1. gr.
Reglugerð þessi lýtur að framkvæmd samnings milli Íslands og Færeyja frá 20. mars 1976 með síðari breytingum, um heimildir færeyskra skipa til línu- og handfæraveiða við Ísland.
2. gr.
Veiðar færeyskra skipa í fiskveiðilandhelgi Íslands skulu háðar leyfum Fiskistofu og er færeyskum skipum óheimilt að hefja veiðar innan fiskveiðilandhelginnar nema að fengnu leyfi Fiskistofu.
Færeysk stjórnvöld skulu sækja um leyfi til Fiskistofu. Í umsókn skal tilgreina nafn skips, skrásetningarnúmer, stærð, kallmerki og veiðarfæri. Leyfisbréf og reglur um veiðar skulu geymdar um borð í viðkomandi fiskiskipi.
Leyfi til línu- og handfæraveiða í íslenskri fiskveiðilandhelgi, samkvæmt þessari reglugerð skulu miðast við árlegar veiðiheimildir færeyskra skipa og falla úr gildi þegar sameiginlegur afli skipanna hefur náð þeim leyfilega heildarafla sem færeyskum stjórnvöldum er árlega tilkynnt um. Aflatölur miðast við afla upp úr sjó.
3. gr.
Allar beinar veiðar á grálúðu og lúðu (hvítlúðu) eru óheimilar.
Við línuveiðar skal sleppa allri lúðu með því að skera á taum línunnar. Við handfæraveiðar skal varfærnislega losa lúðuna af krókum eða skera á lykkju slóðans áður en lúða kemur um borð.
Færeyskum skipum sem leyfi hafa fengið til handfæraveiða eru heimilar veiðar utan fjögurra sjómílna frá grunnlínu og utan 6 sjómílna frá Grímsey. Þó skulu handfæraveiðar heimilar að grunnlínu samkvæmt reglugerð um fiskveiðilandhelgi Íslands, á tveim svæðum sem afmarkast þannig:
Að vestan af línu réttvísandi norður frá grunnlínupunkti nr. 1 (Horni 66°27,4´ N – 22°24,3´ V) og að austan af línu réttvísandi norður frá grunnlínupunkti nr. 6 (Rauðanúpi 66°30,7´ N – 16°32,4´ V).
Að norðan af línu réttvísandi norðaustur frá grunnlínupunkti nr. 9 (Langanesi 66°22,7´ N – 14°31,9´ V) og að sunnan af línu réttvísandi austur frá grunnlínupunkti nr. 10 (Glettinganesi 65°30,5´ N – 13°36,3´V).
Á tímabilinu 1. janúar - 15. maí skulu handfæraveiðar þó bannaðar innan 12 sjómílna á svæði sem afmarkast að austan af línu réttvísandi suður frá grunnlínupunkti nr. 29 (Surtsey 63°17,6´ N – 20°36,3´ V) og að vestan af línu réttvísandi í vestur frá grunnlínupunkti nr. 32 (Skálasnaga 64°51,3´ N – 24°02,5´ V).
4. gr.
Færeyskum skipum sem leyfi hafa fengið til línuveiða eru heimilar veiðar utan 12 sjómílna frá grunnlínu, sbr. reglugerð um fiskveiðilandhelgi Íslands.
5. gr.
Skip skulu, á leið til veiðisvæðis, áður en veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands hefjast og á leið út úr fiskveiðilandhelgi Íslands, sigla um eina af eftirfarandi athugunarstöðvum:
Athugunarstöðvum, sbr. 1. mgr. verður breytt af hálfu Landhelgisgæslunnar ef þróun veiða gefur tilefni til. Slíka breytingu skal tilkynna sérstaklega til viðkomandi aðila.
Skip geta í samráði við og með samþykki Landhelgisgæslunnar, haldið til annarra athugunarstöðva eða íslenskrar hafnar í stað athugunarstöðvar, sbr. 1. mgr.
Óheimilt er að yfirgefa athugunarstöð áður en tilkynntur komutími er liðinn, sbr. 6., 8. og 10. gr., nema að fengnu samþykki Landhelgisgæslunnar.
6. gr.
Áður en skip kemur inn í fiskveiðilandhelgi Íslands skal tilkynna Landhelgisgæslunni um fyrirhugaðar veiðar og komutíma í athugunarstöð með minnst 2 klukkustunda fyrirvara og mest 6 klukkustunda fyrirvara. Í tilkynningunni komi eftirfarandi upplýsingar fram í þessari röð:
Orðið „komutilkynning“ (entry report).
Nafn skips.
Skráningarnúmer.
Kallmerki.
Dagsetning, tími og staðsetning í breidd og lengd þegar tilkynning er send.
Heildarafli um borð, sundurliðaður eftir tegundum.
Athugunarstöð sem siglt verður um, sbr. 5. gr., og fyrirhugaður komutími í athugunarstöðina.
Haldi skip til veiða úr íslenskri höfn skal það tilkynnt Landhelgisgæslunni á sama hátt og greint er í 1. mgr. Þó þarf ekki að tilgreina athugunarstöð.
7. gr.
Skip sem stundar veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands skal á hverjum degi á tímabilinu frá kl. 06.00 til 08.00 að íslenskum tíma, senda Landhelgisgæslunni tilkynningu þar sem eftirfarandi kemur fram í þessari röð:
Orðið „aflatilkynning“ (catch report).
Nafn skips.
Skráningarnúmer.
Kallmerki.
Dagsetning, tími og staðsetning í breidd og lengd þegar tilkynning er send.
Heildarafli um borð, sundurliðaður eftir tegundum.
Afli síðasta sólarhrings miðað við kl. 24.00 eða afli frá því skipið kom inn í fiskveiðilandhelgi Íslands sé um skemmri tíma að ræða, sundurliðaður eftir tegundum.
8. gr.
Þegar skip lýkur veiðum í fiskveiðilandhelgi Íslands skal það tilkynnt Landhelgisgæslunni. Í tilkynningunni komi eftirfarandi upplýsingar fram í þessari röð:
Orðið „lokatilkynning“ (exit report).
Nafn skips.
Skráningarnúmer.
Kallmerki.
Dagsetning, tími og staðsetning í breidd og lengd þegar tilkynning er send.
Heildarafli um borð, sundurliðaður eftir tegundum.
Afli síðan síðasta aflatilkynning var send, sundurliðaður eftir tegundum.
9. gr.
Áður en skip heldur út úr fiskveiðilandhelgi Íslands skal senda Landhelgisgæslunni tilkynningu um það og komutíma í athugunarstöð með minnst 2 klukkustunda fyrirvara og mest 6 klukkustunda fyrirvara. Í tilkynningunni komi eftirfarandi upplýsingar fram í þessari röð:
Orðið „athugunartilkynning“ (control report).
Nafn skips.
Skráningarnúmer.
Kallmerki.
Dagsetning, tími og staðsetning í breidd og lengd, þegar tilkynning er send.
Heildarafli um borð, sundurliðaður eftir tegundum.
Athugunarstöð sem siglt verður um, sbr. 5. gr. og fyrirhugaður komutími í athugunarstöð.
Landi skip afla sínum í íslenskri höfn skal tilkynna það Landhelgisgæslunni á sama hátt og greint er frá í 1. mgr. en í stað athugunarstöðvar verði greint frá löndunarhöfn.
10. gr.
Heimilt er að senda saman tilkynningu um lok veiða, sbr. 8. gr. og um komu í athugunarstöð, sbr. 9. gr. Við sendingu slíkrar tilkynningar eiga ákvæði 9. gr. við að öðru leyti en því að í stað orðsins „athugunartilkynning“ (control report), koma orðin „loka- og athugunartilkynning“ (exit and control report).
11. gr.
Tilkynningar samkvæmt 6.-10. gr. skal senda á íslensku eða ensku og skulu tímasetningar vera samkvæmt íslenskum tíma (UTC).
12. gr.
Færeysk skip sem stunda veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands samkvæmt reglugerð þessari skulu hlíta ákvæðum laga nr. 22/1998, um veiðar og vinnslu erlendra skipa í fiskveiðilandhelgi Íslands, nema annað sé sérstaklega ákveðið í reglugerð þessari og sömu reglum og íslensk skip við sams konar veiðar, m.a. um veiðibann, friðunarsvæði og aðra lokun svæða.
Heimilt er að frysta hausaðan og slægðan afla um borð. Frekari vinnsla á afla um borð er óheimil. Aflatölur skal miða við fisk upp úr sjó. Við útreikning á afla um borð í afla upp úr sjó skal margfalda með eftirtöldum umreiknistuðlum.
Úr hausuðum og slægðum í fisk upp úr sjó |
Úr slægðum í fisk upp úr sjó |
||
Tegund | með klumbubeini |
án klumbubeins |
|
Keila | 1,39 | 1,47 | 1,11 |
Langa | 1,47 | 1,62 | 1,25 |
Blálanga | 1,47 | 1,62 | 1,25 |
Steinbítur | 1,59 | 1,66 | 1,11 |
Grálúða | 1,46 | 1,46 | 1,09 |
Lúða | 1,36 | 1,36 | 1,09 |
Karfi | 1,64 | 1,82 | 1,06 |
Þorskur | 1,59 | 1,83 | 1,19 |
Ýsa | 1,53 | 1,78 | 1,19 |
Ufsi | 1,43 | 1,68 | 1,19 |
Hlýri | 1,59 | 1,66 | 1,11 |
Skipum við handfæra- eða línuveiðar er óheimilt að hafa um borð veiðarfæri sem nota má til annarra fiskveiða.
13. gr.
Skipstjórum færeyskra skipa sem stunda veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands, ber að auðvelda eins og unnt er eftirlit Landhelgisgæslunnar og Fiskistofu með veiðum, veiðarfærum og afla um borð í skipunum.
Telji Landhelgisgæslan eða Fiskistofa að eftirlit samkvæmt reglugerð þessari geti ekki farið fram á sjó, skal hlutaðeigandi skipi skylt að hlíta fyrirmælum um að halda til nálægrar hafnar þar sem eftirlit getur farið fram.
14. gr.
Fiskistofu er heimilt að setja veiðieftirlitsmenn um borð í færeysk fiskiskip sem leyfi hafa til veiða innan íslenskrar lögsögu. Skal útgerð skipsins sjá eftirlitsmönnum fyrir fæði og aðstöðu meðan þeir eru um borð og ennfremur greiða allan kostnað af veru þeirra um borð í skipinu. Afla skal haldið aðgreindum eftir tegundum um borð í viðkomandi fiskiskipi.
Fiskiskipum sem leyfi hafa fengið til veiða í fiskveiðilandhelgi Íslands, er skylt að halda afladagbækur um veiðarnar sem uppfylla ákvæði um afladagbækur samkvæmt kafla III og viðauka IV í reglum Norðaustur-Atlantshafsfiskveiðinefndarinnar (NEAFC). Staðfestar upplýsingar um landaðan afla einstakra skipa hvers mánaðar, sundurliðaðar eftir fisktegundum og löndunardögum, ásamt afritum úr afladagbókum, skal senda Fiskistofu eigi síðar en 14 dögum eftir hver mánaðamót.
15. gr.
Fiskistofa getur svipt skip leyfi til veiða í fiskveiðilandhelgi Íslands brjóti útgerð eða áhöfn skipsins eða aðrir þeir er í þágu útgerðar starfa gegn lögum sem um veiðarnar gilda, reglugerð þessari eða ákvæðum samnings ríkjanna, sbr. 1. gr.
Eftirlit með framkvæmd reglugerðar þessarar er í höndum Landhelgisgæslu Íslands, Fiskistofu og eftirlitsmanna í hennar þjónustu.
16. gr.
Brot gegn ákvæðum reglugerðar þessarar varða viðurlögum samkvæmt ákvæðum laga nr. 22/1998, um veiðar og vinnslu erlendra skipa í fiskveiðilandhelgi Íslands.
17. gr.
Reglugerð þessi er sett samkvæmt ákvæðum laga nr. 22/1998, um veiðar og vinnslu erlendra skipa í fiskveiðilandhelgi Íslands og öðlast þegar gildi. Jafnframt er felld úr gildi reglugerð nr. 205/2012, um botnfiskveiðar færeyskra skipa í íslenskri fiskveiðilandhelgi.
Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu, 27. október 2016.
F. h. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra,
Hinrik Greipsson.
Erna Jónsdóttir.