Fara beint í efnið

Prentað þann 2. maí 2024

Breytingareglugerð

629/2023

Reglugerð um breytingu á reglugerð um útlendinga nr. 540/2017.

1. gr.

Við 32. gr. b bætist ný málsgrein, svohljóðandi:

Þau tengsl sem umsækjandi myndar við Ísland eftir framlagningu umsóknar um alþjóðlega vernd teljast ekki til sérstakra tengsla.

Umsækjandi telst ekki hafa sérstök tengsl við Ísland nema aðstandandi hans sé búsettur hér á landi í lögmætri dvöl. Við mat á sérstökum tengslum skal m.a. líta til þess hvort umönnunarsjónarmið séu fyrir hendi, hvort umsækjandi og aðstandandi hans hafi deilt eða alist upp á sama heimili eða hafi á einhverjum tímapunkti haft uppeldisskyldu eða framfærsluskyldu sín á milli. Stjórnvöldum er heimilt að krefja umsækjanda um að sýna fram á umrædd tengsl, t.d. með framlagningu skilríkja eða vottorða. Þá er stjórnvöldum heimilt að óska eftir því að aðstandandi umsækjanda staðfesti umrædd tengsl.

Við mat á sérstökum tengslum ber þó ávallt að hafa til hliðsjónar þau tengsl sem viðkomandi hefur í því ríki þar sem hann hefur heimild til dvalar í, m.a. lengd dvalar í ríkinu, fjölskyldutengsl og samfélagsleg tengsl sem umsækjandi hefur myndað við ríkið. Þá skal jafnframt hafa til hliðsjónar hvort viðkomandi eigi rétt á fjölskyldusameiningu skv. VIII. kafla laga um útlendinga.

2. gr.

Reglugerð þessi, sem sett er samkvæmt heimild í 4. mgr. 36. gr. laga um útlendinga, nr. 80/2016, með síðari breytingum, öðlast þegar gildi.

Dómsmálaráðuneytinu, 5. júní 2023.

Jón Gunnarsson.

Haukur Guðmundsson.

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.