Landbúnaðarráðuneyti

567/2006

Reglugerð um gripagreiðslur á lögbýlum. - Brottfallin

1. gr.

Tilgangur.

Tilgangur reglugerðar þessarar er að mæla fyrir um gripagreiðslur til eigenda kúa í samræmi við 6. grein samnings landbúnaðarráðherra og fjármálaráðherra, fyrir hönd ríkisstjórnar Íslands, og Bændasamtaka Íslands um starfsskilyrði mjólkurframleiðslu frá 10. maí 2004, með síðari breytingum. Samningurinn hefur lagastoð í 30. gr. laga nr. 99/1993 um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum.

2. gr.

Orðskýringar.

Í reglugerð þessari hafa eftirtalin orð þá merkingu sem hér segir:

  1. MARK. Miðlægur gagnagrunnur Landbúnaðarstofnunar og Bændasamtaka Íslands þar sem varðveittar eru upplýsingar um einstaklingsmerkingar búfjár samkvæmt 13. gr. reglugerðar um merkingu búfjár, nr. 289/2005, með síðari breytingum.
  2. Árskýr. Meðalfjöldi einstaklingsmerktra kúa á lögbýli yfir 12 mánaða tímabil. Kýrnar verða að hafa borið að minnsta kosti einum kálfi skv. upplýsingum úr MARK.
  3. Gripagreiðsla. Fjárhagslegur stuðningur ríkisins til þeirra eigenda einstaklingsmerktra kúa á lögbýlum sem uppfylla skilyrði þessarar reglugerðar.

3. gr.

Yfirstjórn.

Landbúnaðarráðherra fer með yfirstjórn þeirra mála sem reglugerð þessi tekur til. Heimilt er að skjóta ákvörðun um rétt til gripagreiðslna til úrskurðar ráðherra.

Landbúnaðarstofnun tekur ákvörðun um hvaða framleiðendur uppfylla skilyrði reglugerðar þessarar um rétt til gripagreiðslna og hver skuli vera fjárhæð greiðslna til hvers framleiðanda. Landbúnaðarstofnun er heimilt að fela Bændasamtökum Íslands, eða öðrum aðilum, framkvæmdaþætti við undirbúning ákvarðana um rétt til gripagreiðslu.

4. gr.

Framlög til gripagreiðslna.

Á hverju eftirtalinna verðlagsára, frá 2006 til 2012, skal greiða rétthöfum gripagreiðslna samkvæmt reglugerð þessari, eftirfarandi framlög:

 

Verðlagsár

Milljónir króna

 

2006 - 2007

396

 

2007 - 2008

392

 

2008 - 2009

388

 

2009 - 2010

384

 

2010 - 2011

380

 

2011 - 2012

376

Framlögin eru miðuð við verðlag 1. janúar 2004 er var 230,0 stig og taka mánaðarlegum breytingum þaðan í frá skv. vísitölu neysluverðs.

5. gr.

Fjárhæð til einstakra framleiðenda.

Hlutdeild hvers framleiðanda í heildarframlagi til gripagreiðslna á hverju verðlagsári fer eftir fjölda árskúa hans. Við ákvörðun á fjölda árskúa skal fyrsta viðmiðunartímabilið vera 1. september 2005 til 31. ágúst 2006. Síðan skal fjöldi árskúa uppfærður á fjögurra mánaða fresti og breytingar á gripagreiðslum taka gildi tveimur mánuðum eftir þá uppfærslu.

Gripagreiðslur skerðast ef fjöldi árskúa á lögbýli er yfir þeim mörkum sem að neðan greinir, samkvæmt eftirfarandi töflu:

 

Árskýr

Hlutfall af óskertri greiðslu

 

1 - 40

100%

 

41 - 60

75%

 

61 - 80

50%

 

81 - 100

25%

 

101 og fleiri

0%

Ef fjöldi árskúa á lögbýli fer yfir 170 skerðast heildar gripagreiðslur um 25% fyrir hverjar 10 árskýr sem umfram eru, þannig að bú með fleiri en 200 árskýr nýtur ekki gripagreiðslna, eins og sjá má á eftirfarandi töflu:

 

Árskýr

Skerðing á heildar gripagreiðslum

 

>170 - 180

25%

 

>180 - 190

50%

 

>190 - 200

75%

 

fleiri en 200

100%

Ef heildarfjöldi árskúa á landinu er minni en sú viðmiðun sem stuðst var við í samningi skv. 1. gr., þ.e. 27.400 kýr, hækkar greiðsla ríkissjóðs á hverja árskú til samræmis.

Við ákvörðun á fjölda árskúa hvers framleiðanda er Landbúnaðarstofnun heimilt að bera saman upplýsingar sem skráðar hafa verið í MARK, við upplýsingar um fjölda búfjár sem búfjáreftirlitsmenn afla skv. lögum um búfjárhald nr. 103/2002, og reglugerð nr. 743/2002 um búfjáreftirlit. Búfjáreftirlitsmenn skulu í vorferðum sínum, sbr. 5. gr. reglugerðar um búfjáreftirlit, sannreyna að upplýsingar um fjölda búfjár í MARK séu réttar.

Ef árskýr hjá framleiðanda skv. MARK eru fleiri en ráða má af gögnum búfjáreftirlitsmanna, eða ástæða er til þess af öðrum sökum að véfengja upplýsingar í MARK, t.d. vegna þess að hjarðbókarskýrslur eru ekki í samræmi við reglugerð um merkingar búfjár nr. 289/2005, með síðari breytingum, þá skal Landbúnaðarstofnun taka niðurstöðu um fjölda árskúa framleiðanda til endurskoðunar og er m.a. heimilt að styðjast við tölur úr búfjáreftirliti við áætlun um fjölda árskúa, og að láta fara fram talningu á gripum í eigu framleiðanda. Við þessa endurskoðun skal framleiðandi njóta stöðu aðila máls í skilningi stjórnsýslulaga og gefinn 14 daga frestur til andmæla og til þess að leiðrétta skráningu í hjarðbók enda liggi ekki fyrir í gögnum málsins afstaða hans og rök fyrir henni eða slíkt sé augljóslega óþarft. Heimilt er að fresta gripagreiðslum til framleiðanda í allt að þrjá mánuði meðan á rannsókn málsins stendur.

6. gr.

Handhafar gripagreiðslna.

Á búum sem njóta beingreiðslna, sbr. 55. gr. laga nr. 99/1993 um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum, með síðari breytingum, skal handhafi gripagreiðslna vera sá sami og er handhafi beingreiðslna samkvæmt skrá Bændasamtaka Íslands skv. 1. mgr. 53. gr. sömu laga.

Á búum sem ekki njóta beingreiðslna þarf að sækja um gripagreiðslur til þess að öðlast rétt til þeirra, og skal fyrst greiða gripagreiðslur fyrsta dag næsta mánaðar, eftir að mánuður er liðinn frá því að umsókn barst Landbúnaðarstofnun. Ekki þarf að endurnýja umsókn lögbýlis sem fengið hefur skráningu ef fylgt er skilyrðum reglugerðar þessarar að öðru leyti. Á slíkum búum skal Landbúnaðarstofnun skrá handhafa gripagreiðslna. Handhafi greiðslnanna skal vera sjálfstæður rekstraraðili á lögbýli og stunda þar virðisaukaskattsskyldan búrekstur, skv. lögum um virðisaukaskatt nr. 50/1988. Þegar um fleiri sjálfstæða rekstraraðila er að ræða á sama lögbýli skal tilkynna Landbúnaðarstofnun um það hvernig skuli skipta gripagreiðslunum.

Gripagreiðsla er greidd í upphafi hvers mánaðar. Handhafar gripagreiðslna skulu tilgreina sérstakan reikning í bönkum eða öðrum viðskiptastofnunum, sem greiðslur skulu lagðar inn á. Þegar handhafi gripagreiðslna er einnig handhafi beingreiðslna er heimilt að leggja greiðslurnar inn á þann reikning sem beingreiðslur eru lagðar inn á.

Ef gripagreiðsla hefur verið ofgreidd ber handhafa greiðslna að endurgreiða ríkinu hið ofgreidda fé.

7. gr.

Viðurlög.

Brot á reglugerð þessari varða viðurlögum skv. 82. gr. laga nr. 99/1993 um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum, með síðari breytingum. Með mál út af brotum skal farið að hætti opinberra mála.

8. gr.

Gildistaka.

Reglugerð þessi er sett samkvæmt heimild í 55. gr. laga nr. 99/1993 um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum, með síðari breytingum, og 17. gr. laga nr. 103/2002 um búfjárhald o.fl. og öðlast þegar gildi.

Komi til endurskoðunar samnings þess sem getið er í 1. gr. um starfsskilyrði mjólkurframleiðslu, breytast réttindi og skyldur aðila skv. reglugerð þessari til samræmis við þá endurskoðun.

Ákvæði til bráðabirgða.

Þrátt fyrir bráðabirgðaákvæði I við reglugerð nr. 289/2005 um merkingar búfjár skal skrá í MARK, kýr sem fæddar eru fyrir 1. september 2003 til þess að réttur til gripagreiðslna vegna þeirra skapist.

Í fyrsta sinn skal greiða gripagreiðslur 1. nóvember 2006 vegna mánaðanna september, október og nóvember, en mánaðarlega eftir það, sbr. 3. mgr. 6. gr. reglugerðarinnar.

Landbúnaðarráðuneytinu, 4. júlí 2006.

F. h. r.

Guðmundur B. Helgason.

Ólafur Friðriksson.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica