Fara beint í efnið

Prentað þann 28. mars 2024

Stofnreglugerð

1250/2020

Reglugerð um endurnýjanlegt eldsneyti sem telur tvöfalt í markmiði laga nr. 40/2013, um endurnýjanlegt eldsneyti í samgöngum á landi, með síðari breytingum.

1. gr. Markmið.

Markmið reglugerðar þessarar er að kveða á um þær tegundir endurnýjanlegs eldsneytis sem telja má tvöfalt á við sama magn annars endurnýjanlegs eldsneytis til að uppfylla skilyrði 1. mgr. 3. gr. laga nr. 40/2013, um endurnýjanlegt eldsneyti í samgöngum á landi, með síðari breytingum.

2. gr. Skilgreiningar.

Í reglugerð þessari er merking eftirfarandi orða og orðasambanda sem hér segir:

  1. Endurnýjanlegt eldsneyti: Eldsneyti sem er unnið úr endurnýjanlegum orkugjöfum.
  2. Leifar: Hvers kyns efni eða hlutir sem verða afgangs að loknu framleiðsluferli, þegar meginmarkmið framleiðslunnar er ekki að framleiða viðkomandi efni eða hlut.
  3. Lífeldsneyti: Endurnýjanlegt eldsneyti, í formi vökva eða gass, sem er unnið úr lífmassa.
  4. Lífmassi: Lífbrjótanlegur hluti afurða. Úrgangur og leifar af lífrænum uppruna frá landbúnaði, skógrækt og tengdum iðnaði, fiskveiðum og fiskeldi ásamt lífrænum hluta úrgangs frá iðnaði og heimilum.
  5. Losun gróðurhúsalofttegunda: Það magn gróðurhúsalofttegunda sem losnar í andrúmsloftið á lífsferli eldsneytis frá framleiðslu til og með notkun.
  6. Úrgangur: Hvers kyns efni eða hlutir sem einstaklingar eða lögaðilar ákveða að losa sig við eða er gert að losa sig við á tiltekinn hátt.

3. gr.

Endurnýjanlegt eldsneyti með tvöfalt vægi.

A-hluti. Hráefni og eldsneyti hvers orkuinnihald má telja tvöfalt skv. 3. gr. laga nr. 40/2013:

  1. Þörungar, ef þeir eru ræktaðir á landi í tjörnum eða í ljósræktunartönkum (e. photobioreactor).
  2. Lífmassahluti úr blönduðum heimilis- og rekstrarúrgangi en ekki flokkuðu húsasorpi sem fellur undir endurvinnslumarkmið skv. a-lið 2. mgr. 11. gr. tilskipunar 2008/98/EB um úrgang og um niðurfellingu tiltekinna tilskipana.
  3. Lífúrgangur, eins og hann er skilgreindur í 4. mgr. 3. gr. tilskipunar 2008/98/EB, frá einkaheimilum með fyrirvara um sérstaka söfnun eins og skilgreint er í 11. mgr. 3. gr. þeirrar tilskipunar.
  4. Lífmassahluti úr iðnaðarúrgangi, sem er ekki hæfur til notkunar í matvæla- eða fóðurferli, þ.m.t. efni úr heildsölu- og smásöluiðnaði, efni sem fellur til í matvælaiðnaði, í landbúnaði, í fiskvinnslustöðvum og í lagareldisiðnaði, að undanskildum hráefnum sem eru talin upp í B‑hluta þessarar greinar.
  5. Hálmur.
  6. Húsdýraáburður og skólpeðja.
  7. Frárennsli frá pálmaolíuverksmiðjum og tómir klasar olíupálmaaldina.
  8. Furuolíubik.
  9. Óunnið glýserín.
  10. Kraminn sykurreyr.
  11. Þrúguhrat og víndreggjar.
  12. Hnetuskurn.
  13. Klíð.
  14. Kólfar sem búið er að hreinsa maískorn af.
  15. Lífmassahluti úr úrgangi og leifar úr skógrækt og iðnaði sem byggir á skógafurðum, t.d. börkur, greinar, grisjaður viður sem ekki hefur verið settur í sölu, lauf, nálar, trjátoppar, sag, spænir, svartlútur, brúnlútur, trefjaeðja, lignín og furuolía.
  16. Önnur sellulósaefni sem eru ekki matvæli, eins og skilgreint er í s-lið annarrar málsgreinar 2. gr. tilskipunar 2015/1513/ESB um breytingu á tilskipun 98/70/EB um gæði bensíns og dísileldsneytis og um breytingu á tilskipun 2009/28/EB um að auka notkun orku frá endurnýjanlegum orkugjöfum.
  17. Annað lignósellulósaefni eins og skilgreint er í r-lið annarrar málsgreinar 2. gr. tilskipunar 2015/1513/ESB, að undanskildum sögunar- og spónabolum.
  18. Endurnýjanlegt fljótandi og loftkennt flutningaeldsneyti af ólífrænum uppruna.
  19. Kolefnisföngun og notkun til flutninga, ef orkugjafinn er endurnýjanlegur í samræmi við a-lið annarrar málsgreinar 2. gr. tilskipunar 2015/1513/ESB.
  20. Bakteríur, ef orkugjafinn er endurnýjanlegur í samræmi við a-lið annarrar málsgreinar 2. gr. tilskipunar 2015/1513/ESB.

B-hluti. Hráefni hvers orkuinnihald má telja tvöfalt skv. 3. gr. laga nr. 40/2013:

  1. Notuð olía til matargerðar.
  2. Dýrafita sem flokkast í 1. og 2. flokk í samræmi við reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 1069/2009 um heilbrigðisreglur að því er varðar aukaafurðir úr dýrum og afleiddar afurðir sem ekki eru ætlaðar til manneldis og um niðurfellingu á reglugerð (EB) nr. 1774/2002 (reglugerð um aukaafurðir úr dýrum).

4. gr. Raforka.

Til að ná markmiðum 3. gr. laga, nr. 40/2013, má telja tvöfalt orkuinnihald raforku sem framleidd er með endurnýjanlegum orkugjöfum og nýtt er til hleðslu raf- og tengiltvinnbíla til nota í samgöngum á landi.

5. gr. Gildistaka.

Reglugerð þessi, sem sett er með stoð í 2. mgr. 3. gr. laga nr. 40/2013 um endurnýjanlegt eldsneyti í samgöngum á landi, öðlast þegar gildi.

Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu, 30. nóvember 2020.

F. h. ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra,

Ingvi Már Pálsson.

Erla Sigríður Gestsdóttir.

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.