Landbúnaðarráðuneyti

322/1999

Reglugerð um búnaðarmál. - Brottfallin

1. gr.

Jarðabætur.

Samkvæmt ákvæðum 6. gr. búnaðarlaga nr. 70/1998 og í samræmi við ákvæði 11. gr. samnings um verkefni samkvæmt búnaðarlögum frá 5. mars l999 skulu Bændasamtök Íslands veita framlög til eftirtalinna jarðabóta á einstökum jörðum:

Verkefnafl. 1. Endurræktun vegna aðlögunar að lífrænum búskap.

Endurræktunin skal gerð skv. ákvæðum reglugerðar um lífræna landbúnaðarframleiðslu nr. 219/1995. Vottorð frá vottunarstofu um að svo hafi verið gert skal fylgja úttektarvottorði. Þá skal koma fram stærð hins endurræktaða lands í ha eða m2.

Verkefnafl. 2. Umhverfis- og gæðaverkefni í garðyrkju.

Úttekt getur þá fyrst farið fram þegar tækin hafa verið sett upp og þau reynd. Öllum úttektarvottorðum skal fylgja staðfesting (ljósrit af reikningi) á kaupverði tækis án uppsetningar. Viðmiðunarverð tækja og búnaðar reiknast án virðisaukaskatts.

Verkefnafl. 3. Þróunarverkefni í kornrækt.

Úttektarmaður skal fullvissa sig um að sáð hafi verið yrki sem líklegt sé að nái þroska hér á landi, og að sáð hafi verið í akurinn fyrir 20. maí. Þá skal hann einnig fullvissa sig um að sáð hafi verið korni til þroska í 2,0 ha eða meira.

Verkefnafl. 4. Beitarstjórnun og landnýting.

Úttekt getur þá fyrst farið fram þegar landnýtingaráætlunin hefur verið unnin. Í áætluninni skal koma fram stærð þess lands sem áætlunin nær til, skipting þess í gæðaflokka og hvernig áformað er að nýta það.

Verkefnafl. 5. Bætt aðgengi almennings að landinu.

Úttektarmaður skal, með samanburði við lýsingu og/eða teikningar sem fylgdu umsókn, fullvissa sig um að verkið sé unnið í samræmi við það sem lýst var í umsókn og fyrirheit um framlag fékkst til.

Verkefnafl. 6. Verkefni tengd búfjárhaldi.

Úttektarmaður skal, með samanburði við lýsingu og/eða teikningar sem fylgdu umsókn, fullvissa sig um að verkið sé unnið í samræmi við það sem lýst var í umsókn og fyrirheit um framlag fékkst til.

Verkefnafl. 7. Viðhald framræslu á ræktuðu landi.

Úttektarmaður skal fullvissa sig um að framkvæmdin sé í samræmi við það sem fram kemur í umsókn um mat ráðunautar á þörf fyrir hreinsun. Mæla skal lengd hreinsaðra skurða. Sé ekki hreinsað úr öllum skurðinum skal aðeins mæla þann eða þá hluta hans sem hreinsaðir hafa verið.

Úttektir á framkvæmdum, staðfestar af viðkomandi búnaðarsambandi/leiðbeiningamiðstöð, skulu berast Bændasamtökum Íslands fyrir 15. nóvember ár hvert og skulu framlög greidd fyrir árslok. Framkvæmdum skal lokið áður en úttekt er staðfest. Sé verki ekki lokið áður en skilafrestur úttekta rennur út, skal framlag ekki greitt vegna þess hluta sem ólokið er. Sé óskað eftir framlagi til þess hluta sem ekki er tekinn út, skal um það sótt að nýju vegna næsta árs. Hafi framkvæmdum verið frestað milli ára fellur fyrirheit um framlag úr gildi og verður að sækja um á ný.

2. gr.

Umsóknir um framlög til jarðabóta skulu vera skriflegar og hafa borist Bændasamtökum Íslands fyrir 15. nóvember árið áður en ráðist er í viðkomandi verkefni. Umsókn skal fylgja mat leiðbeiningamiðstöðvar/héraðsráðunautar á þörf býlisins fyrir viðkomandi framkvæmd og staðfest kostnaðar- og framkvæmdaáætlun. Sé um byggingar að ræða skulu fylgja teikningar.

Afgreiðslu umsókna skal lokið fyrir 1. febrúar ár hvert og tilkynna Bændasamtök Íslands umsækjendum niðurstöður. Umsóknir sem synjað er gilda ekki á næsta úthlutunartímabili og skulu því endurnýjaðar óski umsækjendur eftir framlagi á næsta tímabili.

3. gr.

Um skipan fagráða.

Bændasamtök Íslands og viðkomandi búgreinasambönd skipa fagráð í þeim búgreinum sem eftirtalin búgreinasambönd ná yfir: Félag eggjaframleiðenda, Félag hrossabænda, Félag kjúklingabænda, Landssamband kartöflubænda, Landssamband kúabænda, Landssamtök sauðfjárbænda, Landssamtök skógareigenda, Samband garðyrkjubænda, Samband íslenskra loðdýrabænda, Svínaræktarfélag Íslands og Æðarræktarfélag Íslands. Þá skipa Bændasamtök Íslands fagráð á einstökum fagsviðum eftir því sem samtökin telja ástæðu til.

Skipa skal fagráð til þriggja ára í senn og er starfstímabil þess hið sama og kjörtímabil stjórnar Bændasamtaka Íslands.

4. gr.

Reglugerð þessi er sett samkvæmt heimild í 7. og 19. gr. búnaðarlaga, nr. 70/1998 og öðlast þegar gildi.

Landbúnaðarráðuneytinu, 10. maí 1999.

Guðmundur Bjarnason.

Hjördís Halldórsdóttir.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica