Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti

1156/2018

Reglugerð um Umhverfissjóð sjókvíaeldis. - Brottfallin

1. gr.

Umhverfissjóður sjókvíaeldis.

Umhverfissjóður sjókvíaeldis starfar á grundvelli laga nr. 71/2008, um fiskeldi, með síðari breyt­ingum og er sjálfstæður sjóður í eigu ríkisins á forræði sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra.

Í reglugerð þessari þar sem vísað er til sjóðsins er átt við Umhverfissjóð sjókvíaeldis.

2. gr.

Markmið.

Markmið sjóðsins er að lágmarka umhverfisáhrif sjókvíaeldis.

3. gr.

Hlutverk sjóðsins.

Með sjóðnum skal greiða kostnað við rannsóknir vegna burðarþolsmats, vöktunar og annarra verkefna sem stjórn sjóðsins ákveður. Jafnframt er heimilt að veita veiðiréttarhöfum styrki úr sjóðnum til að mæta þeim kostnaði eða tekjumissi sem þeir hafa orðið fyrir vegna tjóns sem er ekki hægt að rekja til ákveðinnar eldisstöðvar.

4. gr.

Stjórn sjóðsins.

Sjóðurinn lýtur fjögurra manna stjórn sem sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra skipar til fjögurra ára í senn. Einn stjórnarmaður skal skipaður samkvæmt tilnefningu Landssambands fiskeldisstöðva, einn samkvæmt tilnefningu Landssambands veiðifélaga og einn samkvæmt tilnefningu ráðherra sem fer með umhverfismál. Ráðherra skal skipa formann stjórnar sjóðsins án tilnefningar og skal atkvæði hans ráða úrslitum ef atkvæði falla jafnt. Varamenn skal skipa með sama hætti.

5. gr.

Verkefni stjórnar.

Stjórn sjóðsins hefur yfirumsjón með starfsemi hans í samræmi við lög nr. 71/2008, um fiskeldi og ákvæði þessarar reglugerðar. Verkefni stjórnar eru að:

  1. skila ársreikningum og reglulegu yfirliti um starfsemi sjóðsins til ráðherra,
  2. taka ákvarðanir um forgangsröðun verkefna og greiðslur úr sjóðnum,
  3. taka ákvarðanir um ávöxtun eigin fjár,
  4. tryggja að upplýsingar og gögn sem unnin eru á vegum sjóðsins séu aðgengileg.

6. gr.

Ráðstöfunarfé.

Ráðstöfunarfé sjóðsins er:

  1. innheimt árgjald af rekstrarleyfishöfum sjókvíaeldis,
  2. arður af eigin fé.

7. gr.

Árgjald.

Rekstrarleyfishafi sjókvíaeldis skal greiða árlegt gjald að upphæð 12 SDR fyrir hvert tonn sem heimilt er að framleiða samkvæmt rekstrarleyfi og rennur það óskipt til Umhverfissjóðs sjókvíaeldis.

8. gr.

Álagning og innheimta árgjalds.

Matvælastofnun annast álagningu og innheimtu árgjalds skv. 7. gr. Ráðherra er þó heimilt að fela innheimtumönnum ríkissjóðs eða öðrum aðilum innheimtu þess.

Eigi síðar en 30. ágúst ár hvert skal Matvælastofnun hafa lokið álagningu á gjaldendur skv. 1. mgr. og skal gjaldendum tilkynnt bréflega um hana.

Gjöld skv. 1. mgr. vegna yfirstandandi almanaksárs falla í gjalddaga 1. október ár hvert. Ef gjöld eru ekki greidd innan 30 daga frá gjalddaga skal greiða dráttarvexti af þeim skv. III. kafla laga um vexti og verðtryggingu. Álagning gjalds eða úrskurður um gjaldtöku eru aðfararhæfar ákvarðanir. Matvælastofnun getur krafist fullnustu með aðfarargerð þegar liðnir eru 30 dagar frá gjalddaga.

9. gr.

Styrkir.

Sjóðurinn veitir styrki samkvæmt ákvörðunum stjórnar sjóðsins sem teknar eru í samræmi við ákvæði þessarar reglugerðar.

Styrkir sjóðsins eru ætlaðir stofnunum, fiskeldisfyrirtækjum og öðrum einstaklingum og lögaðilum.

Sjóðurinn gerir kröfu um að fyrir liggi verk- og fjárhagsáætlun verkefnisins eða verkhlutans, sem sótt er um styrk til.

Styrkir eru veittir til eins árs í senn. Verkefni geta þó tekið lengri tíma eða allt að þremur árum. Umsækjendur verða í upphafi að gera grein fyrir því hvort líklegt sé að sótt verði um fram­halds­styrki og sýna þá verk- og fjárhagsáætlanir sem ná til verkefnisins í heild. Komi til þess verður árlega að sækja um styrki og gera grein fyrir framvindu verkefnisins með umsókninni.

10. gr.

Umsóknir.

Auglýsa skal a.m.k. árlega eftir umsóknum um úthlutun styrkja, í fjölmiðlum og á vef sjóðsins. Til­greina skal umsóknarfrest og hvaða gögn skuli leggja fram með umsóknum hverju sinni. Í aug­lýs­ingu skal gera grein fyrir þeim verkefnum sem stjórn sjóðsins hyggst forgangsraða í tengslum við sérhverja úthlutun.

Umsóknir um styrki úr sjóðnum skal senda stjórn sjóðsins fyrir lok umsóknarfrests sem stjórn sjóðsins ákveður ár hvert.

11. gr.

Mat á umsóknum.

Stjórn sjóðsins leggur faglegt mat á umsóknir, forgangsraðar verkefnum og ákveður styrkfjárhæðir. Við ákvörðun um styrki skal m.a. haft til hliðsjónar framlag umsækjanda til verkefnisins, þ.e. fjárhagslegt, vísindalegt og tæknilegt framlag.

Við mat á umsóknum skal lögð áhersla á gæði verkefna, hæfni umsækjenda til að leysa verkefnin, þekkingu, reynslu, aðstöðu og raunhæfni áætlana. Einnig skal litið til samstarfs við fagaðila þegar ákvörðun er tekin um styrkveitingu og horft til þess hvort verkefnin séu í samræmi við markmið sjóðsins, sbr. 2. gr. Stjórn sjóðsins getur óskað eftir frekari upplýsingum frá umsækjendum ef þörf er á. Stjórn sjóðsins getur jafnframt leitað umsagna og upplýsinga frá opinberum aðilum varðandi tilteknar umsóknir sem og sérfræðiþjónustu utanaðkomandi sérfræðinga á sviði fiskeldis og líffræði við mat á umsóknum.

Verkefnum skal forgangsraðað í samræmi við hlutverk sjóðsins og áherslur stjórnar hans hverju sinni.

12. gr.

Ákvarðanir um úthlutun.

Ákvarðanir um styrki úr sjóðnum eru teknar af stjórn sjóðsins. Um málsmeðferð við ákvarðanir um veitingu styrkja gilda ákvæði stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Ákvarðanir um styrkveitingar skulu byggðar á niðurstöðu faglegs mats á umsóknum, sbr. 11. gr. og með hliðsjón af þeim markmiðum sem sett hafa verið sjóðnum, sbr. 2. gr. og 20. gr. a laga nr. 71/2008, um fiskeldi.

13. gr.

Framkvæmd úthlutunar og eftirfylgni - takmörkun á heimild til framsals.

Stjórn sjóðsins skal gera skriflegan samning við styrkþega um fyrirkomulag varðandi úthlutun styrks.

Þegar styrkveiting hefur verið ákveðin og gengið hefur verið frá samningi við styrkþega eru 65% af styrkupphæðinni greiddar út. Eftirstöðvarnar eru greiddar þegar verkefnið hefur verið unnið að fullu og lokaskýrsla um verkefnið liggur fyrir.

Stjórn sjóðsins skal tryggja að styrkþegi sýni fram á að fjármögnun verkefnisins sé í samræmi við umsókn áður en til greiðslu styrks kemur.

Heimilt er að krefjast endurgreiðslu útgreiddra styrkja eða styrkhluta verði verulegur, óútskýrður dráttur á framvindu verkefnis eða lokaskýrslu.

Stjórn sjóðsins skal hafa eftirlit með framvindu verkefna sem og viðhafa eftirfylgni með þeim verkefnum sem sjóðurinn hefur styrkt. Styrkþegar skulu senda stjórn sjóðsins upplýsingar um stöðu verkefna á a.m.k. 6 mánaða fresti og skila lokaskýrslu til stjórnar sjóðsins við lok verkefnis. Einnig getur stjórn sjóðsins yfirfarið verkefni og kallað eftir upplýsingum þegar hún telur ástæðu til.

Stjórn sjóðsins er heimilt að nýta sérfræðiþjónustu utanaðkomandi sérfræðinga á sviði fiskeldis og líffræði við eftirfylgni með verkefnum.

Óheimilt er að framselja styrki sem veittir eru úr sjóðnum nema að fengnu skriflegu leyfi stjórnar sjóðsins.

14. gr.

Meðferð og birting upplýsinga um styrkveitingar.

Sjóðurinn upplýsir á vef sínum: www.umsj.isum styrki sem sjóðurinn veitir, þar sem fram komi upplýsingar um nafn viðtakanda, fjárhæð styrkja og heiti verkefnis og markmið. Aðrar upplýsingar í umsóknum er varða fjárhag eða viðskiptahagsmuni umsækjenda og annarra einstaklinga og lögaðila er tengjast verkefnum á vegum sjóðsins skulu meðhöndlaðar sem trúnaðarmál að því marki sem lög takmarka ekki.

15. gr.

Kostnaður.

Allur kostnaður af starfsemi Umhverfissjóðs sjókvíaeldis greiðist af sjóðnum.

16. gr.

Gildistaka.

Reglugerð þessi er sett samkvæmt heimild í lögum nr. 71/2008, um fiskeldi, með síðari breytingum og öðlast þegar gildi.

Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu, 13. desember 2018.

Kristján Þór Júlíusson
sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra.

Jóhann Guðmundsson.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica