Matvælaráðuneyti

323/2022

Reglugerð um heimild færeyskra skipa til síldveiða við Ísland á árinu 2022. - Brottfallin

1. gr.

Reglugerð þessi lýtur að framkvæmd samninga sem íslensk stjórnvöld hafa gert við færeysk stjórnvöld og um heimildir skipa frá Færeyjum til veiða á síld úr norsk-íslenska síldarstofninum í efnahagslögsögu Íslands á árinu 2022.

 

2. gr.

Veiðar, sbr. 1. gr., innan íslenskrar efnahagslögsögu eru óheimilar nema að fengnu sérstöku leyfi Fiskistofu. Um borð í veiðiskipi skal vera staðfesting þess að viðkomandi skip hafi leyfi til síldveiða í efnahagslögsögu Íslands og enn fremur reglur, sem um síldveiðarnar gilda.

Færeysk stjórnvöld skulu sækja um leyfi fyrir skip til síldveiða til Fiskistofu. Í umsókn skal tilgreina nafn skips, skrásetningarnúmer, stærð, tegund fjarskiptabúnaðar og kallmerki.

 

3. gr.

Færeyskum skipum er óheimilt að stunda síldveiðar á svæði sunnan 67°00,00´N og vestan línu sem dregin er milli eftirfarandi hnita:

  1. 67°00,00´N - 013°19,00´V
  2. 66°42,00´N - 012°50,00´V
  3. 66°06,00´N - 011°33,00´V
  4. 65°27,00´N - 011°24,00´V
  5. 65°00,00´N - 011°28,00´V
  6. 64°32,30´N - 011°41,00´V
  7. 64°21,70´N - 012°17,30´V
  8. 64°00,00´N - 013°07,00´V
  9. 63°43,00´N - 014°00,00´V

 

og þaðan réttvísandi í 180° að mörkum efnahagslögsögunnar.

Færeysk veiðiskip skulu hlíta þeim takmörkunum sem síldveiðum eru settar í sérstökum reglu­gerðum eða skyndilokunum.

Stundi færeysk skip síldveiðar fyrir sunnan 67°00,00´N og vestan 011°24,00´V skal skipstjóri taka sýni úr afla. Sýni skulu tekin úr hverju kasti eða togi og skal sýnatakan framkvæmd fyrir stærðar­flokkun afla og framkvæmd þannig að tekið skal eitt 50 sílda sýni úr hverju kasti eða togi. Hvert sýni skal aðgreint til tegunda svo unnt sé að greina íslenska sumargotssíld frá norsk-íslenskri síld í sam­ræmi við kynþroskastig. Frosnum aflasýnum skal komið til Havstovan í Þórshöfn í Fær­eyjum. Skipstjóri skal skrá hlutfall síldartegunda í afladagbók.

 

4. gr.

Fiskiskipum sem leyfi hafa fengið skv. 2. gr. til veiða í efnahagslögsögu Íslands, er skylt að halda afladagbækur um veiðarnar sem uppfylla ákvæði um afladagbækur samkvæmt kafla III og viðauka IV í reglum Norðaustur-Atlantshafsfiskveiðinefndarinnar (NEAFC). Skulu Fiskistofu sendar staðfestar löndunartölur og afrit af afladagbókunum eigi síðar en 14 dögum eftir hver mánaðamót.

Veiðarfæri, sem ætluð eru til annarra veiða en leyfi miðast við, skulu geymd í sérstakri veiðar­færageymslu.

 

5. gr.

Skip sem leyfi hafa fengið til síldveiða, sbr. 2. gr., skulu búin fjarskiptabúnaði sem sendir upp­lýsingar um staðsetningu, stefnu og hraða með sjálfvirkum hætti á klukkustundar fresti til sam­eigin­legrar eftirlitsstöðvar Landhelgisgæslu og Fiskistofu hér eftir nefnd Eftirlitsstöðin.

 

6. gr.

Um siglingu skips, á leið til veiðisvæðis áður en veiðar í efnahagslögsögu Íslands hefjast og á leið út úr efnahagslögsögu Íslands, gilda ákvæði reglugerðar um eftirlitsstaði erlendra skipa vegna veiða og siglinga í íslenskri fiskveiðilögsögu nr. 1133/2013, þar sem fram kemur staðsetning athug­unar­staðanna. Heimilt er Landhelgisgæslu Íslands að ákveða að skipin skuli sigla inn og út úr efnahags­lögsögunni á tilteknum athugunarstöðum og að þeim beri að tilkynna komu sína á þá með ákveðnum fyrirvara í samræmi við reglugerð nr. 1133/2013, um eftirlitsstaði erlendra skipa vegna veiða og siglinga í íslenskri fiskveiðilögsögu. Tímafrestir tilkynninga koma fram í reglugerð nr. 1170/2013, um rafrænar skeytasendingar, upplýsingagjöf og rafræn afladagbókaskil erlendra fiski­skipa í efnahags­lögsögu Íslands.

 

7. gr.

Skip sem stunda veiðar í efnahagslögsögu Íslands samkvæmt reglugerð þessari skulu hlíta ákvæð­um laga nr. 22/1998, um veiðar og vinnslu erlendra skipa í fiskveiðilandhelgi Íslands, nema annað sé sérstaklega ákveðið í reglugerð þessari og sömu reglum og íslensk skip við sams konar veiðar, m.a. um veiðibönn, friðunarsvæði og aðra lokun svæða.

 

8. gr.

Eftirlit með framkvæmd reglugerðar þessarar er í höndum Landhelgisgæslu Íslands, Fiskistofu og eftirlitsmanna í hennar þjónustu.

Fiskistofu er heimilt að setja veiðieftirlitsmenn um borð í veiðiskip sem leyfi hafa til veiða innan íslenskrar efnahagslögsögu. Skal útgerð skips sjá eftirlitsmönnum fyrir fæði og aðstöðu meðan þeir eru um borð í veiðiskipi og enn fremur greiða allan kostnað af veru þeirra um borð í skipinu.

Telji Landhelgisgæslan eða Fiskistofa að eftirlit samkvæmt reglugerð þessari geti ekki farið fram á sjó, skal hlutaðeigandi skipi skylt að hlíta fyrirmælum um að halda til nálægrar hafnar þar sem eftirlit getur farið fram.

 

9. gr.

Fiskistofa getur svipt skip leyfi til veiða innan efnahagslögsögunnar brjóti útgerð, áhöfn skips­ins eða aðrir þeir er í þágu útgerðar starfa gegn lögum sem um hlutaðeigandi veiðar gilda, reglugerð þessari eða ákvæðum milliríkjasamninga.

 

10. gr.

Brot gegn ákvæðum reglugerðar þessarar varða viðurlögum samkvæmt ákvæðum laga nr. 22/1998, um veiðar og vinnslu erlendra skipa í fiskveiðilandhelgi Íslands.

 

11. gr.

Reglugerð þessi er sett samkvæmt ákvæðum laga nr. 22/1998, um veiðar og vinnslu erlendra skipa í fiskveiðilandhelgi Íslands. Reglugerðin öðlast þegar gildi. Jafnframt fellur úr gildi frá sama tíma reglugerð nr. 572/2021 um heimild færeyskra skipa til síldveiða við Ísland á árinu 2021.

 

Matvælaráðuneytinu, 8. mars 2022.

 

Svandís Svavarsdóttir.

Áslaug Eir Hólmgeirsdóttir.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica