Landbúnaðarráðuneyti

289/2005

Reglugerð um merkingar búfjár. - Brottfallin

1. gr.
Markmið.

Markmið reglugerðar þessarar er að tryggja rekjanleika búfjárafurða frá upprunahjörð og/eða fæðingu viðkomandi dýrs til sölu afurða og skapa með því grundvöll að markvissu matvæla- og búfjáreftirliti, eftirliti með flutningum dýra, skráningu búfjársjúkdóma og meðhöndlun þeirra.


2. gr.
Orðskýringar.

Í reglugerð þessari hafa eftirtalin orð merkingu sem hér segir:

1. Búfé: Hross, nautgripir, svín, sauðfé, geitfé og alifuglar.
2. Búsnúmer: Landnúmer skv. fasteignamati auk númers rekstrareiningar innan býlis.
3. Bæjarnúmer: Númer býlis í sauðfjárrækt skv. landsmarkaskrá.
4. Eftirlitsaðili: Yfirdýralæknir, héraðsdýralæknir eða annar aðili sem hefur með höndum eftirlit með framkvæmd ákvæða reglugerðar þessarar.
5. Einstaklingsnúmer: Einkvæmt númer/bókstafir fyrir hvern ásetningsgrip á landsvísu.
6. Eldisnúmer: Fjögurra stafa númer grísa samsett af tveggja stafa framleiðandanúmeri og tveggja stafa vikunúmeri.
7. Framleiðandanúmer: Tveggja stafa númer svínahjarðar ákveðið af landbúnaðarráðuneytinu.
8. Fæðingarnúmer: Einstaklingsnúmer hrossa á heimsvísu. Í WorldFeng einnig nefnt FEIF-ID númer.
9. Gripanúmer: Númer grips innan hjarðar sem jafnframt er síðasti hluti einstaklingsnúmers.
10. Grís: Spenagrís, fráfærugrís eða eldisgrís.
11. Heilsukort: Safn upplýsinga með gögnum um greiningu og meðhöndlun sjúkdóma og fyrirbyggjandi aðgerðir.
12. Hjarðbók: Gagnagrunnur eða skýrsluhaldsform sem umráðamanni búfjár, að alifuglum undanskildum, er skylt að skrá í tilgreindar upplýsingar um dýr í hans umsjón.
13. Hjörð: Hópur tiltekinnar búfjártegundar innan sama býlis.
14. Hópnúmer: Minnst tíu stafa númer hóps í alifuglabúi.
15. Lamba/kiðamerki: Merki sem sett eru í lömb og kið að vori
16. Lambanúmer: Einkvæmt númer lamba innan hvers býlis innan fæðingarárs.
17. Landsmarkaskrá: Skrá um öll eyrnamörk, brennimörk og frostmörk ásamt öllum bæjarnúmerum í landinu sem Bændasamtök Íslands gefa út skv. reglugerð nr. 200/1998 um búfjármörk, markaskrár og takmörkun á sammerkingum búfjár, með síðari breytingum.
18. Líf-/ásetningsdýr: Dýr sem sett eru á til undaneldis og/eða nytja.
19. Merki: Plötumerki, frostmerki, örmerki eða önnur rafræn merki, húðflúr eða önnur skráning sem yfirdýralæknir viðurkennir fyrir einstakar búfjártegundir.
20. Skráningaraðili: Aðili sem annast skráningu upplýsinga í umboði landbúnaðarráðuneytisins, samkvæmt ákvæðum reglugerðar þessarar.
21. Slátrun: Varðar bæði slátrun í sláturhúsi og heimaslátrun til eigin nota á lögbýli.
22. Stofn: Sérstök ræktunarlína innan sama búfjárkyns.
23. Svín: Ásett lífdýr, gyltur og geltir.
24. Tölvuskráningarkerfi: Skráningarkerfi sem yfirdýralæknir hefur eftirlit með.
25. Umráðamaður búfjár: Eigandi búfjár eða aðili sem er ábyrgur fyrir fóðrun, aðbúnaði og vörslu þess í samræmi við lög nr. 103/2002 um búfjárhald o.fl.
26. Valnúmer: Númer sem umráðamaður nautgripa velur.
27. Vikunúmer: Tveggja stafa númer vikunnar sem spenagrís er fæddur í.
28. WorldFengur: Upprunaættbók íslenska hestsins.


3. gr.
Tilkynningarskylda.

Umráðamaður búfjár skal senda upplýsingar til skráningaraðila í samræmi við ákvæði viðauka I við reglugerð þessa.

Allir umráðamenn búfjár skulu vera skráðir í tölvuskráningarkerfi fyrir merkingar búfjár og skal skráningaraðili hafa lokið skráningu upplýsinga innan 5 virkra daga frá móttöku þeirra.


4. gr.
Merkingarskylda.

Umráðamaður búfjár ber ábyrgð á að allt búfé sem alið er á hans vegum sé merkt innan tilskilins tíma frá fæðingu með viðurkenndu merki, sem fylgja á dýrinu alla ævi þess, sbr. ákvæðin fyrir einstakar búfjártegundir.

Óheimilt er að breyta eða fjarlægja einstaklingsnúmer/merki dýrs eða eldishóps, nema það sé orðið ólæsilegt eða skemmt.

Missi dýr merki, glatist það, eða það verði ólæsilegt, skal umráðamaður endurmerkja dýrið með sams konar merki og sama númeri innan tímafrests sem yfirdýralæknir ákveður.

Nýja merkið skal vera forprentað með upplýsingum skv. 6. gr., eftir því sem við á og með bókstafnum N í sömu röð og bókstafirnir YD og IS, sem sýnir að um nýtt merki sé að ræða. Ef dýr ferst eða týnist skal það tilkynnt skráningaraðila.

Þangað til að hægt er að útvega nýtt merki, má nota forprentað bráðabirgðamerki. Bráðabirgðamerkið skal vera forprentað með þeim upplýsingum sem fram koma í a – c lið 6. gr., en heimilt er að skrá einstaklingsnúmer dýrsins með varanlegum merkilit.

Við sölu sauðfjár og geitfjár milli hjarða skal seljandi tilkynna skráningaraðila um söluna. Kaupandi endurmerkir dýrin og tilkynnir skráningaraðila einstaklingsnúmer þeirra og bæjarnúmer.

Óheimilt er að flytja dýr til slátrunar og milli hjarða sem ekki uppfylla ákvæði reglugerðar þessarar.


5. gr.
Kröfur um gerð plötumerkja fyrir ásetningsdýr.

Plötumerki skulu þannig gerð að ekki sé unnt að nota þau aftur eftir að þau hafa verið fjarlægð. Upplýsingar á merkjum skal prenta fyrirfram með skýru letri sem ekki er hægt að breyta. Plötumerki til notkunar samkvæmt reglugerð þessari skulu viðurkennd af yfirdýralækni.


6. gr.
Kröfur um upplýsingar á plötumerkjum ásetningsdýra.

Eftirfarandi upplýsingar skal forprenta á merki fyrir nautgripi og svín:

a. YD-einkennisstafi embættis yfirdýralæknis.
b. IS-einkennisstafi Íslands.
c. Búsnúmer.
d. Gripanúmer. Fyrir framan gripanúmer svína má þó prenta tveggja stafa framleiðandanúmer.
Heimilt er að litaskipta merkjum svína eftir stofni skv. reglum sem landbúnaðarráðuneytið setur.

Eftirfarandi upplýsingar skal forprenta á merki fyrir sauðfé:

a. YD-einkennisstafi embættis yfirdýralæknis.
b. IS-einkennisstafi Íslands.
c. Bæjarnúmer skv. landsmarkaskrá.
d. Fimm stafa gripanúmer, þar sem fyrstu tveir stafir númersins eru síðustu tveir tölustafir fæðingarárs, en síðari þrír tölustafirnir eru númer grips innan hjarðar.

Litir forprentaðra plötumerkja skulu vera skv. viðauka með reglugerð nr. 200/1998 um búfjármörk, markaskrár og takmörkun á sammerkingum búfjár.

Ekki er krafist einstaklingsmerkja á grísi og alifugla.

Heimilt er að nota eigin valnúmerakerfi fyrir nautgripi til viðbótar forprentuðum upplýsingum.

Óheimilt er að nota númer sem þegar eru í notkun innan hjarðarinnar. Líða skulu 10 ár milli notkunar á sama einstaklingsnúmeri innan hjarðar.


7. gr.
Hjarðbók.

Umráðamaður búfjár er ábyrgur fyrir skráningu upplýsinga um öll dýr hjarðar sinnar í sérstaka hjarðbók, annaðhvort í gagnagrunn eða á skýrsluform, sem skráningaraðili lætur í té og viðurkennt er af yfirdýralækni.

Eftirfarandi upplýsingar um sauðfé, geitfé og nautgripi skal skrá í hjarðbók:

a. Einstaklingsnúmer dýrs.
b. Fæðingarmánuð og ár.
c. Valnúmer, ef um slíkt er að ræða.
d. Kyn dýrs.
e. Stofn dýrsins.
f. Einstaklingsnúmer móður.
g. Dagsetningu slátrunar og ef dýrið ferst eða glatast.
h. Alla flutninga lífdýra til og frá hjörð, bæði varanlega og tímabundna, þar með talið flutninga og rekstur á afrétt og flutninga á búfjársýningar.

Auk þess;

i) nafn, heimilisfang og bús- eða bæjarnúmer sendanda og móttakanda;
ii) fjölda dýra sem eru flutt/seld;
iii) einstaklingsnúmer dýra sem eru flutt/seld.
i. Dagsetning flutnings.
j. Móttekin plötumerki.

Eftirfarandi upplýsingar um svín skal skrá í hjarðbók:

a. Einstaklingsnúmer.
b. Fæðingarmánuð og ár.
c. Kyn dýrs.
d. Stofn dýrs.
e. Einstaklingsnúmer móður.
f. Dagsetningu dauða eða slátrunar.
g. Alla svína og grísaflutninga til og frá hjörð, bæði varanlega og tímabundna.

Auk þess;

i) nafn, heimilisfang og framleiðandanúmer sendanda og móttakanda;
ii) fjölda dýra sem flutt/seld eru;
iii) dagsetningu flutnings;
iv) nafn og kennitölu flutningsaðila.

Þegar nýtt svín kemur inn í hjörð skal skrá einstaklingsnúmer þess. Þegar nýir grísir koma inn í hjörð skal skrá eldisnúmer þeirra.

Eftirfarandi upplýsingar um hross skal skrá í hjarðbók hrossa (WorldFeng):

a. Fæðingarnúmer.
b. Fæðingardag/-mánuð/ár.
c. Fæðingarnúmer móður.
d. Dagsetningu dauða eða slátrunar.
e. Dagsetningu útflutnings.


8. gr.
Heilsukort.

Umráðamaður búfjár er ábyrgur fyrir að sjúkdómar í búfé hans og meðhöndlun þeirra sé skráð, sem og fyrirbyggjandi aðgerðir. Upplýsingar skulu skráðar á eyðublöð sem yfirdýralæknir viðurkennir eða í tölvuskrár. Við flutning dýra milli hjarða skal afrit heilsukorts fylgja dýrinu til móttakanda.


9. gr.
Varðveisla hjarðbókar og heilsukorta.

Hjarðbækur og heilsukort skulu umráðamenn búfjár varðveita í a.m.k. 10 ár. Sama gildir þótt framleiðslu sé hætt. Umráðamaður búfjár skal, að ósk héraðsdýralæknis, veita allar umbeðnar upplýsingar um uppruna, númer og eftir því sem við á, áfangastað þeirra dýra sem hann hefur átt, alið, selt á fæti eða slátrað.


10. gr.
Ábyrgð sláturhúsa og flutningsaðila.

Innan 10 daga frá slátrun grips skal umsjónarmaður sláturhúss tilkynna skráningaraðila, á tölvutæku formi, hvaða dag slátrun fór fram, númer dýrs eða dýra, fjölda og uppruna þeirra.

Svínaafurðum sem fluttar eru frá sláturhúsi til frekari vinnslu og sölu í heilum skrokkum og/eða skrokkhlutum, skal fylgja eldisnúmer eða einstaklingsnúmer dýrs, eftir því sem við á.

Kjúklingaafurðum sem fluttar eru til frekari vinnslu, sbr. 2. mgr. skal fylgja hópnúmer.

Hrossa- og nautgripaafurðum sem fluttar eru til frekari vinnslu, sbr. 2. mgr., skal fylgja einstaklingsnúmer dýrs, eftir því sem við á.

Sauð- og geitfjárafurðum sem fluttar eru til frekari vinnslu, sbr. 2. mgr., skal fylgja einstaklingsnúmer dýrs, eftir því sem við á.

Flutningsaðilum er óheimilt að taka til flutnings ómerkta nautgripi, sauðfé/geitfé og svín.

Sláturhúsum er óheimilt að taka til sölu og vinnslu búfé sem ekki uppfyllir ákvæði reglugerðar þessarar um merkingar.

Berist ómerkt dýr í sláturrétt sláturhúss skal því slátrað og eiganda þess gefinn 24 klst. frestur til að færa sönnur á uppruna dýrsins. Yfirdýralæknir metur í hverju tilviki hvað telst fullnægjandi sönnun. Takist ekki að sanna uppruna/einstaklingsnúmer dýrsins er óheimilt að setja afurðirnar á almennan markað.


11. gr.
Ómerkt og óskráð dýr.

Komi í ljós að merkingum og skráningum dýra í tiltekinni hjörð sé ábótavant skal yfirdýralæknir stöðva allan flutning dýra frá hjörðinni, þ.m.t. flutning á afrétt.

Sinni umráðamaður búfjár ekki tilmælum yfirdýralæknis um að merkja búfé í hans umsjá, innan tímafrests sem yfirdýralæknir ákveður, getur yfirdýralæknir fyrirskipað merkingu búfjárins á kostnað eiganda.


12. gr.
Grunur um smitsjúkdóm.

Vakni grunur um smitsjúkdóm í hjörð skal umráðamaður búfjár þegar í stað tilkynna það héraðsdýralækni, sbr. ákvæði 5. gr. laga nr. 25/l993, um dýrasjúkdóma og varnir gegn þeim og ákvæði reglugerðar nr. 665/2001, um viðbrögð við smitsjúkdómum.


13. gr.
Tölvuskráningarkerfi.

Vegna skráningar á upplýsingum samkvæmt ákvæðum reglugerðar þessarar skal vera til staðar samræmt tölvuskráningarkerfi sem aðgengilegt er öllum sem ala dýr til slátrunar og skulu umráðamenn búfjár hafa aðgang að upplýsingum er varða eigin gripi.

Landbúnaðarráðuneytið hefur yfirumsjón með rekstri skráningarkerfisins en felur Bændasamtökum Íslands eða öðrum til þess bærum aðilum, að hafa umsjón með skráningu upplýsinga í tölvuskráningarkerfið skv. ákvæðum reglugerðar þessarar.

Embætti yfirdýralæknis hefur eftirlit með skráningu upplýsinga í kerfið f.h. landbúnaðarráðuneytisins.

Aðangur að upplýsingum úr skráningarkerfi skv. 1. mgr. skal heimill yfirdýralækni, en öðrum aðilum, að fengnu leyfi frá landbúnaðarráðuneytinu.


14. gr.
Merkingar nautgripa.

Nautgripi skal merkja með plötumerki í eyra, innan 30 daga frá fæðingu, eða áður en þeir eru fluttir frá viðkomandi hjörð, ef flutningur á sér stað innan þess tíma.

Kálfar, sem slátrað er innan 30 daga frá fæðingu skulu auðkenndir þannig að númer móður sé gefið upp við slátrun.


15. gr.
Merkingar alifugla.

Framleiðandi skal auðkenna hvern alifuglahóp í útungunarstöð með sérstöku hópnúmeri. Númer þetta skal vera minnst tíu tölustafir og þannig uppbyggt, að fyrstu þrír tölustafirnir auðkenna alifuglaframleiðandann, síðan koma tveir tölustafir fyrir árið, tveir fyrir vikuna sem ungarnir eru klaktir í, einn fyrir raðnúmer eldishópsins innan viku og loks tveir fyrir húsnúmer.


16. gr.
Merkingar grísa og svína.

Grísi má merkja með tvenns konar hætti:

Aðferð A: Spenagrísir merktir.
Allir spenagrísir skulu merktir innan 20 daga frá fæðingu með fjögurra stafa eldisnúmeri (húðflúri) í eyra. Meðhöndlun spenagrísa skal skrá í heilsukort með númeri móður. Meðhöndlaða merkta grísi aðra en spenagrísi skal auðkenna við upphaf lyfjagjafar og skrá meðhöndlunina með eldisnúmeri þeirra í heilsukort sbr. 8. grein.

Aðferð B: Spenagrísir ekki merktir.
Meðhöndlun ómerktra spenagrísa skal skrá í heilsukort með númeri móður.

Grísi aðra en spenagrísi skal merkja með raðnúmeri (plastmerki í eyra) við meðhöndlun og hún skráð með raðnúmeri þeirra í heilsukort sbr. 8. grein.

Fráfærugrísi, sem seldir eru frá upprunahjörð, skal þó ávallt merkja með fjögurra stafa eldisnúmeri í eyra (Aðferð A).

Merking (húðflúr/merki) skal vera skýr og sýnileg alla ævi dýrsins.

Framleiðandi skal velja um aðferð A eða B og nota aðra hvora þeirra en ekki báðar.

Aðkeypt svín skulu merkt skv. 6. gr. í upprunahjörð. Heimaaldar ásetningsgyltur skal merkja skv. 6. gr. við tilhleypingu. Heimaalda ásetningsgelti skal merkja skv. 6. gr. eigi síðar en við 6 mánaða aldur.


17. gr.
Merkingar hrossa.

Öll hross skal örmerkja eða frostmerkja.

Öll ásetningsfolöld skulu örmerkt eða frostmerkt við hlið móður fyrir 10 mánaða aldur. Folöld, sem slátrað er fyrir 10 mánaða aldur, skulu auðkennd þannig að fæðingarnúmer móður sé gefið upp við slátrun.


18. gr.
Merkingar sauð- og geitfjár.

Lömb og kið skal merkja með forprentuðu merki (lamba-/kiðamerki) innan 30 daga frá fæðingu. Á merkjunum skal koma fram bæjarnúmer skv. landsmarkaskrá og lambanúmer innan hjarðar. Endurnýting slíkra merkja er óheimil.

Ásetningslömb/-kið skal merkja með plötumerki í lit skv. 6. gr. a.m.k í annað eyrað, en því til viðbótar skal auðkenna hvern grip með einni eftirtalinna aðferða:

a) Sams konar merki sett í hitt eyrað.
b) Með viðurkenndu rafrænu merki.
c) Upphaflegt lamba/kiðamerki haldi sér, enda sé fyrsti stafur þess síðasti tölustafur fæðingarárs.

Litir forprentaðra plötumerkja skulu vera skv. viðauka með reglugerð nr. 200/1998 um búfjármörk, markaskrár og takmörkun á sammerkingum búfjár.


19. gr.
Eftirlit.

Eftirlit með framkvæmd ákvæða reglugerðar þessarar er í höndum embættis yfirdýralæknis.


20. gr.
Kostnaður.

Kostnað sem hlýst af framkvæmd ákvæða reglugerðar þessarar bera eigendur búfjár, þó bera sláturleyfishafar þann kostnað sem af ákvæðum 10. gr. hlýst.


21. gr.
Refsiákvæði.

Brot gegn ákvæðum reglugerðar þessarar varða viðurlögum skv. 18. gr. laga nr. 103/2002, um búfjárhald o.fl., 19. gr. laga nr. 66/1998, um dýralækna og heilbrigðisþjónustu við dýr og 30. gr. laga nr. 25/1993, um dýrasjúkdóma og varnir gegn þeim, ásamt síðari breytingum.


22. gr.
Gildistaka o.fl.

Reglugerð þessi er sett með heimild í 17. gr. laga nr. 103/2002, um búfjárhald o.fl., lögum nr. 66/1998, um dýralækna og heilbrigðisþjónustu við dýr og lögum nr. 25/1993, um dýrasjúkdóma og varnir gegn þeim, ásamt síðari breytingum.

Reglugerðin er auk þess sett með hliðsjón af reglugerð þingsins og ráðsins, nr. 21/2004/EB, reglugerð þingsins og ráðsins nr. 1760/2000/EB, reglugerðum ráðsins nr. 2628/1997/EB og 2629/1997/EB, reglugerðum framkvæmdastjórnarinnar nr. 911/2004, 2630/1997/EB og 494/98/EB, tilskipunum ráðsins nr. 64/432/EBE og 92/102/EBE.

Reglugerðin öðlast þegar gildi. Frá sama tíma fellur úr gildi reglugerð nr. 463/2003 um merkingar búfjár. Reglugerðinni fylgir viðauki I sem skoðast sem hluti reglugerðarinnar.


Ákvæði til bráðabirgða.
Gildistaka fyrir nautgripi:

Þrátt fyrir gildistökuákvæði reglugerðar þessarar, þarf ekki að merkja nautgripi sem fæddir eru fyrir 1. september 2003 fyrr en l. janúar 2006.

Ekki er krafist endurmerkingar á nautgripum sem fæddir eru fyrir 1. september 2003 og skráðir eru í kynbótaskýrsluhaldskerfi Bændasamtaka Íslands við gildistöku reglugerðar þessarar og einstaklingsmerktir á fullnægjandi hátt. Ef slíkt merki týnist úr grip skal hann þó merktur skv. ákvæðum 6. gr.


Gildistaka fyrir sauð- og geitfé:
Öll lömb og kið fædd eftir 1. janúar 2006, skulu merkt skv. ákvæðum reglugerðar þessarar. Lömb og kið ásett haustið 2005 skal þó einstaklingsmerkja skv. 18. gr.

Ekki er krafist endurmerkingar á sauðfé og geitfé sem fætt er fyrir 1. janúar 2005 og skráð er í kynbótaskýrsluhaldskerfi Bændasamtaka Íslands við gildistöku reglugerðar þessarar og einstaklingsmerkt er á fullnægjandi hátt.

Sauðfé og geitfé sem fætt er fyrir 1. janúar 2005 og ekki er skráð í skýrsluhaldskerfi Bændasamtaka Íslands við gildistöku reglugerðar þessarar, skal merkja skv. 18. gr. reglugerðar þessarar fyrir 1. janúar 2006.


Gildistaka fyrir hross:
Ekki er gerð krafa um að hross sem fædd eru fyrir 1. janúar 2003 séu merkt skv. ákvæðum reglugerðar þessarar nema sérstakar markaðsaðstæður krefjist.


Landbúnaðarráðuneytinu, 2. mars 2005.

Guðni Ágústsson.
Atli Már Ingólfsson.VIÐAUKI I
Tilkynningarfrestir/tímamörk.


Í eftirfarandi viðauka koma fram þeir lágmarksfrestir sem eigandi/ábyrgðarmaður búfjár hefur til að tilkynna skráningaraðila atriði er varða búfé á hans ábyrgð.

Í eftirfarandi töflu er ávallt miðað við virka daga:

Fæðingar
Dagar eftir fæðingu
Kálfar
30
Grísir
7
Alifuglar
Enginn, nema meðhöndlaða.
Lömb og kið
30
Sendingar af búi
Dagar eftir sendingu
Nautgripir
7
Svín
7
Alifuglar
Enginn
Lömb og kið
7
Móttaka á bú
Dagar eftir móttöku
Nautgripir
7
Svín
7
Lömb og kið
7
Umráðamannaskipti
Dagar eftir skipti
7
Hver skráir
Seljandi
Slátrun
Dagar eftir slátrun
10
Hver skráir
Sláturleyfishafi
Dauði gripa
Dagar eftir dauða/týnist/brottskr.
30
Sjúkdómsgreining
Dagar eftir greiningu
2
Meðhöndlun dýralæknis
Dagar eftir meðhöndlun
2
Hjarðmeðhöndlun
Dagar eftir meðhöndlun
2
Sláturfrestur/nýting afurða
Dagar eftir slátrun
2
Flutningsfrestur gripa
Dagar eftir flutning
2
Flutningsfrestur á bú
Dagar eftir flutning
2
Hóp- og einstaklingsnúmeramerking
Aldur lífdýra
Innan
Nautgripir
30 daga
Hross
Fyrir 10 mánaða aldur
Svín
7 daga eftir tilhleypingu
Alifuglar
Enginn, nema meðhöndlun
Lömb og kið
7 mánaða
Slátrun á óinnskráðum unggripum
Nýskráðir dagar eftir slátrun
30

Reglugerð sem fellur brott:


Þetta vefsvæði byggir á Eplica