Fara beint í efnið
Fyrri útgáfa

Prentað þann 19. mars 2024

Reglugerð með breytingum síðast breytt 2. feb. 2021

880/2019

Reglugerð um meðhöndlun, vörslur og sölu haldlagðra, kyrrsettra og upptækra eigna og muna.

I. KAFLI Almenn ákvæði.

1. gr. Gildissvið.

Reglugerð þessi tekur til eigna og muna sem hafa verið haldlagðir og kyrrsettir á grundvelli laga um meðferð sakamála nr. 88/2008, tollalaga nr. 88/2005, laga um staðgreiðslu opinberra gjalda nr. 45/1987, laga um staðgreiðslu skatts á fjármagnstekjur nr. 94/1996, laga um tekjuskatt nr. 90/2003 og laga um virðisaukaskatt nr. 50/1988, svo og eigna og muna sem sætt hafa upptöku á grundvelli VII. kafla almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Þau stjórnvöld sem heimildir hafa til haldlagningar og kyrrsetningar samkvæmt þeim lögum er greinir í 1. mgr., falla undir gildissvið reglugerðarinnar.

2. gr. Orðskýringar.

Í reglugerð þessari er merking eftirfarandi hugtaka sem hér segir:

  1. Eignir: Að jafnaði vísað til í tengslum við kyrrsetningu og nær yfir öll verðmæti, þar á meðal bæði fasteignir og lausafé, að rafrænum gögnum og verðmætum meðtöldum, sem geta verið andlag kyrrsetningar og/eða upptöku.
  2. Geymslumaður: Utanaðkomandi aðili sem annast geymslu haldlagðra muna fyrir hönd tiltekins stjórnvalds eða stjórnvalda.
  3. Geymslusamningur: Samningur sem gerður er við geymslumann um geymslu haldlagðra muna.
  4. Munir: Að jafnaði vísað til í tengslum við haldlagningu og nær yfir öll verðmæti, þar á meðal bæði fasteignir og lausafé, að rafrænum gögnum og verðmætum meðtöldum, sem geta verið andlag haldlagningar og/eða upptöku.
  5. Sérfróðir menn: Aðilar sem búa yfir sérstakri þekkingu á ástandi og verðmæti tiltekinna muna og eigna, s.s. fasteignasalar, bifreiðasalar, listmunasalar og gullsmiðir.
  6. Söluaðili: Óháður þriðji maður sem tekur að sér sölu haldlagðra, kyrrsettra og upptækra muna og eigna samkvæmt sölusamningi.
  7. Stjórnvald: Þær löggæslustofnanir og opinberu aðilar sem hafa heimild til haldlagningar, kyrrsetningar og upptöku samkvæmt þeim lögum er greinir í 1. mgr. 1. gr.
  8. Vörsluhafi: Aðili, annar en eigandi, sem hefur muni eða eignir undir höndum.

II. KAFLI Haldlagðir munir.

3. gr. Tilkynning.

Tilkynna skal eiganda munar um haldlagningu eins fljótt og auðið er nema rannsóknarhagsmunir standi því í vegi. Skal slíkri tilkynningu þá komið á framfæri um leið og slíkir rannsóknarhagsmunir eru ekki lengur fyrir hendi. Ef ekki er vitað hver eigandi haldlagðra muna er, skal honum tilkynnt um haldlagninguna um leið og upplýst er hver hann er og til hans næst.

Tilkynning samkvæmt 1. mgr. skal að jafnaði vera skrifleg. Tilgreint skal með nákvæmum hætti hvað var haldlagt, á hvaða grundvelli og í hvaða skyni, nema rannsóknarhagsmunir standi því í vegi að slíkar upplýsingar séu veittar. Þá skal taka fram um heimildir eiganda til að bera haldlagninguna undir dómara og til að krefjast þess að fá afrit af munaskrá samkvæmt 6. gr.

Samsvarandi tilkynningu skal komið á framfæri við vörsluhafa haldlagðra muna sé hann annar en eigandi eftir því sem við á.

4. gr. Haldlagningarskýrsla.

Við haldlagningu muna skal gera skýrslu þar sem eftirfarandi atriði skulu a.m.k. tilgreind eftir því sem við á:

  1. Heiti og númer máls.
  2. Nafn eiganda eða vörsluhafa muna.
  3. Hvar og hvenær munirnir voru haldlagðir.
  4. Hver sá um haldlagningu, bæði heiti stjórnvalds og nafn þess starfsmanns sem ber ábyrgð á aðgerðinni.
  5. Lýsing á þeim munum sem voru haldlagðir, s.s. tegund, fjöldi, þyngd og litur. Eftir atvikum kann að vera rétt að ljósmyndir af mununum fylgi með skýrslunni.
  6. Mat á ástandi muna ef við á.

Heimilt er að leita til sérfróðra manna við mat á ástandi muna samkvæmt 6. tölulið ef svo ber undir.

Haldlagningarskýrslan skal undirrituð af starfsmanni stjórnvalds sem var viðstaddur haldlagninguna, svo og eiganda eða vörsluhafa munanna ef unnt er og rannsóknarhagsmunir standa því ekki í vegi.

Afrit af haldlagningarskýrslu skal fylgja með í munaskrá.

5. gr. Merking.

Merkja skal alla haldlagða muni með skýrum og greinargóðum hætti. Merkingin skal vera vönduð og endingargóð og þannig gerð að hún valdi hvorki skemmdum né annarri verðmætarýrnun á hinum haldlögðu munum. Hver munur skal merktur með númeri þess máls sem um ræðir ásamt sérstöku númeri til auðkenningar í munaskrá. Þá skal merkingin enn fremur gefa til kynna hvar og hvenær munur var haldlagður og, ef unnt er, hver sé eigandi hans og/eða vörsluhafi.

6. gr. Munaskrá.

Stjórnvöldum er skylt að halda nákvæma munaskrá yfir alla þá muni sem þau haldleggja, þannig að rekjanleiki sé tryggður. Í munaskrá skal, auk þeirra atriða sem fram koma í haldlagningarskýrslu samkvæmt 4. gr., tilgreina eftirfarandi atriði:

  1. Haldlagningarnúmer munar, sbr. 5. gr.
  2. Hvar munir eru geymdir, sbr. 7. gr.
  3. Önnur þau atriði sem mælt er fyrir um að skráð skuli í munaskrá samkvæmt öðrum ákvæðum reglugerðarinnar eða rétt þykir að séu þar tilgreind af öðrum ástæðum.

Eftir kröfu eiganda eða vörsluhafa munar skal honum látið í té afrit af skráningu munar í munaskrá.

7. gr. Geymsla.

Það stjórnvald sem haldleggur muni hverju sinni er ábyrgt fyrir geymslu þeirra. Á meðan á haldlagningu stendur skulu haldlagðir munir að jafnaði geymdir hjá því stjórnvaldi sem haldleggur þá.

Hvert stjórnvald skal hafa til ráðstöfunar a.m.k. eitt læst og öruggt rými sem sérstaklega er ætlað til geymslu haldlagðra muna. Skal aðgangur að munageymslu takmarkaður eins og frekast er kostur og ber þeim yfirmanni sem ber ábyrgð á málaflokknum að halda skrá yfir þá aðila sem hafa slíkan aðgang.

Gefa skal út sérstaka kvittun fyrir hverjum mun sem komið er með til geymslu og sjá til þess að hann sé skráður í munaskrá. Muni skal aðeins afhenda úr munageymslu gegn kvittun frá móttakanda.

Stjórnvöldum er heimilt að semja við einkaaðila um að annast geymslu haldlagðra muna fyrir sína hönd. Gera skal geymslusamning um slíkar ráðstafanir þar sem meðal annars skal tekið sérstaklega fram að á geymslumanni hvíli allar þær sömu skyldur um meðhöndlun og geymslu muna og hvíla á stjórnvöldum samkvæmt reglugerð þessari.

Leitast skal við að geyma haldlagða muni í sama máli á sama stað. Ef flytja á haldlagða muni frá einni munageymslu yfir í aðra, skal getið um flutninginn í munaskrá. Þegar annað stjórnvald hefur kvittað fyrir móttöku munanna ber það ábyrgð á geymslu þeirra frá þeim tíma. Það sama á við þegar geymslumaður tekur við munum til geymslu samkvæmt samningi.

Ef ómöguleiki stendur því í vegi að munur sé geymdur hjá því stjórnvaldi sem annaðist haldlagninguna eða geymslumanni, svo sem vegna stærðar munar eða eðlis hans að öðru leyti, skal skrá í munaskrá hvar munurinn er.

8. gr. Meðhöndlun muna.

Meðhöndlun haldlagðra muna skal vera með eins vönduðum hætti og unnt er, þannig að tryggt sé að þeir verði ekki fyrir skemmdum meðan á flutningi þeirra og geymslu stendur. Í því skyni kann að vera nauðsynlegt að koma viðkvæmum eða brothættum munum fyrir í sérstökum umbúðum til þess að þeir verði ekki fyrir hnjaski eða haga geymslu þeirra með öðrum viðeigandi hætti. Skal þess sérstaklega gætt að munir sem lagt hefur verið hald á vegna sönnunargildis þeirra verði ekki fyrir einhverjum slíkum utanaðkomandi áhrifum á meðan á flutningi þeirra og geymslu stendur, að hætta sé á að sönnunargildi þeirra fari forgörðum.

9. gr. Heimild til sölu haldlagðra muna.

Í þeim tilvikum þegar hætt er við því að haldlagðir munir, sem kunna að vera gerðir upptækir, rýrni að verðmæti á meðan á haldlagningu stendur getur það stjórnvald sem ber ábyrgð á haldlagningunni óskað úrskurðar dómara um heimild til sölu munanna. Þó er ekki nauðsynlegt að afla dómsúrskurðar liggi samþykki eiganda munanna fyrir. Skal slíks samþykkis aflað skriflega eða með öðrum sannanlegum hætti. Þá er heimilt að verða við beiðni eiganda haldlagðra muna um sölu þeirra.

Áður en farið er fram á dómsúrskurð samkvæmt 1. mgr. skal að jafnaði afla mats hjá óvilhöllum aðila, sem er sérfróður um þá muni sem um ræðir og löggiltur á sínu sviði ef kostur er og við á, í því skyni að leggja mat á hættu á rýrnun verðmætis þeirra meðan á rannsókn stendur. Komi í ljós að verðmæti munanna sé svo lítið að það mun ekki hrökkva fyrir þeim kostnaði sem hlýst af geymslu þeirra og sölu, skal ekki farið fram á heimild til sölu þeirra, heldur skulu þeir geymdir áfram þar til kveðið hefur verið á um upptöku þeirra eða haldlagning fellur niður.

Getið skal um þær ráðstafanir sem greinir í 1. og 2. mgr. í munaskrá.

10. gr. Sala haldlagðra muna.

Að fengnum dómsúrskurði, ef við á, skal hinum haldlögðu munum komið í sölu hjá óháðum söluaðila sem annaðhvort hefur sölu slíkra muna að atvinnu eða er að öðru leyti, vegna sérfræðiþekkingar sinnar og reynslu, hæfur til þess að annast sölu þeirra. Sé til staðar opinber aðili sem annast sölu þeirra muna sem um ræðir er sömuleiðis heimilt að leita til hans um söluna. Í einhverjum tilvikum kann að vera rétt að leita til tveggja eða fleiri söluaðila um sölu.

Áður en munir eru settir til sölumeðferðar skal kanna hvort á þeim hvíli veðbönd eða önnur tryggingaréttindi. Sé sú raunin skal leitast við að hafa samráð við eiganda þeirra tryggingaréttinda, þar á meðal þegar líkur eru á að söluandvirði muna muni ekki standa undir greiðslu þeirra.

Áður en munir eru settir á sölu skal gera sérstakan samning um söluna við söluaðila þar sem eftirfarandi skal meðal annars tekið fram:

  1. Tegund, magn og annað auðkenni þeirra muna sem verið er að selja.
  2. Að seljandi sé það stjórnvald sem um ræðir og að um haldlagða muni sé að ræða.
  3. Að munirnir sé seldir "í því ástandi sem þeir eru".
  4. Fjárhæð söluþóknunar.
  5. Gildistími sölusamningsins.
  6. Númer bankareiknings sem leggja ber andvirði sölu inn á.
  7. Áskilnaður um að þau atriði sem greinir í 1., 2. og 3. lið séu tilgreind í sölulýsingu.

Ákvörðun um hvort taka eigi tilboði í haldlagða muni er hjá því stjórnvaldi sem ábyrgð ber á haldlagningunni.

Getið skal um sölu haldlagðra muna samkvæmt þessu ákvæði í munaskrá.

11. gr. Trygging.

Heimilt er að verða við beiðni eiganda eða vörsluhafa munar um stöðvun á sölu samkvæmt 10. gr., leggi hann fram tryggingu sem nemur framkomnu kauptilboði í hinn haldlagða mun. Leggja verður tryggingu fram sama dag og beiðni um stöðvun sölu kemur fram.

Trygging skal vera í formi fjármuna sem lagðir skulu inn á sérstakan reikning hjá því stjórnvaldi sem ábyrgð ber á haldlagningunni. Ákvæði 17. gr. gilda um meðhöndlun slíkra reikninga eftir því sem við á.

Hafi fullnægjandi trygging verið lögð fram flyst haldið yfir á fjármunina og skal þá skila muninum aftur til eiganda samkvæmt 13. gr. Geta skal um þá ráðstöfun í munaskrá.

12. gr. Meðhöndlun andvirðis seldra muna.

Þegar haldlagðir munir hafa verið seldir samkvæmt 10. gr., flyst haldið yfir á söluandvirði þeirra. Skal andvirðið, að frádregnum kostnaði vegna sölunnar og geymslukostnaði, ef því er að skipta, varðveitt á sérstökum bankareikningi þar til kveðið hefur verið á um upptöku fjármunanna eða haldlagning þeirra felld niður. Getið skal um ráðstöfun andvirðisins í munaskrá.

13. gr. Haldlagning fellur niður.

Falli haldlagning niður án þess að upptaka hafi verið dæmd skal hinum haldlögðu munum, eða þeim fjármunum sem fengist hafa við sölu þeirra samkvæmt 10. gr., skilað aftur til eiganda þeirra nema öðruvísi sé kveðið á um í lögum. Það stjórnvald sem fer með endanlegt forræði á máli ber ábyrgð á því að skila mununum eða fjármununum.

Séu munir í geymslu hjá öðru stjórnvaldi þegar haldlagning fellur niður, skal það stjórnvald annast skil á mununum samkvæmt beiðni þess stjórnvalds sem fer með forræði málsins. Skil skulu fara fram eins fljótt og auðið er og að jafnaði innan þriggja daga eftir að haldlagning fellur niður. Getið skal um skil á munum í munaskrá.

14. gr. Kostnaður af meðhöndlun muna.

Sé kveðið á um upptöku haldlagðra muna með dómi telst sá kostnaður sem kann að hafa fallið til vegna meðhöndlunar og geymslu munanna til sakarkostnaðar samkvæmt ákvæðum laga um meðferð sakamála.

Falli haldlagning muna niður án þess að upptaka hafi verið dæmd, þannig að skila beri þeim aftur til eiganda þeirra eða vörsluhafa, er óheimilt að krefjast þess að eigandi eða vörsluhafi munanna greiði þann kostnað sem kann að hafa fallið til vegna meðhöndlunar þeirra og geymslu. Hafi munir verið seldir samkvæmt 10. gr., skal standa eiganda þeirra skil á þeim kostnaði sem til féll vegna sölunnar og dreginn var frá söluandvirðinu samkvæmt 12. gr.

15. gr. Eigandi er óþekktur eða hafnar viðtöku.

Þegar skila ber munum til eiganda þeirra eða vörsluhafa vegna þess að haldlagning hefur fallið niður en eigandi þeirra eða vörsluhafi er óþekktur og enginn gerir lögmætt tilkall til munanna innan 5 ára, má gera þá upptæka, sbr. 69. gr. f. almennra hegningarlaga. Skulu slíkir munir þá seldir samkvæmt þeim reglum sem greinir í 10. gr., eftir því sem við á.

Sé eigandi þekktur, en hann afsalar sér mununum með sannanlegum hætti, er heimilt að selja þá samkvæmt þeim reglum sem greinir í 10. gr., eftir því sem við á.

Um andvirði muna sem seldir eru samkvæmt 1. og 2. mgr. fer eftir 31. gr.

Hafni eigandi eða vörsluhafi að taka við munum skal þeim komið fyrir í geymslu hjá geymslumanni. Skal eiganda eða vörsluhafa tilkynnt um ráðstöfunina og hvar hann geti nálgast munina gegn greiðslu geymslukostnaðar. Hafi eigandi eða vörsluhafi ekki vitjað munanna innan árs frá því að honum var sannanlega tilkynnt hvar hann gæti nálgast þá, skulu þeir seldir samkvæmt þeim reglum sem greinir í 10. gr. Andvirði muna sem seldir eru samkvæmt þessari málsgrein, að frádregnum kostnaði vegna sölunnar og geymslukostnaði, skal afhent eiganda þeirra.

III. KAFLI Sérákvæði um einstaka tegundir haldlagðra muna.

16. gr. Reiðufé.

Þegar reiðufé er haldlagt skulu samsetning seðla og fjárhæðir skilmerkilega skráðar í haldlagningarskýrslu. Að minnsta kostir tveir aðilar skulu koma að talningu reiðufjárins og staðfesta fjárhæð þess með undirritun sinni á haldlagningarskýrsluna.

Við afhendingu reiðufjárins til munageymslu skal það talið aftur ef kostur er, en því næst komið fyrir í læstum öryggisskáp innan munageymslunnar. Svo fljótt sem við verður komið og aldrei síðar en tveimur virkum dögum eftir að haldlagning hefur farið fram, skal stofna bankareikning, sérstakan reikning fyrir hvert mál eða hvern eiganda ef þeir eru fleiri en einn, þar sem leggja ber reiðuféð inn. Nemi fjárhæð haldlagðs reiðufjár minna en 200.000 krónum er heimilt að víkja frá þeirri skyldu að stofna sérstakan bankareikning og leggja reiðuféð þess í stað inn á reikning sem stofnaður hefur verið í því skyni að varsla haldlagðar fjárhæðir undir þeim mörkum. Er heimildin bundin því skilyrði að rekjanleiki hverrar innlagðrar fjárhæðar á slíkan reikning sé ávallt tryggður.

Gera skal grein fyrir innlögn fjárins, dagsetningu innlagnar og númeri bankareiknings í munaskrá. Að öðru leyti gilda ákvæði II. kafla, eftir því sem við getur átt.

Hafi reiðufé verið haldlagt á grundvelli þess að það hefur að geyma sönnunargildi í sakamáli, s.s. vegna lífsýna sem finna má á því, eða þegar verðmæti reiðufjárins felst í söfnunargildi þess, fer um meðferð þess eftir ákvæðum II. kafla.

17. gr. Bankareikningar.

Í þeim tilvikum þegar hald er lagt á fjármuni á bankareikningum, hvort sem er í íslenskum krónum eða erlendri mynt, skal fjárhæð og númer bankareiknings skráð í haldlagningarskýrslu.

Svo fljótt sem við verður komið og aldrei síðar en tveimur virkum dögum eftir að haldlagning hefur farið fram, skal stofna bankareikning, sérstakan reikning fyrir hvern haldlagðan bankareikning ef þeir eru fleiri en einn, þar sem leggja ber fjármunina inn. Með sömu skilyrðum og þar er lýst, má nýta heimild 2. mgr. 16. gr. til að víkja frá þeirri skyldu að stofna sérstakan reikning þegar fjárhæð haldlagðra fjármuna á bankareikningi er undir þeim mörkum sem greinir í ákvæðinu.

Gera skal grein fyrir innlögn fjármunanna, dagsetningu innlagnar og númeri bankareiknings í munaskrá. Að öðru leyti gilda ákvæði II. kafla um haldlagða muni eftir því sem við getur átt.

18. gr. Erlendur gjaldeyrir.

Þegar hald er lagt á erlendan gjaldeyri skal farið eftir ákvæðum 16. gr., eftir því sem við getur átt. Sé um að ræða gjaldeyri sem íslenskir bankar taka ekki við skal farið með hann eftir ákvæðum II. kafla eftir því sem við getur átt, en þó þannig að gjaldeyririnn skal geymdur í læstum öryggisskáp innan munageymslu.

19. gr. Erlendir bankareikningar.

Í þeim tilvikum þegar hald hefur verið lagt á fjármuni á erlendum bankareikningum skal, auk fjárhæðar og númers bankareiknings, skráð í haldlagningarskýrslu um hvaða gjaldmiðil er að ræða, nafn fjármálastofnunarinnar þar sem bankareikningarnir eru vistaðir og hvaða erlenda yfirvald eða systurstofnun veitti aðstoð við haldlagninguna.

Ef unnt er skulu hinir haldlögðu fjármunir millifærðir á bankareikning hér á landi sem stofnaður hefur verið í samræmi við 2. mgr. 17. gr. Ef slíkri tilhögun verður ekki við komið skal leitast við að stofna bankareikning í fjármálastofnun í því landi þar sem haldlagningin fór fram þar sem leggja ber fjármunina inn. Að öðru leyti gildir ákvæði 17. gr. og ákvæði II. kafla um haldlagningu fjármuna á erlendum bankareikningum, eftir því sem við getur átt.

20. gr. Rafræn gögn.

Þegar lagt er hald á rafræn gögn með afritun þeirra á vettvangi skal samsetning gagnanna og efni skráð í haldlagningarskýrslu með eins skýrum og skipulögðum hætti og frekast er kostur. Heimilt er að geyma gögnin í tölvukerfi þess stjórnvalds sem fer með forræði á máli, en þess skal gætt að aðgangur að þeim sé takmarkaður við þá sem nauðsynlega þurfa að hafa slíkan aðgang starfa sinna vegna. Þá skal taka að minnsta kosti eitt afrit af þeim gögnum sem um ræðir og vista á hörðum diski sem geymdur skal í munageymslu.

Þegar lagt er hald á rafræn gögn ásamt tölvubúnaði skal samsetning gagnanna og efni skráð í haldlagningarskýrslu með eins skýrum og skipulögðum hætti og frekast er kostur, ásamt nákvæmri lýsingu og tilgreiningu á þeim tölvubúnaði sem er haldlagður. Tölvubúnaðurinn skal færður í munageymslu. Taka skal að minnsta kosti eitt afrit af þeim gögnum sem um ræðir og vista á hörðum diski sem geymdur skal í öðru rými. Þá er heimilt að vista afrit af gögnunum í tölvukerfi þess stjórnvalds sem fer með forræði á máli, að því tilskildu að aðgangur að þeim sé takmarkaður með þeim hætti er greinir í 1. mgr.

Að öðru leyti gilda ákvæði II. kafla reglugerðarinnar, eftir því sem við getur átt.

21. gr. Rafrænt skráðar eignir.

Þegar lagt er hald á verðbréf sem skráð eru rafrænni eignarskráningu, s.s. hlutabréf og skuldabréf, skal í haldlagningarskýrslu getið um tegund eignar, rafræna auðkenningu hennar og fjárhæð, ef við á. Þá skal sömuleiðis tekið fram um nafn verðbréfamiðstöðvarinnar sem annast um eignarskráninguna.

Við haldlagningu skal skráð hjá viðkomandi verðbréfamiðstöð að réttindi yfir eignunum hafi verið haldlögð af því stjórnvaldi sem um ræðir. Sömuleiðis skal gerð grein fyrir þeirri skráningu í munaskrá.

Með aðrar eignir sem skráðar eru rafrænni eignarskráningu skal farið eftir þessu ákvæði, eftir því sem við getur átt.

Að öðru leyti gilda önnur ákvæði þessa kafla og II. kafla, eftir því sem við getur átt.

22. gr. Sýndarfé.

Við haldlagningu á sýndarfé skal í haldlagningarskýrslu getið um tegund þess, fjárhæð og þann miðil eða búnað sem það var haldlagt á, svo og hvaða erlenda yfirvald eða systurstofnun veitti aðstoð við haldlagninguna ef því er að skipta.

Ef hið haldlagða sýndarfé er vistað á þar til gerðum reikningi eða í stafrænu veski skal það stjórnvald sem um ræðir leitast við að millifæra það á reikning sem það stofnar sérstaklega í því skyni. Það sama á við þegar hið haldlagða sýndarfé er vistað í tiltekinni tölvu, minnislykli eða öðrum þar til gerðum búnaði. Sé það ekki unnt, t.d. sökum þess að umræddur búnaður er læstur, skal hann færður til munageymslu. Að öðru leyti skal farið eftir öðrum ákvæðum þessa kafla og II. kafla, eftir því sem við getur átt.

23. gr. Ólöglegir munir.

Þegar lagt er hald á ólöglega muni, muni sem hafa verið, eða ætlaðir voru, til nota við framningu brots, eða muni sem annars er refsivert að eiga skal meðhöndlun þeirra og geymslu hagað eftir reglum II. kafla, eftir því sem við getur átt.

Haldlögð vopn skulu geymd í læstum öryggisskáp innan munageymslu, eða öðru afmörkuðu og læstu rými. Skotvopn og skotfæri skulu geymd í aðskildum rýmum. Hvað varðar haldlagða skotelda og sprengiefni skal þess gætt að slíkir munir séu geymdir á þannig stöðum og með þeim hætti að ekki geti skapast hætta af. Heimilt er að leita til annarra stjórnvalda um geymslu á slíkum munum ef þörf krefur en getið skal um slíkar ráðstafanir í munaskrá.

Um förgun á munum sem falla undir þetta ákvæði fer eftir 33. gr.

24. gr. Fíkniefni.

Um skráningu, meðhöndlun og förgun haldlagðra fíkniefna og annarra ólöglegra efna og lyfja fer eftir innri reglum þeirra stjórnvalda sem fara með forræði á þessum málaflokki.

IV. KAFLI Kyrrsettar eignir.

25. gr. Ákvæði II. kafla.

Að breyttu breytanda gilda eftirfarandi ákvæði II. kafla um kyrrsettar eignir eftir því sem við á:

  1. 3. gr. um tilkynningu.
  2. 4. gr. um haldlagningarskýrslu.
  3. 6. gr. um munaskrá.
  4. 10. gr. um sölu haldlagðra muna.
  5. 11. gr. um tryggingu.
  6. 12. gr. um meðhöndlun andvirðis seldra muna.
  7. 13. gr. þegar haldlagning fellur niður.
  8. 14. gr. um kostnað af meðhöndlun muna.

26. gr. Heimild til sölu kyrrsettra eigna.

Með sömu skilyrðum og greinir í 9. gr., getur það stjórnvald sem ber ábyrgð á kyrrsetningu eigna, sem kyrrsettar hafa verið til tryggingar greiðslu sektar, sakarkostnaðar eða annarra krafna, óskað úrskurðar dómara um heimild til sölu eignanna.

27. gr. Ákvæði III. kafla.

Eftirfarandi ákvæði III. kafla gilda um kyrrsettar eignir eftir því sem við á:

  1. 17. gr. um bankareikninga.
  2. 19. gr. um erlenda bankareikninga.
  3. 21. gr. um rafrænt skráðar eignir.
  4. 22. gr. um sýndarfé.

28. gr. Tryggingarráðstafanir.

Þegar fallist hefur verið á kyrrsetningu eignar, sem áskilur að tilteknar tryggingarráðstafanir séu framkvæmdar til tryggingar réttindum yfir eigninni, s.s. þinglýsing þegar kemur að fasteignum og áritun þegar kemur að viðskiptabréfum, skulu þær tryggingarráðstafanir framkvæmdar um leið og kyrrsetningargerðin fer fram, eða að öðrum kosti eins fljótt og verða má.

Þrátt fyrir að um sé að ræða kyrrsetningu eigna, þar sem tryggingarráðstafanir eru ekki sérstaklega áskildar, en eignirnar eru þó háðar opinberri skráningu, skal tilkynna þeim opinbera aðila sem annast skráningu slíkra eigna um kyrrsetninguna.

29. gr. Tilkynning til þriðja manns.

Ef eign er í höndum grandlauss þriðja manns þegar kyrrsetning fer fram skal honum tilkynnt um kyrrsetninguna eins fljótt og unnt er.

V. KAFLI Upptækir munir og eignir.

30. gr. Skráning.

Getið skal um það í munaskrá hafi kyrrsettar eða haldlagðar eignir eða munir verið gerðir upptækir með dómi í samræmi við VII. kafla A almennra hegningarlaga.

31. gr. Sala.

Hafi eign eða munur ekki þegar verið seldur þegar fallist er á upptöku hans, og ekki ber að farga honum samkvæmt 33. gr., skal hann seldur samkvæmt þeim reglum er greinir í 10. gr. eftir því sem við á og að gættu ákvæði 3. mgr. 69. gr. d almennra hegningarlaga.

32. gr. Ráðstöfun andvirðis upptækra muna og eigna.

Andvirði upptækra muna og eigna skal renna í ríkissjóð nema annað sé tekið fram í lögum eða ákveðið hafi verið með dómi að andvirði þeirra skuli renna til greiðslu skaðabótakröfu aðila sem hefur beðið tjón við brot, sbr. 69. gr. g almennra hegningarlaga.

33. gr. Förgun.

Liggi fyrir að eignir eða munir, sem hafa verið gerðir upptækir eða þeim afsalað, hafi ekkert verðgildi, eða verðgildi þeirra er svo lítið að það mun fyrirsjáanlega ekki hrökkva til greiðslu kostnaðar af sölu þeirra, skal þeim komið til förgunar hjá aðila sem viðurkenndur er til slíkra starfa. Sama á við um eignir og muni sem hafa verið haldlagðir, kyrrsettir eða gerðir upptækir og kveðið er á um förgun þeirra í lögum.

Farga má eignum og munum, sem eins er ástatt fyrir og í 1. mgr. þótt ekki hafi þeir verið gerðir upptækir, hafi eigandi þeirra veitt samþykki sitt fyrir förgun þeirra. Skal slíks samþykkis aflað með sannanlegum hætti.

Förgun muna sem lagt hefur verið hald á í sönnunarskyni má eingöngu fara fram í samráði við þann ákæranda sem ábyrgð ber á máli.

Það stjórnvald sem fer með endanlegt forræði á máli ber ábyrgð á því að eignum og munum sé fargað í samræmi við þetta ákvæði. Gera skal grein fyrir förgun eigna og muna í munaskrá.

VI. KAFLI Annað.

34. gr. Gildistaka.

Reglugerð þess er sett með stoð í 88. gr. a laga um meðferð sakamála nr. 88/2008 og tekur þegar gildi.

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.