Fara beint í efnið

Prentað þann 29. mars 2024

Stofnreglugerð

380/2019

Reglugerð um lögregluskilríki og notkun þeirra.

I. KAFLI Handhafar lögregluskilríkja, útgáfa þeirra og efni.

1. gr.

Lögregluskilríki eru skilríki sem gefin eru út af ríkislögreglustjóra til handhafa lögregluvalds sbr. 1. mgr. 9. gr. lögreglulaga nr. 90/1996.

Skilríkin eru eign ríkislögreglustjóra.

2. gr.

Upplýsingar á fram- og bakhlið lögregluskilríkja skulu vera læsilegar með berum augum þar sem hæð hvers stafs er a.m.k. 5 punktar.

Á framhlið skal vera:

  1. Raðnúmer skilríkis.
  2. Fullt nafn handhafa skírteinis.
  3. Lögreglunúmer ef um er að ræða lögreglumann, annars auðkennisnúmer.
  4. Brjóstmynd (35 x 45 mm) af skírteinishafa í grátónum á ljósum bakgrunni. Lögreglumenn skulu vera í einkennisskyrtu með hálsbindi án einkennishúfu, en aðrir starfsmenn í hvítri skyrtu með eða án hálsbindis.
  5. Við efri brún skulu standa orðin "POLICE, POLIZEI, POLITI, POLIZA OG POLICJA".
  6. Efst til hægri skal vera lögreglustjarnan,
  7. Við neðri brún skal standa orðið LÖGREGLA með áberandi letri.
  8. Útgáfudagur skilríkis.

Á bakhlið skal vera:

  1. Við efri brún skal standa orðið LÖGREGLA með áberandi letri og undir því orðin POLICE, POLIZEI, POLITI, POLIZIA OG POLICJA með smærra letri.
  2. Textinn "Handhafi þessa korts er starfsmaður íslensku lögreglunnar og hefur lögregluvald. Kortið er eign lögreglunnar. Týnist það er þeim sem finnur kortið skylt að skila því á næstu lögreglustöð. Misnotkun þessara skilríkja varðar við 117. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940". Tilvitnaði textinn á að vera með feitletruðum stöfum og undir honum á að vera ensk þýðing textans án feitletrunar.
  3. Við neðri brún skilríkisins er skjaldarmerki Íslands og heiti embættis ríkislögreglustjóra á íslensku og ensku.

3. gr.

Skilríkið skal notað í skilríkjaveski sem hefur að geyma málmsteypu af lögreglustjörnu sbr. reglugerð nr. 1151/2011.

Ríkislögreglustjóri ákveður hvernig afgreiðslu skilríkja er háttað.

II. KAFLI Notkun lögregluskilríkja.

4. gr.

Handhafi lögregluskilríkja skal jafnan bera skilríkin á sér við skyldustörf. Honum er óheimilt að nota skilríkin í öðrum tilgangi en þeim sem fellur undir skyldustörf hans.

5. gr.

Óeinkennisklæddur lögreglumaður við störf skal að jafnaði gera viðkomandi borgara það ljóst, áður en hann ber upp erindi sitt að hann sé lögreglumaður. Þetta getur hann gert með því að framvísa lögregluskilríkjunum.

Handhafar lögregluskilríkja skulu verða við ósk um að sýna lögregluskilríki þegar þeir eru við störf. Þó er heimilt að víkja frá þessari meginreglu við handtöku á manni, ef ólæti standa yfir, eða beiðnin kemur frá einstaklingi sem bersýnilega er undir áhrifum áfengis eða annarra vímuefna eða ef einstaklingurinn er ögrandi eða í miklu uppnámi.

Þegar starfsmaður með lögregluvald er við eftirlit á samkomu, og þess er óskað af samkomuhaldara að hann sýni skilríki sín, skal hann verða við því og gera grein fyrir af hvaða ástæðum hann er staddur þar. Telji hann sig ekki geta skýrt ástæðu fyrir veru sinni skal hann vísa samkomuhaldara á að hafa samband við yfirmann sinn.

III. KAFLI Endurútgáfa glataðra og stolinna skilríkja o.fl.

6. gr.

Nú glatast lögregluskilríki eða þeim er stolið og skal þá handahafi þeirra tafarlaust tilkynna það ríkislögreglustjóra þar sem skráð verður að skilríkin séu glötuð.

Finnist glötuð skilríki skal afhenda þau aftur handhafa þeirra hafi ný skilríki ekki verið gefin út.

IV. KAFLI Skil á lögregluskilríkjum vegna starfsloka, fría o.fl.

7. gr.

Þegar handhafi lögregluskilríkja hættir störfum skal hann skila lögregluskilríkjum sínum til viðkomandi embættis sem framsendir þau til ríkislögreglustjóra.

Ef um tímabundna brottvísun er að ræða skal lögregluskilríkjunum skilað. Þegar viðkomandi hefur störf á ný skal afhenda honum sömu skilríki aftur.

Fari handhafi lögregluskilríkja í launalaust leyfi skal hann skila inn lögregluskilríkjum sínum. Liggi það fyrir að starfsmaðurinn fari til lögreglustarfa við annað lögregluembætti skal hann halda lögregluskilríkjum sínum.

8. gr.

Ríkislögreglustjóri skal halda skrá yfir útgefin lögregluskilríki þar sem fram kemur raðnúmer skilríkis, nafn skilríkjahafa, lögreglunúmer, kennitala, útgáfudagur, hvenær skilríki voru afhent og hvenær þeim er skilað. Í skránni skulu einnig vera upplýsingar um glötuð skilríki. Endurheimt skilríki skal varðveita hjá ríkislögreglustjóra.

V. KAFLI Endurnýjun lögregluskilríkja og gildistaka.

9. gr.

Gildistími lögregluskilríkja er ótímabundinn, en endurnýja skal skilríki ef upplýsingar á þeim eru orðnar ógreinilegar eða útlit viðkomandi hefur breyst það mikið að hann þekkist ekki af myndinni að mati viðkomandi lögreglustjóra.

Lögregluskilríki gefin út af ríkislögreglustjóra á grundvelli reglugerðar nr. 1052/2006 halda gildi sínu og eiga reglur þessar við um endurútgáfu eða nýútgáfu lögregluskilríkja.

10. gr.

Reglugerð þessi er sett samkvæmt heimild í 3. mgr. 13. gr. lögreglulaga, nr. 90/1996, með síðari breytingum, og öðlast þegar gildi. Við gildistöku þessarar reglugerðar fellur úr gildi reglugerð um lögregluskilríki og notkun þeirra nr. 1052/2006.

Dómsmálaráðuneytinu, 4. apríl 2019.

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir.

Haukur Guðmundsson.

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.