Landbúnaðarráðuneyti

197/1995

Reglugerð um útgáfu Stofnlánadeildar landbúnaðarins á innlausnarbréfum, 1. flokki 1995. - Brottfallin

1. gr.

Stofnlánadeild landbúnaðarins er heimilt, á grundvelli laga nr. 45/1971 og lánsfjárlaga fyrir árið 1995 nr. 149/1994, að gefa út verðtryggð skuldabréf, innlausnarbréf 1. flokk 1995, að heildarfjárhæð samkvæmt nánari ákvörðun stjórnar Stofnlánadeildarinnar. Fjárhæðir innlausnarbréfanna skulu vera 1.000.000, 500.000, 100.000 og 50.000 krónur. Bréfin verða samkvæmt því merkt A, B, C eða D, eftir verðgildi og tölusett í númeraröð. Lánstími innlausnarbréfanna er 15 ár. Vextir þeirra skulu vera 5% fastir ársvextir.

2. gr.

Innlausnarbréfin skal Stofnlánadeildin nota til þess að breyta lausaskuldum bænda í föst lán vegna fjárfestinga á jörðum þeirra vegna framkvæmda þar eða jarðakaupa, véla-, bústofns- eða fóðurkaupa, allt á árunum 1984-1994, að báðum árum meðtöldum. Stofnlánadeildin afhendir innlausnarbréfin gegn veðskuldabréfum þeirra bænda sem eru lánshæfir samkvæmt nánari reglum hennar um þau lausaskuldalán, m.a. varðandi rekstrarlegar forsendur lántaka, veðmat og veðhæfi veðtrygginga og önnur skilyrði fyrir lánshæfi. Stofnlánadeildin ákveður lánstíma, vaxtakjör og aðra skilmála þessara lausaskuldalána í samræmi við kjör og skilmála innlausnarbréfanna og samkvæmt ákvæðum laga nr. 45/1971.

3. gr.

Innlausnarbréfin skulu ætíð vera skráð á nafn. Framsal til nýs eiganda skal skráð með nafni hans, kennitölu, heimilisfangi og framsalsdegi, ásamt undirritun framseljanda. Bréf verður ekki innleyst nema af réttum eiganda þess.

4. gr.

Fjárhæð innlausnarbréfanna er verðtryggð miðað við vísitölu neysluverðs, auglýsta af Seðlabanka Íslands skv. lögum nr. 25/1987, 21. gr., með síðari breytingum. Grunnvísitala þessa flokks bréfa er neysluverðsvísitala maímánaðar 1995. Greiða skal verðbætur á vexti og höfuðstól bréfanna samkvæmt breytingum á vísitölunni frá útgáfudegi þeirra til gjalddaga.

5. gr.

Lánstími innlausnarbréfanna er 15 ár hið lengsta, en ræðst að öðru leyti af útdrætti. Vextir eru óbreytanlegir allan tímann og reiknast frá útgáfudegi til gjalddaga. Höfuðstóll, vextir og verðbætur greiðast eftirá í einu lagi.

6. gr.

Stofnlánadeild landbúnaðarins innleysir bréfin samkvæmt útdrætti og endurgreiðir útdregin bréf að fullu á gjalddögum, sem eru 1. júní ár hvert, í fyrsta sinn 1. júní 1996. Í hverjum útdrætti skal draga út þann fjölda bréfa sem nemur samtals 1/15 hluta af heildarfjárhæð þessa flokks innlausnarbréfa með vöxtum og verðbótum sem þeim hluta fylgja. Óútdregin innlausnarbréf þessa flokks greiðast síðast á lokagjalddaga, þann 1. júní 2010. Númer útdreginna bréfa skulu birt í Löbirtingablaði tveimur mánuðum fyrir gjalddaga. Gjaldfallnar endurgreiðslur innlausnarbréfanna bera ekki vexti eða verðbætur.

7. gr.

Útdrátt annast Stofnlánadeild landbúnaðarins hlutlaust undir eftirliti lögbókanda.

8. gr.

Til tryggingar innlausnarbréfum þessum er ábyrgð ríkissjóðs, samkvæmt 11. gr. laga nr. 45/1971 og lögum nr. 149/1994.

9. gr.

Allar kröfur samkvæmt innlausnarbréfunum fyrnast á 10 árum frá gjalddaga þeirra.

10. gr.

Reglugerð þessi er sett samkvæmt lögum nr. 45/1971 og öðlast þegar gildi.

Landbúnaðarráðuneytið, 29. mars 1995.

F. h. r.
Björn Sigurbjörnsson.

Jón Höskuldsson.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica