Dómsmálaráðuneyti

1057/2025

Reglugerð um samvirkni upplýsingakerfa evrópusambandsins á sviði landamæra, vegabréfsáritana, lögreglu- og dómsmálasamstarfs, verndarmála og fólksflutninga.

1. gr. Gildistaka tiltekinna Schengen-gerða.

Eftirfarandi reglugerðir Evrópusambandsins um samvirkni upplýsingakerfa Evrópusambandsins skulu öðlast gildi hér á landi, að undanskildum IX. kafla, í samræmi við samning sem ráð Evrópusambandsins og lýðveldið Ísland og konungsríkið Noregur gera með sér um þátttöku hinna síðarnefndu í framkvæmd, beitingu og þróun Schengen-gerðanna, með þeirri aðlögun sem getið er um í reglugerð þessari:

  1. reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2019/817 frá 20. maí 2019 um að koma á umgjörð samvirkni milli upplýsingakerfa ESB á sviði landamæra og vegabréfsáritana og um breytingu á reglugerðum Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 767/2008, (ESB) 2016/399, (ESB) 2017/2226, (ESB) 2018/1240, (ESB) 2018/1726 og (ESB) 2018/1861 og ákvörðunum ráðsins 2004/512/EB og 2008/633/DIM, með síðari breytingum, sbr. fylgiskjal 1 sem birt er með reglugerð þessari.
  2. reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2019/818 frá 20. maí 2019 um að koma á umgjörð samvirkni milli upplýsingakerfa ESB á sviði lögreglu- og dómsmálasamstarfs, verndarmála og fólksflutninga og um breytingu á reglugerðum (ESB) 2018/1726, (ESB) 2018/1862 og (ESB) 2019/816, með síðari breytingum, sbr. fylgiskjal 2 sem birt er með reglugerð þessari.

2. gr. Gildissvið.

Með reglugerðinni er komið á umgjörð til að tryggja samvirkni milli upplýsingakerfa Evrópusambandsins á sviði landamæra, vegabréfsáritana, lögreglu- og dómsmálasamstarfs, verndarmála og fólksflutninga. Þau upplýsingakerfi sem Ísland á aðild að eru komu- og brottfararkerfið (EES), upplýsingakerfi um vegabréfsáritanir (VIS), evrópska ferðaupplýsinga- og ferðaheimildakerfið (ETIAS), evrópski fingrafaragrunnurinn (Eurodac) og Schengen-upplýsingakerfið (SIS).

3. gr. Aðlögun tilvísana til EES- og Schengen-gerða.

Þar sem í reglugerð (ESB) 2019/817 og reglugerð (ESB) 2019/818 er vísað til reglugerðar (ESB) 2016/399 um setningu Sambandsreglna um för fólks yfir landamæri (Schengen-landamærareglurnar) gilda lög um landamæri, nr. 136/2022 og reglugerð um för yfir landamæri, nr. 866/2017, sem innleiða Schengen-landamærareglurnar í íslenskan rétt.

Þar sem í reglugerð (ESB) 2019/817 og reglugerð (ESB) 2019/818 er vísað til reglugerða (ESB) 2018/1860, (ESB) 2018/1861 og (ESB) 2018/1862 um notkun Schengen-upplýsingakerfisins gilda lög um Schengen-upplýsingakerfið á Íslandi, nr. 51/2021, sem innleiðir reglugerðirnar í íslenskan rétt.

Þar sem í reglugerð (ESB) 2019/817 og reglugerð (ESB) 2019/818 er vísað til reglugerðar (ESB) 2016/679 um vernd einstaklinga í tengslum við vinnslu persónuupplýsinga og um frjálsa miðlun slíkra upplýsinga og tilskipunar ráðsins (ESB) 2016/680 um vernd einstaklinga að því er varðar vinnslu lögbærra yfirvalda á persónuupplýsingum í tengslum við að koma í veg fyrir, rannsaka, koma upp um eða saksækja fyrir refsiverð brot eða fullnægja refsiviðurlögum og frjálsa miðlun slíkra upplýsinga, gilda lög um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga, nr. 90/2018 og lög um vinnslu persónuupplýsinga í löggæslutilgangi, nr. 75/2019, sem innleiða gerðirnar í íslenskan rétt.

4. gr. Ábyrgð stjórnvalda.

Ríkislögreglustjóri, sem ábyrgðaraðili að rekstri íslenska hluta komu- og brottfararkerfis, ferðaupplýsinga- og ferðaheimildakerfis, Schengen-upplýsingakerfis og evrópsks fingrafaragrunns, skal halda aðgerðaskrá yfir leitarfyrirspurnir innlendra stjórnvalda í sameiginlega lífkennamátunarkerfinu sem gerðar eru í viðkomandi kerfum, sbr. 2. mgr. 16. gr. reglugerða (ESB) 2019/817 og (ESB) 2019/818. Útlendingastofnun sem ábyrgðaraðili að rekstri íslenska hluta upplýsingakerfis um vegabréfsáritanir (N-VIS) skal halda aðgerðaskrá yfir leitarfyrirspurnir innlendra stjórnvalda í sameiginlega lífkennamátunarkerfinu sem gerðar eru í N-VIS.

Stjórnvöld skv. 1. mgr. skulu bera ábyrgð á vinnslu lífkennasniðmáta í sameiginlega lífkennamátunarkerfinu, þegar slík sniðmát eru unnin úr lífkennagögnum sem skráð eru í upplýsingakerfi sem þau reka, sbr. 1. mgr. 40. gr. reglugerða (ESB) 2019/817 og (ESB) 2019/818.

Í samræmi við a-c-lið 1. mgr. 56. gr. reglugerða (ESB) 2019/817 og (ESB) 2019/818 ber ríkislögreglustjóri ábyrgð á:

  1. Tengingunni við fjarskiptavirki evrópsku leitargáttarinnar og sameiginlega auðkennasafnsins.
  2. Samþættingu landsbundnu kerfanna og grunnvirkjanna sem fyrir eru við evrópsku leitargáttina, sameiginlega auðkennasafnið og fjölauðkennaskynjarann.
  3. Skipulagi, stjórnun, starfrækslu og viðhaldi þeirra landsbundnu grunnvirkja sem fyrir eru og tengingu þeirra við samvirknieiningarnar.

Ríkislögreglustjóri og Útlendingastofnun bera ábyrgð á að uppfylla skilyrði g-i-liðar 1. mgr. 56. gr. reglugerða (ESB) 2019/817 og (ESB) 2019/818 gagnvart þeim upplýsingakerfum sem þau reka.

Viðeigandi stjórnvöld skulu tilkynna um öll öryggisatvik skv. 1. mgr. 43. gr. reglugerða (ESB) 2019/817 og (ESB) 2019/818 til ríkislögreglustjóra sem ber ábyrgð á að tilkynna þau án tafar til Persónuverndar, framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, Stofnunar Evrópusambandsins um rekstur stórra upplýsingatæknikerfa, og Evrópsku persónuverndarstofnunarinnar, sbr. 3. mgr. 43. gr.

5. gr. Lagastoð og gildistaka.

Reglugerð þessi er sett samkvæmt heimild í ákvæði k-liðar 1. mgr. 23. gr. laga nr. 136/2022 um landamæri og öðlast hún gildi 12. október 2025.

Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. skulu II., IV. og V. kafli reglugerða (ESB) 2019/817 og (ESB) 2019/818 ekki öðlast gildi fyrr en evrópska leitargáttin, sameiginlega auðkennasafnið og fjölauðkennaskynjarinn verða tekin í notkun skv. 79. gr. þeirra reglugerða.

Dómsmálaráðuneytinu, 25. september 2025.

Þorbjörg S. Gunnlaugsdóttir.

Haukur Guðmundsson.

B deild - Útgáfudagur: 10. október 2025


Þetta vefsvæði byggir á Eplica