, félagslega stöðu eða aðra einkahagi umsækjanda.
  5. hver sé áfallinn málskostnaður og hver væntanlegur málskostnaður verði, þar með talinn kostnaður við öflun matsgerða og annarra sönnunargagna.
  6. á hvaða gjafsóknarheimild umsókn er reist.

Með umsókn um gjafsókn skal fylgja:

  1. helstu málsskjöl,
  2. staðfest ljósrit skattframtala umsækjanda og maka eða sambúðarmanns næstliðin tvö ár,
  3. gögn um tekjur umsækjanda og maka eða sambúðarmanns á því tímabili sem liðið er frá síðasta skattframtali,
  4. önnur gögn sem þýðingu hafa, svo sem gögn um væntanlega kröfugerð, málskostnað og afstöðu gagnaðila.

Þegar gjafsókn er lögbundin skal greina í umsókn þau atriði sem getur í a- og f-lið 2. mgr. og láta fylgja með þau gögn sem rakin eru í a- og d-lið 3. mgr.

Dómsmálaráðuneytið lætur útbúa eyðublað til umsóknar um gjafsókn.

3. gr.

Nú er rökstuðningur í umsókn um gjafsókn ófullnægjandi eða gögn fylgja ekki með umsókn og skal þá dómsmálaráðuneytið, eftir því sem gjafsóknarnefnd telur ástæðu til, gefa umsækjanda kost á að rökstyðja umsókn nánar og leggja fram gögn. Umsækjanda skal að jafnaði ekki veittur lengri frestur en tvær vikur í því skyni.

Þegar ekki er bætt úr umsókn má vísa henni frá. Einnig er heimilt að vísa frá umsókn sem berst svo skömmu fyrir aðalmeðferð máls að tóm gefst ekki til gagnaöflunar og að veita rökstudda umsögn.

4. gr.

Við mat á því hvort umsækjandi um gjafsókn hefur nægilegt tilefni til málshöfðunar skal meðal annars höfð hliðsjón af eftirtöldum atriðum:

  1. hversu ríka hagsmuni umsækjandi hefur af úrlausn máls, meðal annars með tilliti til væntanlegs málskostnaðar,
  2. hverjir eru aðilar málsins, þar á meðal hvort málið er á milli nákominna,
  3. hugsanlegu tómlæti og sönnunarvanda,
  4. hvort leitast hafi verið við að leysa málið utan réttar, þar á meðal fyrir stjórnvöldum og öðrum úrskurðaraðilum,
  5. hvort gagnaöflun utan réttar er lokið og málshöfðun tímabær,
  6. niðurstöðu héraðsdóms ef sótt er um gjafsókn fyrir Hæstarétti.

5. gr.

Við mat á því hvort gjafsókn verði veitt vegna efnahags umsækjanda skal höfð hliðsjón af skattleysismörkum tekju- og eignarskatts á hverjum tíma. Einnig skal litið til samanlagðra tekna og eigna umsækjanda og maka eða sambúðarmanns. Þegar umsækjandi er yngri en 18 ára skal höfð hliðsjón af samanlögðum tekjum og eignum foreldra. Við matið skal einnig tekið tillit til eftirfarandi atriða:

  1. framfærslubyrði umsækjanda,
  2. umfangs máls og væntanlegs málskostnaðar,
  3. vaxtagjalda af skuldum vegna eigin íbúðar sem umsækjandi býr í,
  4. annars óhjákvæmilegs kostnaðar sem umsækjandi hefur vegna framfærslu umfram venjubundinn framfærslukostnað,
  5. fjármagnstekna og skattfrjálsra tekna og eigna.

6. gr.

Þegar metið er hvort gjafsókn verði veitt vegna þess að úrlausn máls hafi verulega almenna þýðingu skal meðal annars höfð hliðsjón af því hvort:

  1. mál varði miklu fyrir fjölda einstaklinga,
  2. ágreiningsefni sé mikilvægt,
  3. dómstólar hafi áður leyst úr sambærilegu eða svipuðu málefni.

Við mat á því hvort gjafsókn verði veitt vegna þess að úrlausn máls varði verulega miklu fyrir atvinnu, félagslega stöðu eða aðra einkahagi umsækjanda skal meðal annars höfð hliðsjón af því hve rík áhrif úrlausn getur haft á hagi hans.

7. gr.

Gjafsókn verður takmörkuð þannig að hún taki til ákveðins hluta málskostnaðar, afmarkist við ákveðna málsþætti eða takmarkist með öðrum hætti. Einnig má binda gjafsókn við tilgreinda fjárhæð ef efnahag umsækjanda er þannig varið að ætla má að hann geti staðið straum af hluta málskostnaðar sjálfur.

8. gr.

Gjafsóknarnefnd skal að jafnaði innan fjögurra vikna frá því nefndinni berst umsókn um gjafsókn, sem studd er fullnægjandi rökum og gögnum, gefa dómsmálaráðuneytinu skriflega og rökstudda umsögn um umsóknina. Mæli nefndin með því að gjafsókn verði veitt skal tekið fram fyrir hvaða dómstóli hún gildi og hvort hún sé takmörkuð og þá með hvaða hætti.

Í umsögn gjafsóknarnefndar skal eftirfarandi koma fram:

  1. hverjir séu aðilar máls og hver sé lögmaður umsækjanda,
  2. stuttur útdráttur úr umsókn,
  3. upplýsingar um tekjur umsækjanda og efnahag,
  4. rökstuðningur nefndarinnar og niðurstaða,
  5. fyrir hvaða dómsstigi gjafsókn er veitt.

Nú eru nefndarmenn í gjafsóknarnefnd ekki á einu máli um niðurstöðu máls og skal þá tekið fram í umsögn nefndarinnar um hvað er ágreiningur og hvaða nefndarmenn skipi meirihluta og minnihluta.

9. gr.

Þegar umsögn gjafsóknarnefndar liggur fyrir skal hún send dómsmálaráðuneytinu.

Ef ráðuneytið synjar umsókn um gjafsókn skal umsækjanda send umsögn gjafsóknarnefndar.

10. gr.

Gjafsóknarnefnd skal halda gerðabók. Í hana skal færa upplýsingar um mótteknar umsóknir og afgreiddar umsagnir og niðurstöðu þeirra.

11. gr.

Nefndarmönnum í gjafsóknarnefnd ber að gæta þagmælsku um þau atvik sem þeim verða kunn í starfi og leynt eiga að fara vegna lögmæltra almanna- eða einkahagsmuna. Þagmælska helst þótt látið sé af setu í nefndinni.

12. gr.

Reglugerð þessi er sett samkvæmt heimild í 2. mgr. 125. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91 31. desember 1991, sbr. lög nr. 38 19. apríl 1994, og öðlast þegar gildi.

Dóms- og kirkjumálaráðuneytinu, 21. janúar 2000.

Sólveig Pétursdóttir.

Benedikt Bogason.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica