Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti

1211/2018

Reglugerð um togveiðar á kolmunna árið 2019. - Brottfallin

1. gr.

Reglugerð þessi tekur til flotvörpuveiða íslenskra skipa á kolmunna í fiskveiðilögsögu Íslands og á veiðistjórnunarsvæði Norðaustur-Atlantshafsfiskveiðinefndarinnar (NEAFC).

Fyrir tímabilið 1. janúar 2019 til 31. desember 2019 er leyfilegur heildarafli sem hér segir (magn í lestum): 

A B C D
241.000 12.773 1.500 226.727
 1. Leyfilegur heildarafli.
 2. Skerðing skv. 3. mgr. 8. gr. laga nr. 116/2006 (5,3%).
 3. Skerðing vegna framsals til Rússlands.
 4. Fiskistofa úthlutar til skipa á grundvelli aflahlutdeildar.

Heimilt er hverju skipi að veiða allt að 10% umfram aflamark í kolmunna á árinu 2019 og dregst sá umframafli frá aflamarki þess á árinu 2020. Þá er heimilt að flytja allt að 10% af ónýttu aflamarki fiskiskips frá árinu 2019 til ársins 2020. Flutningsheimildir samkvæmt þessari grein eiga einnig við um aflaheimildir sem skip fá úthlutað af aflamagni sem dregið er frá upphaflegri úthlutun sam­kvæmt B-lið 2. mgr. 1. gr. reglugerðarinnar.

2. gr.

Íslenskum fiskiskipum er óheimilt að stunda flotvörpuveiðar á kolmunna skv. 1. gr. án sérstaks leyfis Fiskistofu. Aðeins er þeim íslenskum fiskiskipum heimilt að stunda flotvörpuveiðar á kol­munna, sem hafa aflamark í kolmunna.

3. gr.

Óheimilt er að stunda kolmunnaveiðar með flotvörpu vestan 20°30´ V og innan línu fyrir Suður- og Austurlandi sem dregin er milli eftirgreindra punkta:

 1. 63°05,90´ N - 020°30,00´ V
 2. 63°11,40´ N - 019°07,30´ V
 3. 63°07,50´ N - 018°38,00´ V
 4. 63°09,00´ N - 018°27,00´ V
 5. 63°07,00´ N - 018°02,00´ V
 6. 63°12,50´ N - 017°00,00´ V
 7. 63°20,00´ N - 016°03,00´ V
 8. 63°22,50´ N - 015°51,00´ V
 9. 63°26,00´ N - 015°29,00´ V
 10. 63°30,70´ N - 015°00,00´ V
 11. 63°33,60´ N - 014°41,70´ V
 12. 63°43,40´ N - 013°53,00´ V
 13. 64°00,00´ N - 013°07,00´ V
 14. 64°21,70´ N - 012°17,30´ V
 15. 64°32,30´ N - 011°41,00´ V
 16. 65°00,00´ N - 011°28,00´ V
 17. 65°27,00´ N - 011°24,00´ V
 18. 66°06,00´ N - 011°33,00´ V
 19. 66°42,00´ N - 012°50,00´ V

og þaðan í rv. 305° að mörkum fiskveiðilögsögunnar. Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. eru kolmunna­veiðar heimilar innan íslenskrar lögsögu vestan 27°30´ V.

4. gr.

Íslenskum skipum sem leyfi hafa fengið til kolmunnaveiða með flotvörpu er skylt að halda afla­dagbækur um veiðarnar, sbr. reglugerð nr. 746/2016, um afladagbækur. Þar skulu m.a. koma fram upplýsingar um veiðisvæði, veiðitíma og afla í hverju togi. Skal Fiskistofu sent afrit af afla­dagbók­unum eigi síðar en 14 dögum eftir hver mánaðamót eða eftir að veiðum lýkur.

Þegar kolmunni er reiknaður til þorskígilda skal miðað við verðmætastuðulinn 0,08.

5. gr.

Kolmunnasýni skulu tekin úr afla, a.m.k. eitt í hverri veiðiferð og skal skrá sýnatökuna í afladagbók skipsins. Í hverju sýni skulu vera 50 til 100 stykki af kolmunna sem valin eru af handahófi. Sýnin skulu fryst um borð, rækilega merkt (staður, dagsetning og dýpi) og send Hafrannsóknastofnun, rannsókna- og ráðgjafarstofnun hafs og vatna, í Reykjavík eða útibúum stofnunarinnar að lokinni veiðiferð.

6. gr.

Aðeins er þeim íslenskum fiskiskipum heimilt að stunda kolmunnaveiðar í flotvörpu sem búin eru fjarskiptabúnaði sem sendir upplýsingar með sjálfvirkum hætti til sameiginlegrar eftirlitsstöðvar Landhelgisgæslu Íslands og Fiskistofu, hér eftir nefnd Eftirlitsstöðin, um staðsetningu, stefnu og hraða viðkomandi skips á klukkustundar fresti. Óheimilt er að halda úr höfn til veiða fyrr en starfs­menn Eftirlitsstöðvarinnar hafa staðfest við skipstjóra að ofangreindur búnaður starfi eðlilega.

Ef búnaður til sjálfvirkra sendinga, sbr. 1. mgr., bilar, skal gert við hann við komu í næstu höfn. Þar til búnaðinum verður komið í lag, skal senda á annan hátt upplýsingar um staðsetningu, stefnu og hraða skipsins á 4 klukkustunda fresti til Eftirlitsstöðvarinnar.

7. gr.

Um tilkynningar við kolmunnaveiðar á alþjóðlegu hafsvæði gilda ákvæði reglugerðar nr. 285/2014, um veiðieftirlit á veiðistjórnunarsvæði Norðaustur-Atlantshafsfiskveiðinefndarinnar (NEAFC), með síðari breytingum.

8. gr.

Eftir að skip hættir veiðum, og í síðasta lagi fjórum klukkustundum áður en áætlað er að það komi til hafnar, skal skipstjóri senda Fiskistofu tilkynningu á því formi sem Fiskistofa ákveður um áætlaðan afla skipsins, fyrirhugaðan löndunarstað og fyrirhugaðan löndunartíma. Heimilt er að víkja frá lágmarkstíma, t.d. ef fjarlægð milli fiskimiða og löndunarhafnar gefur tilefni til þess, enda sé þá tilkynning send um leið og veiðum er hætt.

9. gr.

Kolmunnaafla skal landað og hann veginn í íslenskri höfn. Heimilt er þó með leyfi Fiskistofu að landa kolmunnaafla og kolmunnaafurðum í höfnum erlendis enda sé tryggt að eftirlit með vigtun aflans sé fullnægjandi að mati Fiskistofu. Jafnframt er heimilt að fengnu leyfi Fiskistofu að landa óvigtuðum kolmunna um borð í vinnsluskip og flutningaskip, enda sé tryggt að skráning og vigtun afla sé fullnægjandi að mati Fiskistofu. Sækja skal um leyfi til löndunar kolmunna utan íslenskra hafna til Fiskistofu og skal skipstjóri tilgreina í umsókn nákvæmlega hvar hann hyggst landa afl­anum og áætla magn kolmunna. Sé landað erlendis þarf jafnframt að tilkynna þar til bæru yfir­valdi í viðkomandi ríki um komu skips til hafnar innan tiltekins frests sem ákveðinn er af hafn­ríkinu. Tilkynningar skal senda með rafrænum hætti á heimasíðu NEAFC, https://psc.neafc.org. Frekari upp­lýsingar má finna á slóðinni https://psc.neafc.org/designated-contacts. Þegar að löndun lokinni skal skipstjóri veiðiskips senda Fiskistofu endanlegar tölur um landaðan afla og afla­verðmæti, staðfestar af móttakanda kolmunnans eða staðfest afrit af vigtarnótu, liggi það fyrir. Um vigtun á kolmunna gilda að öðru leyti ákvæði reglugerðar um vigtun sjávarafla, þó þannig að draga skal frá 2% af afla hvers skips vegna vatnsinnihalds í kolmunna miðað við afla upp úr sjó og reiknast það magn ekki til aflaheimilda þess.

10. gr.

Brot á reglugerð þessari varða viðurlögum samkvæmt ákvæðum laga nr. 151/1996, um fiskveiðar utan lögsögu Íslands, með síðari breytingum, laga nr. 57/1996, um umgengni um nytjastofna sjávar, með síðari breytingum og laga nr. 79/1997, um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands, með síðari breytingum og ákvæðum laga nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða, með síðari breytingum.

Vegna afla umfram leyfilegt hámark skal beita ákvæðum laga nr. 37/1992, um sérstakt gjald vegna ólögmæts sjávarafla. Jafnframt er Fiskistofu heimilt að svipta skip leyfi til kolmunnaveiða vegna brota á reglugerð þessari.

11. gr.

Reglugerð þessi er sett samkvæmt ákvæðum laga nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða, með síðari breytingum, laga nr. 79/1997, um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands, með síðari breytingum, laga nr. 57/1996, um umgengni um nytjastofna sjávar, með síðari breytingum og laga nr. 151/1996, um fiskveiðar utan lögsögu Íslands, með síðari breytingum. Reglugerðin öðlast þegar gildi. Jafnf­ramt fellur úr gildi frá sama tíma reglugerð nr. 115/2018, um togveiðar á kolmunna 2018.

Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu, 19. desember 2018.

Kristján Þór Júlíusson
sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra.

Jóhann Guðmundsson.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica