Landbúnaðarráðuneyti

524/1998

Reglugerð um útflutning á kindakjöti. - Brottfallin

1. gr.

Eigendum sláturfjár, hvort sem þeir eru beingreiðsluhafar eða ekki, er skylt að taka þátt í útflutningi og sæta útflutningsuppgjöri fyrir framleiðslu sína í því hlutfalli sem landbúnaðarráðherra auglýsir fyrir 1. september ár hvert. Heimilt er að ákveða mismunandi hlutfall útflutnings fyrir dilkakjöt og fyrir kjöt af fullorðnu fé. Útflutningshlutfall skal reikna af allri framleiðslu viðkomandi aðila eftir gæðaflokkum, með þeim undantekningum sem reglugerð þessi kveður á um.

2. gr.

Sláturleyfishafi, sem tekur á móti sauðfé til slátrunar, er ábyrgur fyrir því að útflutningsskil eigenda þess sláturfjár er hann tekur við fari fram eftir ákvörðun ráðherra um útflutningshlutfall. Þó skal eiganda sláturfjár heimilt að gera samning við einn sláturleyfishafa um að annast allan útflutning fyrir sig þótt hann slátri einnig hjá öðrum sláturleyfishöfum. Slíkir samningar skulu miðast við að slátrað sé hjá þeim sláturleyfishafa, sem samið er um útflutning við, fyllilega sem svarar útflutningskyldu viðkomandi framleiðanda. Afrit af þeim samningi skal framleiðandi afhenda þeim sláturleyfishöfum sem hann óskar eftir að vera undanþeginn útflutningsskyldu hjá, eigi þeim að vera heimilt að taka við framleiðslu hans án útflutningsskyldu. Afrit skal einnig sent til Framleiðsluráðs landbúnaðarins.

Sé innlegg eiganda sláturfjár, sem samið hefur við einn sláturleyfishafa um fullnustu útflutningsskyldu, minna hjá þessum sláturleyfishafa en nemur reiknaðri útflutningsskyldu, sbr. 4. gr., bera aðrir sláturleyfishafar, sem viðkomandi sláturfjáreigandi skiptir við, ábyrgð á útflutningsskilum á því magni sem eftir stendur í réttu hlutfalli við slátrun sláturfjáreigandans hjá þeim.

Annist sláturleyfishafi slátrun án þess að sjá um sölu afurðanna, skal hann krefja eiganda sláturfjár um tryggingu fyrir útflutningsgjaldi sem eigandanum ber að greiða samkvæmt 5. gr., ella skal hann afhenda sláturleyfishafa það magn kjöts sem nemur útflutningsskyldu hans.

Sláturleyfishafa er skylt að tilkynna Framleiðsluráði landbúnaðarins um slátrun hvers mánaðar eigi síðar en 10. næsta mánaðar. Í tilkynningunni skal koma fram hver sé eigandi sláturfjár, fjöldi þess, magn í kg og skipting í gæðaflokka ásamt upplýsingum um hvort sláturleyfishafi annist sölu afurða eða ekki, samkvæmt nánari reglum sem Framleiðsluráð landbúnaðarins setur.

3. gr.

Undanþegin útflutningsskyldu og/eða útflutningsgjaldi er:

 a.            Framleiðsla til heimanota allt að 240 kg á viðkomandi lögbýli, með skráð sauðfé á forðagæsluskýrslu haustið áður og 180 kg á skráðan sauðfjáreiganda í þéttbýli.

 b.            Framleiðsla kindakjöts á lögbýlum, sem hafa staðfestingu búfjáreftirlitsmanns á að framleiðendur hafi samanlagt ekki fleiri en 0,7 vetrarfóðraðar kindur á hvert ærgildi greiðslumarks samkvæmt talningu í apríl ár hvert enda hafi þeir skuldbundið sig skriflega til að leggja aðeins inn afurðir þess fjár. Stundi sami aðili sjálfstæðan rekstur á tveimur eða fleiri lögbýlum, skulu framangreind skilyrði vera uppfyllt fyrir bæði eða öll lögbýlin áður en undanþága er veitt. Stundi tveir eða fleiri aðilar sjálfstæðan rekstur á sama lögbýli og sé greiðslumark þeirra jafnframt aðgreint í greiðslumarksskrá, nægir að einn eða fleiri þeirra uppfylli framangreind skilyrði til að fá undanþágu fyrir sína framleiðslu þótt lögbýlið í heild uppfylli þau ekki.

 c.            Framleiðsla kindakjöts sem á sér stað fyrir 1. september eða eftir 31. október ár hvert.

4. gr.

Útreikningur á skiptingu magns hvers eiganda sláturfjár til sölu innanlands, til heimanota eða til útflutnings skal fara fram í lok sláturtíðar, þó eigi síðar en 1. desember.

Sláturleyfishöfum er skylt að flytja út kindakjöt að jafnvirði þess kjöts sem þeir hafa tekið til útflutnings af eigendum sláturfjár, metið eftir verði til framleiðenda, sbr. þó ákvæði 3. gr. Skal það annarsvegar reiknað fyrir dilkakjöt og hinsvegar fyrir kjöt af fullorðnu. Við kjötskipti skal útflutningsskyldan reiknuð á sama hátt.

Framleiðsluráð landbúnaðarins reiknar út og skráir útflutningskyldu eða greiðsluskyldu afurðastöðva og eigenda sláturfjár og annast uppgjör við þá og hefur jafnframt eftirlit með framkvæmd útflutningsins.

5. gr.

Landbúnaðarráðherra auglýsir fyrir 1. september ár hvert, að fengnum tillögum framkvæmdanefndar búvörusamninga, útflutningsgjald sem sláturleyfishöfum eða eigendum sláturfjár ber að greiða af því magni sem þeir flytja ekki út en ber að flytja út skv. 1. gr. Gjaldið skal svara til mismunar á heildsöluverði og viðmiðunarverði sem miðast við meðalverð f.o.b. við útflutning á undangengnum tólf mánuðum.

Framleiðsluráð landbúnaðarins ráðstafar þeim fjármunum sem innheimtir eru skv. þessari gr. til kaupa á kindakjöti til útflutnings.

Sláturleyfishafar sem ekki hafa lokið útflutningi eða greitt útflutningsgjald fyrir 1. nóvember að loknu framleiðsluári, skulu greiða útflutningsgjald af því magni sem ekki hafa verið gerð full skil á.

6. gr.

Þegar ákvörðun landbúnaðarráðherra um útflutningsskyldu liggur fyrir skal Framleiðsluráð landbúnaðarins birta sláturleyfishöfum áætlun um útflutningsþörf kindakjöts hjá hverjum þeirra, eigi síðar en 14 dögum eftir að ákvörðun ráðherra liggur fyrir.

7. gr.

Sláturleyfishafar skulu innan 14 daga frá því að þeim berst tilkynning samkvæmt 6. gr. gera Framleiðsluráði landbúnaðarins grein fyrir því hvernig þeir ætla að afsetja það kjöt sem er skylt að flytja út. Þær tilkynningar skulu bera með sér hvort:

 a.            að sláturleyfishafi ætli að útflutningsverka það magn sem honum ber að flytja út og annast útflutning þess. Gera skal grein fyrir þeim mörkuðum sem ætlað er að flytja á; á hvaða markaði, í hvaða formi og á hvaða verðum.

 b.            að sláturleyfishafi hafi samið við annan sláturleyfishafa um að hann uppfylli útflutningsskyldu skv. a-lið að meira eða minna leyti. Koma skulu fram sömu atriði og undir a-lið.

 c.            að sláturleyfishafinn eigi þess ekki kost að verka kjöt til útflutnings eða semja við annan sláturleyfishafa um að uppfylla útflutningsskyldu sína og óski eftir því að greiða gjald vegna útflutningskvaðar skv. 5. gr. að hluta eða öllu leyti.

Framleiðsluráð landbúnaðarins fer yfir tilkynningar sláturleyfishafa og gerir tillögur til landbúnaðarráðherra um útflutning. Telji Framleiðsluráð nauðsynlegt að skipta útflutningi milli sláturleyfishafa eftir mörkuðum skal það tilkynna landbúnaðarráðherra um þá skiptingu og gera tillögu um leyfisveitingar. Óheimilt er að flytja til þeirra markaða, sem um ræðir, nema að fengnu leyfi landbúnaðarráðherra. Útflutningur sláturleyfishafa á markaði sem ákveðið hefur verið að skipta, umfram það sem viðkomandi hefur fengið leyfi til, telst ekki fullnægja útflutningsskyldu, samkvæmt 1. gr. þessarar reglugerðar.

8. gr.

Brot á reglugerð þessari varða viðurlögum samkvæmt 70. gr. laga nr. 99 8. september 1993 um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum. Með mál út af brotum skal farið að hætti opinberra mála.

Reglugerð þessi er sett samkvæmt heimild í lögum nr. 99 8. september 1993 um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum, með síðari breytingum, og öðlast þegar gildi.

Landbúnaðarráðuneytinu, 21. ágúst 1998.

Guðmundur Bjarnason.

Jón Höskuldsson.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica