Sjávarútvegsráðuneyti

332/2002

Reglugerð um stjórn veiða íslenskra skipa úr norsk-íslenska síldarstofninum árið 2002. - Brottfallin

1. gr.

Allar veiðar á síld úr norsk-íslenska síldarstofninum eru óheimilar nema að fengnu sérstöku leyfi Fiskistofu. Við veitingu leyfa koma aðeins til greina skip sem aflamark hafa í síld úr norsk-íslenska síldarstofninum. Heimilt er að hefja síldveiðar 10. maí 2002.


2. gr.

Leyfi, sbr. 1. gr., tekur til veiða á síld úr norsk-íslenska síldarstofninum í lögsögu Íslands, Færeyja, Noregs og Jan Mayen og á alþjóðlega hafsvæðinu milli Íslands og Noregs. Við veiðar í lögsögu Færeyja, Noregs og Jan Mayen skal farið að reglum sem stjórnvöld í viðkomandi landi setja um veiðarnar. Um veiðar í lögsögu Noregs gilda og ákvæði 2. mgr. 3. gr.


3. gr.

Á tímabilinu 10. maí til 31. desember 2002 er íslenskum skipum heimilt að veiða samtals 132.080 lestir af síld.

Heimilt er íslenskum skipum á árinu 2002 að veiða 5.900 lestir af síld í efnahagslögsögu Noregs. Aðeins er heimilt að veiða í nót og eingöngu norðan 62° N og utan 12 sjómílna frá grunnlínum. Hverju skipi er heimilt að veiða í efnahagslögsögu Noregs 4,5% af því aflamarki skips, að teknu tilliti til flutnings aflamarks milli skipa. Heimilt er að flytja sérstaklega milli skipa þann hluta aflamarks sem hverju skipi er heimilt að veiða við Noreg. Fiskistofu skal tilkynnt um slíkan flutning.


4. gr.

Um tilkynningar við síldveiðar á alþjóðlegu hafsvæði gilda ákvæði reglugerðar nr. 447/1999, um veiðieftirlit á samningssvæði (NEAFC) Norðaustur-Atlantshafsfiskveiðinefndarinnar og taka þær tilkynningar einnig til veiða innan lögsögunnar. Um tilkynningar vegna veiða innan lögsögu Færeyja og Noregs fer samkvæmt reglum hlutaðeigandi stjórnvalda.


5. gr.

Síldarafla skal landað og hann veginn í íslenskri höfn. Þó er heimilt, að fengnu leyfi Fiskistofu, að landa síldarafla til bræðslu í fiskimjölsverksmiðju í erlendri höfn, enda liggi fyrir að eftirlit með löndun og vigtun sé fullnægjandi að mati Fiskistofu. Þá er heimilt að landa síld til manneldis í erlendri höfn, enda sé síldin seld á opinberum fiskmörkuðum þar sem vigtunaraðferðir og eftirlit er viðurkennt af Fiskistofu.

Heimilt er að landa óvigtaðri síld um borð í vinnsluskip enda tilkynni skipstjóri veiðiskips Fiskistofu fyrirfram hvaða vinnsluskip taki aflann og áætlað löndunarmagn. Strax að lokinni löndun síldarinnar um borð í vinnsluskip, skal skipstjóri veiðiskips senda Fiskistofu endanlegar tölur um landaðan afla og aflaverðmæti, staðfestar af móttakanda síldarinnar. Þá er og heimilt að miðla afla úr nót til skips, sem leyfi hefur til síldveiða í því skyni að koma í veg fyrir að síld sé sleppt dauðri úr nótum.

Um vigtun á síld gilda að öðru leyti ákvæði reglugerðar nr. 522/1998, um vigtun sjávarafla.


6. gr.

Brot á reglugerð þessari og ákvæðum leyfisbréfa gefnum út með stoð í henni varða viðurlögum samkvæmt ákvæðum laga nr. 151, 27. desember 1996, um veiðar utan lögsögu Íslands, með síðari breytingum. Með mál út af brotum á reglugerð þessari skal farið að hætti opinberra mála.

Vegna afla umfram leyfilegt hámark skal beita ákvæðum laga nr. 37, 27. maí 1992, um sérstakt gjald vegna ólögmæts sjávarafla. Jafnframt er Fiskistofu heimilt að svipta skip leyfi til síldveiða vegna brota á reglugerð þessari.


7. gr.

Reglugerð þessi er sett samkvæmt ákvæðum laga nr. 151, 27. desember 1996, um fiskveiðar utan lögsögu Íslands, með síðari breytingum til þess að öðlast þegar gildi og birtist til eftirbreytni öllum þeim sem hlut eiga að máli.


Sjávarútvegsráðuneytinu, 2. maí 2002.

F. h. r.
Þorsteinn Geirsson.
Jón B. Jónasson.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica