Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti

432/2018

Reglugerð um (6.) breytingu á reglugerð nr. 543/2002, um möskvastærðir og útbúnað varpna til veiða á botnfiski, rækju og humri.

1. gr.

4. gr. reglugerðarinnar orðast svo:

Lágmarksmöskvastærð rækjuvörpu skal vera 45 mm í vængjum aftur að fremsta netþaki (miðneti) en 36 mm í öðrum hlutum rækjuvörpunnar.

Við veiðar á rækju á eftirgreindum svæðum skal nota eitt af eftirtöldum veiðarfærum: net á legg í a.m.k. fjórum öftustu metrum vörpunnar, smárækjuskilju útbúinni samkvæmt reglum þar um eða þvernetspoka með fjórum byrðum felldan á línur.

  1. Innan viðmiðunarlínu á svæði frá Bjargtöngum norður og austur um Rauðanúp.
  2. Fyrir Suðvesturlandi sunnan 65°15´N og vestan 23°V.

Við veiðar á úthafsrækju fyrir Norðurlandi norðan 65°30´N, milli 12°V og 18°V, og sunnan 66°45´N, milli 18°V og 20°V, skal við rækjuveiðar nota net á legg í a.m.k. átta öftustu metrum vörpunnar eða smárækjuskilju samkvæmt reglum þar um. Lágmarksmöskvastærð leggpokans á þessu svæði skal vera a.m.k. 40 mm. Einnig er heimilt að nota í stað leggpoka eða smárækjuskilju þvernetspoka með fjórum byrðum felldan á línur.

Við notkun leggpoka eða þverpoka er heimilt að nota þrjá síðumöskva fyrir framan koll­línu­möskvana. Skal hver leggur leggpokans festur við eina upptöku vörpunnar.

2. gr.

Reglugerð þessi er sett samkvæmt ákvæðum laga nr. 79/1997, um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands og laga nr. 151/1996, um fiskveiðar utan lögsögu Íslands og öðlast þegar gildi.

Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu, 30. apríl 2018.

Kristján Þór Júlíusson
sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra.

Kristján Skarphéðinsson.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica