Fara beint í efnið

Prentað þann 26. apríl 2024

Breytingareglugerð

97/2021

Reglugerð um breytingu á reglugerð nr. 870/2013 um söfnun gagna um framleiðslu, innflutning, geymslu og sölu á eldsneyti og eftirlit með orkuhlutdeild endurnýjanlegs eldsneytis í heildarsölu til samgangna á landi.

1. gr.

5. gr. reglugerðarinnar orðast svo:

Eftirtöldum gögnum ber söluaðilum eldsneytis að skila fyrir 1. mars ár hvert til Orkustofnunar vegna næstliðins almanaksárs:

  1. Sölutölum eldsneytis eftir notkunarflokkum, notkunarstað (innanlands, millilanda), tegund eldsneytis og uppruna, sem skilgreindir eru í leiðbeiningum Orkustofnunar. Gera skal grein fyrir óvissu í tölum.
  2. Upplýsingum um birgðastöðu í upphafi og við lok árs.
  3. Upplýsingum um rýrnun: Gera skal grein fyrir þeirri rýrnun sem orðið hefur á birgðum á því ári sem tölurnar ná til.
  4. Gögnum sem sýna fram á að sjálfbærniviðmið fyrir endurnýjanlegt eldsneyti sem notað er til samgangna á landi séu uppfyllt, sbr. 6. og 7. gr.

Eftirtöldum gögnum ber framleiðendum eldsneytis að skila fyrir 1. mars ár hvert til Orkustofnunar vegna næstliðins almanaksárs:

  1. Framleiðslutölum eldsneytis eftir notkunarflokkum, sem skilgreindir eru í leiðbeiningum Orkustofnunar.
  2. Hráefni sem notað er til framleiðslu eldsneytis, magn, tegund og uppruni.
  3. Framleiðslugetu og stofnár framleiðslueiningar eldsneytis.

Eftirfarandi gögnum ber söluaðilum eldsneytis að skila til Orkustofnunar fyrir 25. hvers mánaðar fyrir næstliðinn mánuð:

  1. Heildarsölu eldsneytis eftir tegund. Greina skal sérstaklega frá eldsneyti seldu til samgangna á landi og millilandanotkunar.
  2. Upplýsingum um innkaup, innflutning og birgðastöðu.
  3. Upplýsingum um rýrnun. Gera skal grein fyrir þeirri rýrnun sem orðið hefur á birgðum í þeim mánuði sem tölurnar ná til.

Upplýsingar um sölutölur, birgðir og rýrnun skulu gefnar í tonnum. Fyrir hverja eldsneytistegund skal jafnframt gefa upp eðlisþyngd í kílógrömmum á lítra, orkuinnihald í megajúlum á kílógramm og brennisteinsinnihald sem hlutfall af massa.

2. gr.

8. gr. reglugerðarinnar orðast svo:

Gögnum skal skilað til Orkustofnunar á því formi sem stofnunin ákveður. Sé gögnum ekki skilað innan tilgreinds frests skv. 5. gr. er Orkustofnun heimilt að leggja dagsektir á viðkomandi fyrirtæki eða stofnun. Dagsektir geta numið 10.000-100.000 kr. á dag. Ákvörðun um dagsektir skal tilkynnt bréflega á sannanlegan hátt þeim sem hún beinist að. Ákvarðanir um að leggja á dagsektir eru aðfararhæfar. Innheimtar dagsektir skulu renna í ríkissjóð að frádregnum kostnaði við innheimtuna.

3. gr.

10. gr. reglugerðarinnar orðast svo:

Orkustofnun skal gefa út yfirlit um heildarsölu eldsneytis og notkun endurnýjanlegs eldsneytis eigi síðar en fjórum mánuðum eftir að almanaksárinu lýkur.

4. gr.

Reglugerð þessi, sem sett er með stoð í 5. mgr. 2. gr. laga nr. 87/2003, um Orkustofnun, og 4. og 7. gr. laga nr. 40/2013, um endurnýjanlegt eldsneyti í samgöngum á landi, með síðari breytingum.

Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu, 8. janúar 2021.

F. h. ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra,

Ingvi Már Pálsson.

Erla Sigríður Gestsdóttir.

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.