Fara beint í efnið

Prentað þann 28. mars 2024

Stofnreglugerð

800/2022

Reglugerð um sölu áfengis á framleiðslustað.

1. gr. Almenn ákvæði.

Um smásölu áfengis á framleiðslustað fer eftir gildandi áfengislögum nr. 75/1998 og ákvæðum reglugerðar þessarar.

2. gr. Smásala áfengis á framleiðslustað.

Leyfishafa er einungis heimilt að selja áfengi sem framleitt er á viðkomandi framleiðslustað hafi hann fyrirliggjandi gilt framleiðsluleyfi útgefið af sýslumanni á grundvelli áfengislaga. Með framleiðslu áfengis er átt við hvers konar bruggun, gerjun eða eimingu áfengra drykkja sem og blöndun eða átöppun eins eða fleiri áfengra drykkja. Til framleiðslu í þessum skilningi telst þó ekki blöndun áfengra drykkja sem á sér stað samtímis og sem hluti af veitingu áfengis.

Afgreiðslutími áfengis í smásölu á framleiðslustað skal aldrei vera lengri en frá klukkan 8.00 til klukkan 23.00, og skal umsögn sveitarfélaga, sbr. 3. tölul. 1. mgr. 4. gr., taka mið af því.

Sala áfengis í smásölu á framleiðslustað er óheimil á helgidögum þjóðkirkjunnar, sumardaginn fyrsta, 1. maí, 17. júní og fyrsta mánudag í ágúst.

3. gr. Umsókn um leyfi til smásölu áfengis á framleiðslustað.

Sýslumaður, sbr. 7. gr., veitir leyfi til smásölu áfengis á framleiðslustað.

Umsókn um leyfi til sölu áfengis á framleiðslustað, sem og umsókn um endurnýjun þess, skal send sýslumanni ásamt öllum nauðsynlegum gögnum sem hann fer fram á. Leyfi til smásölu áfengis á framleiðslustað gerir umsækjanda kleift að selja í smásölu áfengi, sem umsækjandi framleiðir á grundvelli framleiðsluleyfis, á framleiðslustað.

4. gr. Leyfi til smásölu áfengis á framleiðslustað.

Gildistími fyrsta leyfis til sölu áfengis á framleiðslustað er eitt ár. Ef leyfi er endurnýjað áður en árið er liðið, gefur sýslumaður út nýtt leyfi með ótímabundinn gildistíma ef skilyrðum þessarar reglugerðar og áfengislaga er fullnægt.

Leyfi til smásölu áfengis á framleiðslustað skal einungis veitt þeim sem:

  1. stundar í atvinnuskyni framleiðslu áfengra drykkja enda hafi hann til þess gilt framleiðsluleyfi, sbr. II. kafla áfengislaga nr. 75/1998,
  2. framleiðir eigi meira en 500.000 lítra af áfengi á almanaksári,
  3. hafa fengið jákvæða og, eftir atvikum, skilyrta umsögn sveitarstjórnar.

Leyfi til smásölu áfengis á framleiðslustað eru tvenns konar og ræðst af því hvort umsækjandi framleiðir minna eða meira en 100.000 lítra af áfengi á almanaksári.

  1. Framleiði umsækjandi minna en 100.000 lítra er honum heimilt að selja áfengi sem er að rúmmáli meira en 12% af hreinum vínanda, uppfylli hann skilyrði um veitingu slíks leyfis.
  2. Framleiði umsækjandi meira en 100.000 lítra er honum heimilt að selja áfengi sem er að rúmmáli minna en 12% af hreinum vínanda, uppfylli hann skilyrði um veitingu slíks leyfis.

Leyfishafi skal tilkynna sýslumanni þegar í stað um fyrirhugaðar breytingar sem varða hina leyfisskyldu starfsemi svo og ef leyfishafi hyggst hætta eða hefur hætt starfsemi.

5. gr. Umsögn sveitarstjórnar.

Sýslumaður skal leita umsagnar sveitarstjórnar þar sem starfsemi er fyrirhuguð. Óheimilt er að gefa út leyfi ef sveitarstjórn leggst gegn útgáfu þess með neikvæðri umsögn. Leyfið skal jafnframt bundið þeim skilyrðum sem fram kunna að koma í umsögn sveitarstjórnar um þau atriði sem henni er ætlað að leggja mat á. Umsögn sveitarstjórnar skal vera skýr og rökstudd og í henni koma fram hvort eftirfarandi skilyrði séu uppfyllt:

  1. Starfsemi sé í samræmi við byggingarleyfi og skipulagsskilmála.
  2. Lokaúttekt hafi farið fram í húsnæðinu.
  3. Afgreiðslutími og staðsetning staðar sem umsókn lýtur að sé innan þeirra marka sem reglur og skipulag sveitarfélagsins segja til um.
  4. Starfsemi sé í samræmi við ákvæði laga um hollustuhætti og mengunarvarnir og laga um matvæli og, þegar við á, mat heilbrigðisnefndar á grenndaráhrifum starfseminnar þ.m.t. hljóðvist.
  5. Kröfum um brunavarnir, miðað við þá starfsemi sem fyrirhuguð er, sé fullnægt samkvæmt mati slökkviliðs.

Sveitarstjórn er heimilt að binda veitingu leyfis til smásölu áfengis á framleiðslustað skilyrðum um staðsetningu og afgreiðslutíma.

6. gr. Leyfisgjald.

Um gjald fyrir leyfi til smásölu áfengis á framleiðslustað fer eftir ákvæðum áfengislaga og lögum um aukatekjur ríkissjóðs, sbr. 32. tölul. 11. gr. laganna.

7. gr. Eftirlit.

Leyfishafa ber að hafa gildandi leyfi til smásölu áfengis á framleiðslustað sýnilegt þeim stjórnvöldum sem gegna eftirlitsskyldum með starfseminni.

Leyfishafa ber að veita þeim stjórnvöldum sem hafa eftirlit með starfseminni aðgang að öllum húsakynnum, sem nýtt eru til framleiðslu og smásölu áfengis á framleiðslustað og birgðahalds, svo og bókhaldsgögnum. Leiði athugun eftirlitsskyldra stjórnvalda til þeirrar niðurstöðu að leyfishafi fullnægi ekki lengur skilyrðum fyrir smásölu áfengis á framleiðslustað ber þeim að tilkynna það til sýslumanns.

Sýslumaður skal afturkalla leyfi sem gefið er út samkvæmt reglugerð þessari ef leyfishafi fullnægir ekki lengur skilyrðum reglugerðarinnar og áfengislaga til að fá útgefið slíkt leyfi.

Verði leyfishafi uppvís að vanrækslu á skyldum sem á honum hvíla eða hann uppfyllir ekki skilyrði sem um reksturinn gilda skal veita honum skriflega áminningu. Áminningu veitir sýslumaður og skal hann halda skrár yfir áminningar. Áminning hefur gildi í tvö ár frá því hún hefur verið birt leyfishafa.

Verði leyfishafi uppvís að frekari vanrækslu meðan áminning er enn í gildi skal það varða sviptingu leyfis um ákveðinn tíma. Ef vanræksla er stórfelld eða ítrekuð skal lengd sviptingar ákveðin með hliðsjón af því.

8. gr. Leyfisveitandi.

Sýslumaðurinn á Suðurlandi skal frá og með 1. júlí 2022 annast þau verkefni sem tengjast leyfum til smásölu áfengis á framleiðslustað.

9. gr. Gildistaka o.fl.

Reglugerð þessi sem sett er samkvæmt áfengislögum nr. 75/1998, sbr. 3. gr. laga um breytingu á áfengislögum, nr. 75/1998 (sala á framleiðslustað), nr. 35/2022, öðlast þegar gildi.

Dómsmálaráðuneytinu, 30. júní 2022.

Jón Gunnarsson.

Haukur Guðmundsson.

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.