Leita
Hreinsa Um leit

Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti

611/2020

Reglugerð um breytingu á reglugerð um framkvæmd raforkulaga nr. 1040/2005, með síðari breytingum.

1. gr.

6. mgr. 15. gr. reglugerðarinnar orðist svo:

Flutningsfyrirtækið skal skilgreina gjald fyrir tengingu við flutningskerfið, sbr. gr. 16a, 16b og 16c. Einnig skal flutningsfyrirtækið skilgreina gjald fyrir innmötun annars vegar og úttekt hins vegar á sérhverjum afhendingarstað flutningskerfisins. Sama gjaldskrá skal gilda fyrir innmötun og úttekt á öllum afhendingarstöðum.

 

2. gr.

1. tl. 1. mgr. 16. gr. b. reglugerðarinnar orðist svo:

Ákvörðun Orkustofnunar um leyfða arðsemi flutningsfyrirtækisins, sbr. reglugerð um mat á vegnum fjármagnskostnaði sem viðmið um leyfða arðsemi við ákvörðun tekjumarka sérleyfis­fyrirtækja í flutningi og dreifingu á raforku nr. 192/2016 með síðari breytingum, er eftir skatt, þegar útreikn­ingur er gerður. Ef um er að ræða tengingu við virkjun, skal miða við bæði veginn fjármagns­kostnað vegna flutnings til dreifiveitna og veginn fjármagnskostnað vegna flutnings til stórnotenda, þar sem tekið er mið af hlutfallslegri skiptingu tekna þar sem horft er til orkuflutnings til dreifiveitna annars vegar og stórnotenda hins vegar á undangengnu ári. Ef um er að ræða tengingu við stór­notanda skal taka mið af vegnum fjármagnskostnaði vegna flutnings til stórnotenda.

 

3. gr.

Reglugerð þessi er sett með stoð í 10. mgr. 9. gr., 11. mgr. 12. gr. a og 1. mgr. 45. gr. raforku­laga nr. 65/2003, með síðari breytingum og öðlast þegar gildi.

 

Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu, 4. júní 2020.

F. h. ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra,

Ingvi Már Pálsson.

Erla Sigríður Gestsdóttir.
Þetta vefsvæði byggir á Eplica