Fara beint í efnið

Prentað þann 23. apríl 2024

Breytingareglugerð

1588/2021

Reglugerð um breytingu á reglugerð nr. 565/2021 um skráningu einstaklinga.

1. gr.

Á eftir 18. gr. reglugerðarinnar bætist við ný grein, 18. gr. a, svohljóðandi:

Dulið nafn og/eða lögheimili.

Einstaklingur getur óskað eftir því að ekki sé miðlað upplýsingum um nafn og/eða lögheimili/aðsetur hans úr þjóðskrá. Vernd getur, eftir atvikum, jafnframt náð til nánustu fjölskyldumeðlima viðkomandi sem eru á sama lögheimili. Þó er heimilt að miðla hinum duldu upplýsingum til opinberra aðila ef brýn ástæða er til. Einstaklingur sem með rökstuddum hætti óskar eftir vernd gegn miðlun nafns og/eða lögheimilis síns og fjölskyldu sinnar þarf að sýna fram á það með staðfestingu frá lögregluyfirvöldum að um sé að ræða slíka hættu að réttmætt sé og eðlilegt að nafn og/eða heimili hlutaðeigandi sé dulið í þjóðskrá.

Beiðni um dulið nafn og/eða lögheimili getur einnig komið frá lögregluyfirvöldum.

Í staðfestingu lögregluyfirvalda þarf að koma fram að viðkomandi sé í hættu, alvarleiki hættunnar og hvort vernd skuli ná yfir nafn og lögheimili eða hvort fullnægjandi vernd náist með duldu lögheimili eingöngu.

Þá þarf lögregla að meta og upplýsa Þjóðskrá Íslands hvort óhætt sé að upplýsingum um nafn og/eða lögheimili hlutaðeigandi, þrátt fyrir að það sé dulið, sé miðlað til skattayfirvalda og/eða annarra opinberra aðila svo sem Tryggingastofnunar ríkisins. Þjóðskrá Íslands hefur heimild til að verða við formlegri beiðni hlutaðeigandi um miðlun nauðsynlegra upplýsinga, t.d. til fjármálafyrirtækja eða annarra aðila, eftir atvikum.

Heimild fyrir að hafa nafn og/eða lögheimili/aðsetur dulið skal ekki vara lengur en þörf er á og getur aðeins gilt til eins árs í senn. Þannig fellur vernd niður að þeim tíma liðnum eða fyrr ef hættan er liðin hjá og tilkynning þess efnis berst Þjóðskrá Íslands frá hlutaðeigandi eða frá lögreglu.

Ef aðstæður eru enn með þeim hætti að skilyrði verndar sé uppfyllt, þarf beiðni um framlengingu, ásamt nauðsynlegum gögnum, að berast Þjóðskrá Íslands fyrir lok gildistíma verndar.

Nú berst Þjóðskrá Íslands ekki beiðni um framlengingu og skal þá nafn og/eða lögheimili/aðsetur hlutaðeigandi, miðlað að nýju. Þjóðskrá Íslands skal senda tilkynningu um niðurfellingu dulins nafns og/eða lögheimilis/aðseturs á pósthólf hlutaðeigandi á Ísland.is.

2. gr. Gildistaka.

Reglugerð þessi er sett með heimild í 3. mgr. 14. gr. laga nr. 140/2019, með síðari breytingum og öðlast gildi 1. janúar 2022.

Dómsmálaráðuneytinu, 20. desember 2021.

Jón Gunnarsson
innanríkisráðherra.

Haukur Guðmundsson.

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.