Leita
Hreinsa Um leit

Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti

1201/2016

Reglugerð um (1.) breytingu á reglugerð nr. 851/2012 um mjólkurvörur.

1. gr.

1. mgr. 2. gr. reglugerðarinnar orðast svo:

Mjólk: er samkvæmt reglugerð þessari kúamjólk sem fengin er við reglubundnar mjaltir og ætluð til manneldis. Úr mjólk, sem lögð er inn í mjólkurstöð, má ekkert taka og engu í bæta. Um kapla-, geita- og sauðamjólk skulu gilda sömu reglur og um mjólk í reglugerð þessari, sbr. þó 3. gr. Þessar vörur eru ásamt broddmjólk og geldmjólk nánar skilgreindar í viðauka I með reglugerðinni.

2. gr.

3. gr. reglugerðarinnar verður svohljóðandi:

Skylt er að taka sýni úr allri mjólk áður en að úrvinnslu hennar kemur.

Sýni til rannsókna úr kúamjólk skulu vera af kældri mjólk, sem tekin hafa verið úr kæligeymi mjólkur­framleiðanda. Séð skal til þess að sýnin berist rannsóknastofu eins fljótt og kostur er, að þau séu óskemmd og í þannig ástandi að gæðum mjólkurinnar sé rétt lýst.

Skylt er að taka sýni af kapla-, geita- og sauðamjólk í hvert skipti sem mjólkað er, merkja það með dagsetningu og auðkennisnúmeri framleiðanda og heimilt er að frysta það síðan við -18°C í sérstökum frysti á framleiðslustað. Sýni þessi skulu rannsökuð á viðurkenndri rannsóknastofu áður en mjólk frá viðkomandi dögum er notuð til framleiðslu á mjólkurvörum. Heimilt er að rannsaka öll sýni frá viðkomandi dögum, sem eitt sýni.

Heimilt er að safna kapla-, geita- og sauðamjólk í ný einnota ílát til frystingar við -18°C hjá frum­framleiðanda strax að mjöltum loknum til ostagerðar eða annarrar matvælaframleiðslu síðar meir. Merkja skal hvert ílát með dagsetningu og auðkennisnúmeri framleiðanda. Við úrvinnslu kapla-, geita- og sauðamjólkur gilda að öðru leyti sömu reglur og um kúamjólk.

Matvælastofnun hefur eftirlit með hrámjólk frá frum­framleiðendum og tekur reglulega sýni til skoð­unar.

Ef mjólk frá frumframleiðanda er lögð beint inn í vinnslustöð skulu sýni tekin þegar mjólkin er sótt frá frumframleiðanda að því tilskildu að gerðar séu ráðstafanir til að koma í veg fyrir misferli við flutning, eða áður en lagt er inn í vinnslustöðina ef bóndinn sjálfur leggur mjólkina þangað inn.

Ef niðurstöður eftirlits leiða til grunsemda um að vatni hafi verið bætt út í mjólkina skulu tekin lög­gilt sýni frá frumframleiðanda. Með löggiltu sýni er átt við sýni úr mjólk sem tekið er við morgun- og kvöldmjaltir undir eftirliti og hefjast minnst 11 klst. eða mest 13 klst. eftir síðustu mjaltir.

Ef mjólk er lögð inn frá nokkrum frumframleiðendum er heimilt að taka sýni þegar hrámjólkin kemur inn í vinnslustöðina eða söfnunar- eða stöðlunarstöðina, að því tilskildu þó að sýni hafi verið tekið hjá frumframleiðanda.

Ef niðurstöður sýna að farið sé yfir staðla skulu sýni tekin hjá öllum frumframleiðendum sem eiga hlut í hrámjólkinni sem um ræðir.

Ef niðurstöður eftirlits hrekja allan grun um að vatni hafi verið bætt út í mjólkina má nota hrá­mjólkina við framleiðslu á hitameðhöndlaðri mjólk.

3. gr.

Reglugerð þessi er sett með stoð í 18. gr. og 31. gr. a laga nr. 93/1995 um matvæli, með síðari breytingum og öðlast þegar gildi.

Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu, 14. desember 2016.

Gunnar Bragi Sveinsson
sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra.

Rebekka Hilmarsdóttir.
Þetta vefsvæði byggir á Eplica