Fara beint í efnið

Prentað þann 19. apríl 2024

Breytingareglugerð

501/2019

Reglugerð um breytingu á reglugerð um útlendinga, nr. 540/2017.

1. gr.

Eftir 40. gr. reglugerðarinnar kemur ný grein, 40. gr. a, ásamt fyrirsögn, svohljóðandi:

Sérákvæði um VIS-upplýsingakerfið.

Stjórnvöldum er heimilt að leita í VIS-upplýsingakerfinu á grundvelli fingrafara sem tekin eru samkvæmt 1. mgr. 111. gr. laga um útlendinga. Sé leit á grundvelli fingrafara ómöguleg eða skili hún ekki árangri er stjórnvöldum heimilt að leita á grundvelli annarra fyrirliggjandi gagna og upplýsinga.

Útlendingastofnun tekur ákvörðun um hvort leit skuli fara fram og á hvaða grundvelli. Lögregla annast töku fingrafaranna og sendir gögn þar um til ríkislögreglustjóra ásamt nauðsynlegum upplýsingum, þar á meðal upplýsingum um ástæður þess að fingraförin voru tekin. Ríkislögreglustjóri annast samskipti við miðlægan gagnagrunn VIS-upplýsingakerfisins og upplýsir Útlendingastofnun um niðurstöðu leitar.

Lögregla skal, þegar fingraför eru tekin til leitar í VIS-upplýsingakerfinu, veita útlendingi upplýsingar um ástæður leitarinnar og að ekki sé um skráningu að ræða.

Ríkislögreglustjóri getur sett verklagsreglur um meðferð fingrafaraupplýsinga og samskipti lögreglu, Útlendingastofnunar og ríkislögreglustjóra vegna leitar í VIS-upplýsingakerfinu.

2. gr.

Reglugerð þessi, sem sett er samkvæmt heimild í 2. mgr. 111. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016, með síðari breytingum, öðlast þegar gildi.

Dómsmálaráðuneytinu, 8. maí 2019.

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir.

Haukur Guðmundsson.

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.