Fara beint í efnið

Prentað þann 28. mars 2024

Stofnreglugerð

364/2019

Reglugerð um veiðar úr úthafskarfastofnum árið 2019.

1. gr.

Reglugerð þessi tekur til flotvörpuveiða íslenskra skipa vestan 22. gráðu vestlægrar lengdar úr úthafskarfastofnum á samningssvæði Norðaustur-Atlantshafsfiskveiðinefndarinnar (NEAFC), utan þeirra svæða sem falla undir fiskveiðilögsögu samningsaðila og innan fiskveiðilandhelgi Grænlands, í samræmi við samning þjóðanna þess efnis. Ennfremur tekur reglugerð þessi til úthafskarfaveiða fiskiskipa, sem leyfi hafa til veiða í fiskveiðilandhelgi Íslands, er þau stunda veiðar á úthafskarfa með flotvörpu utan línu, sem dregin er milli eftirgreindra punkta:

  1. 64°17´N - 30°23´V (við miðlínu milli Íslands og Grænlands).
  2. 64°45´N - 28°30´V
  3. 62°50´N - 25°45´V
  4. 61°55´N - 26°45´V
  5. 61°00´N - 26°30´V
  6. 60°48´N - 26°51´V (við lögsögumörk á Reykjaneshrygg).

Þá tekur reglugerðin til veiða á úthafskarfa sem veiddur er á svæðum 1f, 2g, 2h, 2j og 3k á samningssvæði Norðvestur-Atlantshafsfiskveiðistofnunarinnar, NAFO. Á árinu 2019 eru veiðar á úthafskarfa óheimilar á samningssvæði Norðvestur-Atlantshafsfiskveiðistofnunarinnar.

2. gr.

Íslenskum fiskiskipum er óheimilt að stunda flotvörpuveiðar á úthafskarfa skv. 1. gr. án sérstaks leyfis Fiskistofu.

Aðeins er þeim íslenskum fiskiskipum heimilt að stunda veiðar á úthafskarfa í flotvörpu, sem hafa aflamark í úthafskarfa, sbr. 3. og 4. gr.

3. gr.

Fyrir tímabilið 10. maí 2019 til 31. desember 2019 er leyfilegur heildarafli sem hér segir:

A B C
Lestir Lestir Lestir
1.861 99 1.762

Skýringar á töflu:

  1. Leyfilegur heildarafli.
  2. Skerðing skv. 3. mgr. 8. gr. laga nr. 116/2006 (5,3%).
  3. Fiskistofa úthlutar til skipa á grundvelli aflahlutdeildar.

Veiðar á úthafskarfa eru heimilar frá og með 10. maí og eru einungis leyfðar innan svæðis sem markast af eftirfarandi punktum:

  1. 64°45´N - 28°30´V
  2. 62°50´N - 25°45´V
  3. 61°55´N - 26°45´V
  4. 61°00´N - 26°30´V
  5. 59°00´N - 30°00´V
  6. 59°00´N - 34°00´V
  7. 61°30´N - 34°00´V
  8. 62°50´N - 36°00´V
  9. 64°45´N - 28°30´V

Á grundvelli aflahlutdeildar í úthafskarfa skal Fiskistofa úthluta hverju skipi aflamarki, eins og skilgreint er í 1. mgr. þessarar greinar.

4. gr.

Heimilt er að framselja aflahlutdeild og aflamark milli íslenskra fiskiskipa, samkvæmt þeim reglum, sem almennt gilda um framsal aflahlutdeildar og aflamarks samkvæmt lögum nr. 116/2006 um stjórn fiskveiða.

Ákvæði 11. gr. laga nr. 116/2006 um stjórn fiskveiða, gilda ekki um aflamark sem úthlutað er í úthafskarfa samkvæmt þessari reglugerð. Þó er heimilt að flytja allt að 5% af aflamarki úthafskarfa frá einu fiskveiðiári yfir á það næsta. Þá er heimilt að veiða 5% umfram aflamark í úthafskarfa, enda dregst sá umframafli frá við úthlutun aflamarks næsta fiskveiðiárs á eftir.

5. gr.

Aðeins er þeim íslenskum fiskiskipum heimilt að stunda veiðar á samningssvæði NEAFC sem búin eru fjarskiptabúnaði sem sendir upplýsingar með sjálfvirkum hætti til sameiginlegrar eftirlitsstöðvar Landhelgisgæslu Íslands og Fiskistofu, hér eftir nefnd Eftirlitsstöðin, um staðsetningu, stefnu og hraða viðkomandi skips á klukkustundar fresti. Óheimilt er að halda úr höfn til veiða fyrr en starfsmenn Eftirlitsstöðvarinnar hafa staðfest til skipstjóra að ofangreindur búnaður starfi eðlilega.

Ef búnaður til sjálfvirkra sendinga, sbr. 1. mgr., bilar, skal gert við hann við komu í næstu höfn. Þar til búnaðinum verður komið í lag, skal senda á annan hátt upplýsingar um staðsetningu, stefnu og hraða skipsins á 4 klukkustunda fresti til Eftirlitsstöðvarinnar.

6. gr.

Um tilkynningar við úthafskarfaveiðar skv. þessari reglugerð, bæði innan íslensku lögsögunnar og á alþjóðlegu hafsvæði, gilda ákvæði reglugerðar nr. 432/2017, um veiðieftirlit á samningssvæði Norðaustur-Atlantshafsfiskveiðinefndarinnar (NEAFC).

7. gr.

Stundi skip úthafskarfaveiðar og almennar togveiðar í lögsögu Íslands í sömu veiðiferð skal halda úthafskarfa aðgreindum frá öðrum afla um borð í veiðiskipi og skal hann veginn og skráður sérstaklega við löndun.

Er afli reiknast til aflamarks skal miðað við 94% nýtingu sé úthafskarfa landað slægðum með haus, 59% nýtingu sé úthafskarfa landað hausskornum, 30% nýtingu sé honum landað flökuðum með roði og beinum, 27% nýtingu sé honum landað flökuðum, roðlausum með beinum.

Þegar úthafskarfi er reiknaður til þorskígilda skal miðað við verðmætastuðulinn 0,83.

8. gr.

Skipstjóri skal, svo fljótt sem verða má eftir að veiðum lýkur og eigi síðar en 4 klukkustundum eftir að komið er til hafnar, senda Fiskistofu skýrslu um áætlaðan úthafskarfaafla í viðkomandi veiðiferð á því formi sem Fiskistofa ákveður. Í skýrslunni skal koma fram úthafskarfaafli skipsins miðað við afla upp úr sjó sundurliðaður eftir afla innan fiskveiðilandhelgi Íslands, afla á alþjóðlegu hafsvæði og afla innan fiskveiðilandhelgi Grænlands.

Sýni skulu tekin úr afla, a.m.k. tvö í hverri veiðiferð, og skal skrá sýnatökuna í afladagbók skipsins. Í hverju sýni skulu að lágmarki vera 50 til 100 fiskar sem valdir eru af handahófi. Ef togað er á mismunandi dýpi í veiðiferðinni er æskilegt að fá sýni frá mismunandi dýpi. Sýnin skulu fryst um borð, rækilega merkt (staður, dagsetning og dýpi) og send Hafrannsóknastofnun í Reykjavík eða útibúum stofnunarinnar að lokinni veiðiferð.

9. gr.

Brot á reglugerð þessari og ákvæðum leyfisbréfa gefnum út á grundvelli hennar, skulu varða viðurlögum samkvæmt lögum nr. 151/1996, um fiskveiðar utan lögsögu Íslands, lögum nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða, lögum nr. 57/1996, um umgengni um nytjastofna sjávar og lögum nr. 79/1997, um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands.

10. gr.

Reglugerð þessi er sett samkvæmt lögum nr. 151/1996, um fiskveiðar utan lögsögu Íslands, lögum nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða, lögum nr. 57/1996, um umgengni um nytjastofna sjávar og lögum nr. 79/1997, um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands. Reglugerðin tekur þegar gildi. Jafnframt fellur úr gildi reglugerð nr. 1106/2017, um veiðar úr úthafskarfastofnum 2018.

Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu, 17. apríl 2019.

Kristján Þór Júlíusson
sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra.

Jóhann Guðmundsson.

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.