Dómsmálaráðuneyti

1059/2025

Reglugerð um breytingu á reglugerð um för yfir landamæri, nr. 866/2017.

1. gr.

Við 3. gr. reglugerðarinnar bætast tveir töluliðir, svohljóðandi:

  1. Komu- og brottfararkerfið: Kerfið sem komið var á fót með reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2017/2226.
  2. Sjálfsafgreiðslukerfi: Sjálfvirkt kerfi sem framkvæmir allt eða sumt af því landamæraeftirliti sem á við um einstaklinga og sem má nota til að forskrá gögn í komu- og brottfararkerfið.

2. gr.

Við 1. mgr. 5. gr. reglugerðarinnar bætist nýr stafliður, svohljóðandi:

  1. Láta í té lífkennaupplýsingar ef farið er fram á þær til þess að:
    1. stofna gagnaskrá í komu- og brottfararkerfinu,
    2. framkvæma landamæraeftirlit í samræmi við a-c-lið 2. mgr. 8. gr. reglugerðar þessarar, 2. og 4. mgr. 23. gr. reglugerðar (ESB) 2017/2226 og, ef við á, 18. gr. reglugerðar (EB) nr. 767/2008.

3. gr.

Við reglugerðina bætist ný grein, 6. gr. a., ásamt fyrirsögn, svohljóðandi:

Ríkisborgarar þriðju ríkja sem skal skrá upplýsingar um í komu- og brottfararkerfið.

Við för yfir ytri landamæri skal skrá upplýsingar um eftirfarandi hópa í komu- og brottfararkerfið í samræmi við 16., 17., 19. og 20. gr. reglugerðar (ESB) 2017/2226:

  1. Ríkisborgara þriðju ríkja sem hefur verið heimiluð stutt dvöl skv. 1. mgr. 5. gr.
  2. Ríkisborgara þriðju ríkja sem eru aðstandendur borgara Evrópusambandsins, sem tilskipun 2004/38/EB gildir um, og sem eru ekki handhafar dvalarskírteinis samkvæmt þeirri tilskipun.
  3. Ríkisborgara þriðju ríkja sem eru aðstandendur ríkisborgara þriðju ríkja sem hafa jafngildan rétt til frjálsrar farar og borgarar Evrópusambandsins samkvæmt samningi milli Evrópusambandsins og aðildarríkja þess annars vegar og þriðja ríkis hins vegar og eru ekki handhafar dvalarskírteinis samkvæmt tilskipun 2004/38/EB eða dvalarleyfis samkvæmt reglugerð ráðsins (EB) nr. 1030/2002.

Upplýsingar um ríkisborgara þriðju ríkja sem hefur verið synjað um landgöngu í samræmi við 14. gr. skulu skráðar í komu- og brottfararkerfið í samræmi við 18. gr. reglugerðar (ESB) 2017/2226.

Upplýsingar um eftirfarandi hópa skulu ekki skráðar í komu- og brottfararkerfið:

  1. Ríkisborgara þriðju ríkja sem eru aðstandendur borgara Evrópusambandsins, sem tilskipun 2004/38/EB gildir um, og sem eru handhafar dvalarskírteinis samkvæmt þeirri tilskipun, hvort sem þeir eru í fylgd með þeim borgara Evrópusambandsins eða eru að koma til hans eða ekki.
  2. Ríkisborgara þriðju ríkja sem eru aðstandendur ríkisborgara þriðja ríkis, hvort sem þeir eru í fylgd með þeim ríkisborgara þriðja ríkis eða eru að koma til hans ef sá ríkisborgari þriðja ríkis hefur jafngildan rétt til frjálsrar farar og borgarar Evrópusambandsins samkvæmt samningi milli Evrópusambandsins og aðildarríkja þess annars vegar og þriðja ríkis hins vegar og þessir ríkisborgarar þriðju ríkja eru handhafar dvalarskírteinis samkvæmt tilskipun 2004/38/EB eða dvalarleyfis samkvæmt reglugerð (EB) nr. 1030/2002.
  3. Handhafa dvalarleyfa sem um getur í 17. tölul. 3. gr. reglugerðar þessarar, annarra en þeirra sem falla undir a- og b-lið töluliðarins.
  4. Handhafa vegabréfsáritana til langrar dvalar.
  5. Ríkisborgara þriðju ríkja sem nýta sér rétt sinn til hreyfanleika í samræmi við tilskipun 2014/66/ESB eða tilskipun (ESB) 2016/801.
  6. Ríkisborgara Andorra, Mónakós og San Marínós og handhafa vegabréfs sem gefið er út af Vatikanborgríkinu eða Páfastóli.
  7. Þjóðhöfðingjar og flugmenn og áhafnameðlimir í samræmi við viðauka 2.
  8. Einstaklinga sem njóta undanþágu frá þeirri skyldu að fara einungis yfir ytri landamæri á landamærastöðvum og á ákveðnum afgreiðslutíma samkvæmt 2. mgr. 4. gr.

4. gr.

Við reglugerðina bætist ný grein, 6. gr. b., ásamt fyrirsögn, svohljóðandi:

Notkun sjálfsafgreiðslukerfa til að forskrá gögn í komu- og brottfararkerfið.

Ef eftirfarandi skilyrði eru uppfyllt er einstaklingum, sem skal skrá í komu- og brottfararkerfið við för yfir ytri landamæri í samræmi við 6. gr. a., heimilt að nota sjálfsafgreiðslukerfi til þess að forskrá í komu- og brottfararkerfið gögnin sem um getur í a-lið 4. mgr.:

  1. ferðaskilríkin innihalda gagnaörflögu og ósvikni og heilleiki gagnanna á örflögunni eru staðfest með heilli gildri vottorðakeðju,
  2. ferðaskilríkin innihalda andlitsmynd sem er skráð í gagnaörflöguna og sem sjálfsafgreiðslukerfið getur nálgast tæknilega til þess að sannprófa deili á handhafa ferðaskilríkjanna með því að bera saman andlitsmyndina sem er skráð í gagnaörflöguna við andlitsmynd af honum sem er tekin á staðnum. Sannprófunina má framkvæma með því að bera saman fingraför sem tekin eru á staðnum við fingraförin sem eru skráð í gagnaörflögu ferðaskilríkjanna.

Samkvæmt 1. mgr. skal sjálfsafgreiðslukerfið sannprófa hvort einstaklingur hefur áður verið skráður í komu- og brottfararkerfið og sannprófa deili á viðkomandi í samræmi við 2. mgr. 23. gr. reglugerðar (ESB) 2017/2226.

Í samræmi við 4. mgr. 23. gr. reglugerðar (ESB) 2017/2226 skal sjálfsafgreiðslukerfið framkvæma kennslagreiningu í samræmi við 27. gr. þeirrar reglugerðar. Þegar kennslagreining er framkvæmd í komu- og brottfararkerfinu í samræmi við 4. mgr. 23. gr. reglugerðar (ESB) 2017/2226 skal:

  1. fara fram sannprófun á fingraförum í upplýsingakerfinu um vegabréfsáritanir í samræmi við 6. mgr. 18. gr. reglugerðar (EB) nr. 767/2008 ef viðkomandi fellur undir kvöð um vegabréfsáritun til að fara yfir ytri landamæri og er skráður í kerfið. Ef sannprófun á einstaklingi skv. 2. mgr. þessarar greinar er ekki möguleg skal leita í gögnum í upplýsingakerfinu um vegabréfsáritanir til kennslagreiningar í samræmi við 20. gr. reglugerðar (EB) nr. 767/2008,
  2. fletta upp í upplýsingakerfinu um vegabréfsáritanir í samræmi við 19. gr. a í reglugerð (EB) nr. 767/2008 ef viðkomandi fellur undir kvöð um vegabréfsáritun til að fara yfir ytri landamæri og finnst ekki í komu- og brottfararkerfinu eftir að kennslagreining var reynd í samræmi við 27. gr. reglugerðar (ESB) 2017/2226.

Í því tilviki að gögn er varða einstakling sem um getur í 1. mgr. séu ekki skráð í komu- og brottfararkerfið skv. 2. og 3. mgr.:

  1. Skulu ríkisborgarar þriðju ríkja, sem falla undir kvöð um vegabréfsáritun þegar þeir fara yfir landamæri, forskrá í komu- og brottfararkerfið í gegnum sjálfsafgreiðslukerfið gögnin sem talin eru upp í 1. mgr. 16. gr. og c-f-lið 2. mgr. 16. gr. reglugerðar (ESB) 2017/2226 og, eftir atvikum, gögnin sem um getur í 6. mgr. 16. gr. þeirrar reglugerðar. Ríkisborgarar þriðju ríkja sem falla ekki undir kvöð um vegabréfsáritun þegar þeir fara yfir ytri landamæri skulu forskrá í komu- og brottfararkerfið í gegnum sjálfsafgreiðslukerfið gögnin sem talin eru upp í a-c-lið 1. mgr. 17. gr. og c-lið 2. mgr. 16. gr. sömu reglugerðar, og eftir atvikum, gögnin sem um getur í d-lið 1. mgr. 17. gr. þeirrar reglugerðar.
  2. Skal einstaklingi vísað til landamæravarðar sem skal:
    1. forskrá gögnin ef ekki reyndist unnt að safna öllum tilskildum gögnum í gegnum sjálfsafgreiðslukerfið,
    2. sannprófa: að ferðaskilríkin sem notuð voru í sjálfsafgreiðslukerfinu samsvari þeim sem viðkomandi sýnir landamæraverðinum, að andlitsmynd sem tekin er á staðnum af viðkomandi samsvari andlitsmyndinni sem var fengin úr sjálfsafgreiðslukerfinu og þegar viðkomandi hefur ekki tilskilda vegabréfsáritun samkvæmt reglugerð (EB) nr. 539/2001, að fingraför tekin á staðnum af viðkomandi samsvari fingraförum sem fengin eru úr sjálfsafgreiðslukerfinu,
    3. þegar ákvörðun hefur verið tekin um að heimila eða synja viðkomandi um landgöngu, staðfesta upplýsingarnar sem vísað er til í a-lið 3. mgr. og færa inn í komu- og brottfararkerfið gögnin sem um getur í a- og b-lið 2. mgr. 16. gr. og a-d-lið 6. mgr. 18. gr. reglugerðar (ESB) 2017/2226.

Ef aðgerðirnar sem kveðið er á um í 2. og 3. mgr. gefa til kynna að gögn um einstaklinginn sem um getur í 1. mgr. séu skráð í komu- og brottfararkerfið skal sjálfsafgreiðslukerfið meta hvort uppfæra þurfi einhver af gögnunum sem um getur í a-lið 4. mgr.

Ef matið sem um getur í 5. mgr. leiðir í ljós að gagnaskrá yfir einstaklinginn, sem um getur í 1. mgr., er til í komu- og brottfararkerfinu en þörf er á að uppfæra upplýsingarnar skal viðkomandi:

  1. uppfæra upplýsingarnar í komu- og brottfararkerfinu með því að forskrá þær í gegnum sjálfsafgreiðslukerfið,
  2. vísað til landamæravarðar sem skal sannprófa að uppfærslan skv. a-lið sé rétt og, þegar ákveðið hefur verið að heimila eða synja um landgöngu, uppfæra gagnaskrá einstaklingsins í samræmi við 2. mgr. 14. gr. reglugerðar (ESB) 2017/2226.

Sjálfsafgreiðslukerfi skulu starfrækt undir eftirliti landamæravarðar sem ber ábyrgð á að greina óviðeigandi, sviksamlega eða óeðlilega notkun á sjálfsafgreiðslukerfinu.

5. gr.

Reglugerð þessi er sett samkvæmt heimild í a- og h-lið 1. mgr. 23. gr. laga nr. 136/2022 um landamæri og öðlast gildi 12. október 2025.

6. gr.

Við reglugerðina bætist ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:

Bráðabirgðaákvæði.

Framkvæmd landamæraeftirlits skal hagað í samræmi við reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2025/1534 frá 18. júlí 2025 um tímabundnar undanþágur frá tilteknum ákvæðum reglugerða (ESB) 2017/2226 og (ESB) 2016/399 að því er varðar töku komu- og brottfararkerfisins í notkun í áföngum, sbr. fylgiskjal 2 sem birt er með reglugerð um komu- og brottfararkerfið, nr. 1056/2025, á meðan aðlögunartímabili við innleiðingu þess kerfis stendur.

Dómsmálaráðuneytinu, 25. september 2025.

Þorbjörg S. Gunnlaugsdóttir.

Haukur Guðmundsson.

B deild - Útgáfudagur: 10. október 2025


Þetta vefsvæði byggir á Eplica