Dóms- og kirkjumálaráðuneyti

335/1993

Reglugerð um starfsháttu örorkunefndar.

1. gr.

Örorkunefnd gefur álit um miskastig eða örorkustig eftir 4. og 5. gr. skaðabótalaga. Í áliti nefndarinnar skal að jafnaði koma fram hvenær nefndin telur að tjónþoli hafi ekki getað vænst frekari bata af afleiðingum líkamstjóns, sbr. 2. og 3. gr. laganna.

2. gr.

Auk tjónþola og þess sem krafinn er um greiðslu vegna tjóns geta dómstólar leitað álits nefndarinnar. Vátryggingafélag sem selt hefur bótaskyldum aðila ábyrgðartryggingu getur einnig óskað eftir áliti nefndarinnar um tjón sem vátryggingin tekur til.

3. gr.

Beiðni um álit skal vera skrifleg og rituð á eyðublað sem nefndin lætur í té. Með beiðni skulu fylgja skýrslur um atvik að tjónsatburði og afleiðingar hans. Einnig skulu fylgja ítarleg vottorð lækna sem stundað hafa tjónþola vegna tjóns hans. Þá skulu og fylgja staðfest endurrit skattframtala tjónþola síðustu tvö almanaksár fyrir tjónsatburð og skattframtala eftir að tjón varð. Nefndin getur að auki lagt fyrir matsbeiðanda að leggja fram viðbótargögn eftir því sem ástæða þykir til.

4. gr.

Álit nefndarinnar samkvæmt 1. gr. skal vera skriflegt. Þar skal getið þeirra gagna sem liggja til grundvallar niðurstöðu. Niðurstöðu skal fylgja stuttur rökstuðningur.

5. gr.

Örorkunefnd skal halda málaskrá og gerðabók.

Nefndin skal árlega senda dómsmálaráðherra stutta skýrslu um starfsemi sína á liðnu almanaksári. Fyrsta skýrsla hennar skal þó taka til starfsemi hennar á árunum 1993 og 1994.

6. gr.

Gjald fyrir álit samkvæmt 1. gr. er 35 000 krónur og greiðist í ríkissjóð. Greiðslu skal fylgja beiðni um álit og er hún óendurkræf þótt nefndin kunni að vísa máli frá sér. Að öðru leyti greiðist kostnaður af starfi nefndarinnar úr ríkissjóði.

Fjárhæð gjalds samkvæmt 1. mgr. breytist árlega frá og með 1. janúar 1995 í hlutfalli við breytingar sem orðið hafa á lánskjaravísitölu næstliðið ár.

7. gr.

Dómsmálaráðherra ræður nefndinni starfslið og getur einnig falið sjálfstætt starfandi aðila að sjá um skrifstofuhald fyrir nefndina.

Nefndinni er heimilt án atbeina ráðuneytisins að kveðja lækna og aðra sérfróða menn til starfa í þágu nefndarinnar, hvort heldur er við meðferð einstaks máls eða um tiltekinn tíma. Örorkunefnd og starfsmönnum hennar ber að gæta fyllstu þagmælsku um öll einkamál

sem þeir komast að í starfi eða tengslum við það.

8. gr.

Reglugerð þessi sem sett er samkvæmt heimild í 10. gr. skaðabótalaga, nr. 50 19. maí 1993, öðlast þegar gildi.

Dóms- og kirkjumálaráðuneytið, 16. ágúst 1993.

Þorsteinn Pálsson.

Þorsteinn Geirsson.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica