Leita
Hreinsa Um leit

Dómsmálaráðuneyti

1082/2020

Reglugerð um breytingu á reglugerð um rafrænar þinglýsingar, nr. 360/2019.

1. gr.

Eftirfarandi breytingar verða á 1. gr. reglugerðarinnar:

  1. Á eftir orðunum "þinglýsingu" í 1. málsl. kemur: og aflýsingu.
  2. Á eftir orðunum "rafrænna þinglýsinga" í 2. málsl. kemur: og aflýsinga.

 

2. gr.

Eftirfarandi breytingar verða á 2. gr. reglugerðarinnar:

  1. 3. tölul. orðast svo:
    Þinglýsingagátt: Vefgátt sem tengir tölvukerfi þinglýsingarbeiðanda við þinglýsingar­kerfi sýslumanna og gerir beiðanda kleift að auðkenna sig og senda rafræna færslu til þing­lýsingar eða aflýsingar.
  2. Við bætist nýr töluliður svohljóðandi:
    1. Aflýsing með rafrænni færslu: Aðgerð við að afmá eignarhaft af eign, án þess að þing­lýsingarstjóra berist frumrit skjalsins með áritun um aflýsingu þess.

 

3. gr.

3. gr. reglugerðarinnar orðast svo, ásamt fyrirsögn:

Umsókn um aðgengi að vefþjónustum.

Þjóðskrá Íslands tekur við umsóknum þinglýsingarbeiðenda um aðgang að vefþjónustum þing­lýsingagáttar. Með umsókninni skal fylgja samþykki þinglýsingarbeiðanda á þeim skilmálum sem gilda fyrir tengingu tölvukerfa við þinglýsingagáttina. Í skilmálunum skal eftir atvikum fjallað um réttindi og skyldur þinglýsingarbeiðanda, þjónustuveitanda (Þjóðskrár Íslands) og sýslumanna, tækni­lýsingar, áhrif vanefnda á greiðslum og önnur nauðsynleg atriði. Skilmálarnir sem og breyt­ingar á þeim skulu staðfestir af dómsmálaráðuneytinu.

 

4. gr.

Á eftir 8. gr. reglugerðarinnar kemur ný grein, 8. gr. a, ásamt fyrirsögn, svohljóðandi:

Framkvæmd aflýsingar með rafrænni færslu.

Sá sem beiðist aflýsingar tengist þinglýsingagátt með rafrænni auðkenningu. Meginatriði skjals eru sótt í þinglýsingagátt með uppflettingu á þinglýsingarnúmeri þess. Þegar staðreynt hefur verið að meginatriðin varði skjalið sem ætlunin er að aflýsa, sendir rétthafi skv. skjalinu skeyti með beiðni um aflýsingu í gegnum þinglýsingagáttina. Ekkert gjald er greitt fyrir beiðni um aflýsingu með raf­rænni færslu.

Þegar rafræn beiðni um aflýsingu hefur verið send í þinglýsingagáttina er hún tímastimpluð til staðfestingar á viðtökudegi og -tíma, úthlutað einkvæmu númeri og yfirfarin til að staðreyna að skil­yrði til aflýsingar séu uppfyllt. Séu skilyrði uppfyllt er skjalinu aflýst í þinglýsingabók. Fulnægi beiðnin ekki skilyrðum er hún endursend aflýsingarbeiðanda án frekari meðferðar.

Aflýsingarbeiðanda er sent svarskeyti til staðfestingar á meðferð beiðninnar.

 

5. gr.

Reglugerð þessi, sem sett er samkvæmt heimild í 5. mgr. 5. gr. þinglýsingalaga nr. 39/1978, með síðari breytingum, öðlast þegar gildi.

 

Dómsmálaráðuneytinu, 4. nóvember 2020.

 

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir.

Haukur Guðmundsson.
Þetta vefsvæði byggir á Eplica