Landbúnaðarráðuneyti

96/1987

Reglugerð um varnir gegn útbreiðslu smitandi búfjársjúkdóma við vinnslu og dreifingu fóðurs úr grasi, grænfóðir og heyi - Brottfallin

1. gr.

Orðaskýringar.

Merking orða er í reglugerð þessari sem hér segir:

Grasmjöl: Hraðþurrkað, malað gras eða grænfóður.

Graskögglar: Kögglað fóður úr gras- eða grænfóðurmjöli.

Heykögglar: Kögglað fóður úr möluðu heyi.

Farandvél: Flytjanleg fóðurgerðarvél til vinnslu á lífrænu hráefni.

2. gr.

Almenn ákvæði.

 

2.1     Sauðfjársjúkdómanefnd og héraðsdýralæknar veita upplýsingar um skiptingu landsins í varnarsvæði og smitsjúkdóma, sem skipta máli á viðkomandi vinnslusvæði. Forsvarsmenn graskögglaverksmiðja og farandvéla skulu afla slíkra upplýsinga áður en þeir hefja fóðurvinnslu.

2.2     Einungis skal nota nýjar umbúðir um fóður sem ætlað er til sölu. Tilgreina skal á umbúðum hvaðan hráefnið er, hvenær heyjað var og framleiðslumánuð og ár.

2.3     Fóðurvinnslustöðvar skulu halda skýrslu um vinnslu og sölu fóðurs. Skal sú skrá vera aðgengileg hvenær sem er fyrir héraðsdýralækna og sauðfjársjúkdómanefnd.

2.4     Um sölu og dreifingu á fóðri sem unnið er í farandvélum gilda sömu reglur og um flutninga á heyi, sbr. 2. mgr. 2. gr. rg. nr. 556 24. September 1982. Sauðfjársjúkdómanefnd getur takmarkað dreifingu á fóðri ef hætta er á, að hennar dómi, að smitsjúkdómar geti borist með því. Vinni graskögglaverksmiðjur eða farandvélar úr öðru hráefni en grasi eða heyi, þarf til þess sérstakt leyfi sauðfjársjúkdómanefndar.

 

3. gr.

Um graskögglaverksmiðjur.

3.1     Tún graskögglaverksmiðja og önnur lönd, sem þær nýta til vinnslu köggla eða mjöls úr grasi eða grænfóðri, skulu vera afgirt og alfriðuð fyrir búfjárbeit. Sauðfjársjúkdóma­nefnd getur fyrirskipað lógun búfjár, sem leitar þráfaldlega inn á þessi svæði.

3.2     Hafi tún eða annað land verið friðað fyrir búfjárbeit lengur en eitt ár og ekki notaður húsdýraáburður, má nýta það til framleiðslu fóðurs og dreifa framleiðslunni óhindrað. Sauðfjársjúkdómanefnd getur þó takmarkað dreifingu og bannað not á ákveðnum svæðum, þegar um sérstaka smithættu er að ræða. Leyfi Sauðfjársjúkdómanefndar þarf til að nýta svæði, sem riðuveikt eða riðusmitað búfé hefur gengið á.

3.3     .Óheimilt er að nota húsdýraáburð á tún eða önnur lönd graskögglaverksmiðja nema hann sé plægður eða herfaður niður í jörð eða hafi staðið í hang til gerjunar að minnsta kosti sex mánuði áður en honum er dreift.

 

4. gr.

Um heyköggla- og farandvélar.

4.1.   Sauðfjársjúkdómanefnd gefur leyfi til flutninga farandvéla milli varnarhólfa í samráði við héraðsdýralækna og riðunefndir á viðkomandi svæðum. Sækja skal skriflega með viku fyrirvara um leyfi til slíkra flutninga. Tilgreina skal, ef því verður við komið, á hvaða bæjum fyrirhugað er að vinna og hvort flytja á hráefni milli staða.

4.2.   Héraðsdýralæknir samþykkir áætlun um flutning á farandvél innan varnarhólfs eða gerir tillögu til breytinga á henni með hliðsjón af heilbrigðisástandi búfjár á viðkomandi bæjum og hefur um það samráð við riðunefnd viðkomandi hrepps eða oddvita. Tilkynna skal héraðsdýralækni ferðaáætlun með viku fyrirvara, sé þess kostur.

 

5. gr.

Um sótthreinsun farandvéla.

5.1.   Þvo skal og sótthreinsa farandvélar sem fluttar eru milli vinnslusvæða eða varnarhólfa. Viðkomandi héraðsdýralæknir gefur nánari fyrirmæli um sótthreinsun og getur hann sett skilyrði um sérstaka hreinsun og önnur öryggisatriði sem nauðsynlegt er að viðhafa að hans mati.

5.2.    Sótthreinsun farandvéla skal fara fram á þeim stað eða svæði, þar sem vinnsla fóðurs hefur farið fram. Nota skal háþrýstitæki til þvotta og sótthreinsunar og skulu tækin fylgja farandvélum, ef því verður við komið. Héraðsdýralæknir gefur nánari upplýsingar og fyrirmæli um framkvæmd sótthreinsunar og val á sótthreinsiefnum.

5.3.    Áður en farandvélar eru fluttar skal héraðsdýralæknir ganga úr skugga um að framkvæmd sótthreinsunar sé fullnægjandi. Ef flytja á farandvél milli varnarsvæða skal fylgja henni skriflegt vottorð um að sótthreinsun hafi farið fram, útgefið af skoðunarmanni. Afrit vottorðs sendist sauðfjársjúkdómanefnd. Áður en vinnsla fóðurs hefst á nýju svæði, skal viðkomandi héraðsdýralæknir ganga úr skugga um að vélin hafi verið sótthreinsuð á fullnægjandi hátt. Forsvarsmaður farandvélar skal kveðja héraðsdýralækni til og afhenda honum vottorð um að sótthreinsun hafi farið fram.

5.4.   Rísi ágreiningur milli héraðsdýralæknis og forsvarsmanns farandvélar um framkvæmd sótthreinsunar, skal skjóta málinu til sauðfjársjúkdómanefndar.

 

6. gr.

Refsiákvæði og gildistaka.

6.1.   Brot á reglugerð þessari varða refsingu samkvæmt 46. gr. laga nr. 23 10. mars 1956, sbr. 25. gr. laga nr. 75 13. maí 1982. Með má1 út af brotum skal farið að hætti opinberra mála.

6.2.   Reglugerð þessi er sett samkvæmt heimild í 45. gr. laga um varnir gegn útbreiðslu næmra sauðfjársjúkdóma og útrýmingu þeirra nr. 23 10. mars 1956, til þess að öðlast þegar gildi og birtist til eftirbreytni öllum þeim sem hlut eiga að máli.

 

Landbúnaðarráðuneytinu, 4. mars 1987.

Jón Helgason.

Jón Höskuldsson.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica