Leita
Hreinsa Um leit

Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti

596/2016

Reglugerð um skráningu afurðarheita.

I. KAFLI

Gildissvið og skilgreiningar.

1. gr.

Gildissvið.

Reglugerð þessi gildir um matvæli og aðrar afurðir samkvæmt viðauka I, umsókn um skráningu afurðarheitis, notkun á skráðu afurðarheiti, merkingar og eftirlit. 

2. gr.

Skilgreiningar.

 1. Afurð er matvæli eða önnur vara sem fellur undir gildissvið laga um vernd afurðarheita, nr. 130/2014.
 2. Afurðarheiti er nafn sem notað er til að tilgreina afurð.
 3. Afurðarlýsing er lýsing á afurð sem stendur að baki skráðu afurðarheiti sem hlotið hefur vernd samkvæmt lögum þessum.
 4. Hefð hefur skapast við hvers konar athöfn eða háttsemi sem viðhöfð hefur verið milli kynslóða, þó að lágmarki í 30 ár.
 5. Matvæli eru hvers konar efni eða vörur, hvort sem þau eru fullunnin, unnin að hluta eða óunnin, sem fólki er ætlað að neyta eða sem eðlilegt er að vænta að fólk neyti. Hugtakið "matvæli" tekur einnig til drykkja, tyggigúmmís og hvers kyns efna sem bætt er af ásettu ráði í matvæli við frumframleiðslu þeirra, vinnslu eða meðferð, svo og fæðubótarefna.
 6. Opinberir eftirlitsaðilar eru Matvælastofnun eða heilbrigðisnefndir sveitarfélaga.
 7. Opinbert eftirlit er eftirlit á vegum stjórnvalda sem hefur þann tilgang að tryggja að framleiðendur sem nota skráð afurðarheiti framleiði afurð í samræmi við afurðarlýsingu skv. 14. gr.
 8. Umsækjandi er framleiðendahópur, einstaklingur eða lögaðili.

II. KAFLI

Umsókn og umsóknarferli.

3. gr.

Umsókn.

Umsókn skal skila skriflega til Matvælastofnunar á sérstöku eyðublaði sem nálgast má á heimasíðu Matvælastofnunar eða starfsstöðvum stofnunarinnar.

Í umsókn skal eftirfarandi koma fram:

 1. nafn og heimilisfang umsækjanda,
 2. afurðarheiti sem sótt er um vernd fyrir,
 3. afurðarlýsing, sbr. 14. gr. laga nr. 130/2014 og
 4. samantekt sem felur í sér meginefni afurðarlýsingar.

Matvælastofnun skal fara yfir umsóknir sem berast og gæta þess að með fylgi öll gögn. Umsóknum skulu fylgja fullnægjandi gögn, svo sem afurðarlýsing, kort af landsvæði og afrit af skráningar­skírteini úr vörumerkjaskrá, ef við á.

Matvælastofnun skal veita umsækjanda frest til að leiðrétta umsókn innan tilskilins frests. Þrátt fyrir að gögnum og upplýsingum sé ábótavant þá telst umsókn lögð inn á þeim degi sem umsókn upphaflega barst sé umsókn leiðrétt innan hæfilegs frests að mati Matvælastofnunar.

Umsóknargjald að fjárhæð 75.000 kr. skal greitt þegar umsókn er lögð inn.

4. gr.

Umsagnir.

Matvælastofnun skal senda umsókn ásamt gögnum til umsagnar hjá Einkaleyfastofu, Samtökum atvinnulífsins og til annarra sérfræðinga og/eða félagasamtaka sem sérhæfð eru um viðkomandi afurð eftir því sem við á. Umsagnaraðilar geta haft samráð sín á milli um umsögn.

Umsagnir framangreindra aðila skulu að jafnaði ekki veittar síðar en 90 dögum frá móttöku erindis Matvælastofnunar þar að lútandi. Í umsögn skal koma skýrt fram hvort umsagnaraðili mælir með eða mælir gegn því að afurðarheiti verði skráð ásamt rökstuðningi fyrir þeirri niðurstöðu. Ef umsagnaraðilar mæla gegn því að afurðarheiti skuli vera skráð skal Matvælastofnun tilkynna umsækjanda það og veita honum frest til að koma athugasemdum sínum á framfæri. 

5. gr.

Efni umsagna.

Í umsögnum umsagnaraðila skal eftirfarandi a.m.k. koma fram, en ekki er um tæmandi talningu að ræða:

Einkaleyfastofa skal veita umsögn um það hvort afurðarheiti sem sótt er um sé líklegt til að teljast tækt til skráningar og með tilliti til c-liðar 7. gr. laga nr. 130/2014, um afurðarheiti um alþekkt merki og 24. gr. laganna um tengsl við eldri vörumerki og félagamerki.

Samtök atvinnulífsins skulu veita umsögn um afurðina sem óskað er skráningu á heiti fyrir og einnig um þá framleiðsluaðferð sem lýst er í afurðarlýsingu. Þá skulu samtökin einnig veita umsögn um það hvort aðrir framleiðendur en umsækjandi séu að framleiða þá afurð sem vernda skal.

6. gr.

Ákvörðun.

Matvælastofnun tekur ákvörðun um skráningu afurðarheitis og skal birta ákvörðun um skráningu afurðarheitis ásamt afurðarlýsingu með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda.

7. gr.

Málskot.

Umsækjandi getur kært ákvörðun Matvælastofnunar í samræmi við 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Við meðferð stjórnsýslumáls skulu umsagnaraðilar veita frekari umsögn ef óskað er.

III. KAFLI

Eftirlit.

8. gr.

Opinbert auðkennismerki.

Grafísk hönnun opinbers auðkennismerkis fyrir skráð afurðarheiti er sýnd í viðauka II.

Notkun á skráðu afurðarheiti er einungis heimil þegar afurð er í samræmi við afurðarlýsingu sem birt hefur verið í B-deild Stjórnartíðinda. Á umbúðum skráðra afurðarheita er heimilt að nota hið skráða heiti ásamt opinberu auðkennismerki sem gefur til kynna hvers konar vernd hið skráða heiti afurðarinnar nýtur.

Notkun á auðkennismerki við markaðssetningu skal vera skýr og ekki villandi eða blekkjandi fyrir neytendur.

Framleiðendur afurða skulu tryggja að notkun á opinberu auðkennismerki sé í samræmi við reglugerð þessa og lög um vernd afurðarheita, nr. 130/2014. 

9. gr.

Hlutverk eftirlitsaðila.

Matvælastofnun og heilbrigðisnefndir sveitarfélaga hafa eftirlit með notkun skráðra afurðarheita fyrir matvæli skv. 6. og 22. gr. laga nr. 93/1995 um matvæli. Heilbrigðisnefndir sveitarfélaga skulu einnig hafa eftirlit með notkun annarra skráðra afurða sem tilgreindar eru í viðauka I.

IV. KAFLI

Tengsl við önnur merki.

10. gr.

Tengsl við eldri vörumerki og félagamerki.

Við veitingu umsagnar skv. 4. og 5. gr. ber Einkaleyfastofu að meta hvort líklegt sé að skráning afurðarheitis villi um fyrir neytendum hvað varðar raunverulegan uppruna afurðar þegar fyrir er að finna hér á landi alþekkt merki. Ber þá að horfa til þeirrar skilgreiningar á alþekktu merki sem lög um vörumerki nr. 45/1997 byggja á, framkvæmdar og fordæma varðandi alþekkt merki. Komist Einkaleyfastofa að þeirri niðurstöðu að hætta sé á að skráning afurðarheitis villi um fyrir neytendum, sbr. c. lið 7. gr. laga um vernd afurðarheita, nr. 130/2014, telst viðkomandi afurðarheiti ótækt til skráningar. Er Matvælastofnun þá óheimilt að skrá heitið.

Við veitingu umsagnar ber Einkaleyfastofu einnig að meta hvort líklegt er að til staðar sé skráð eldra vörumerki þar sem samhliða tilvist afurðarheitis og merkis kann að leiða til þess að villast megi á merkjunum, sbr. 24. gr. laganna um vernd afurðarheita. Sé slík staða fyrir hendi kemur það ekki í veg fyrir skráningu viðkomandi afurðarheitis en Matvælastofnun skal gera umsækjanda og eiganda vörumerkis viðvart um skráningu afurðarheitis.

Umsækjandi hefur þannig í framhaldinu möguleika til þess að hefja ferli afnáms vörumerkja­skráningar í samræmi við III. kafla vörumerkjalaga nr. 45/1997. Vörumerkjaeigandi hefur þá að sama skapi möguleika til þess að andmæla afurðarheiti samkvæmt 15. gr. laga nr. 130/2014 eða óska eftir afturköllun skráningar skv. 22. gr. laganna.

V. KAFLI

Ýmis ákvæði.

11. gr.

Viðurlög.

Brot gegn reglugerð þessari varða viðurlögum samkvæmt VIII. kafla laga nr. 130/2014 um vernd afurðarheita sem vísa til uppruna, landsvæðis og hefðbundinnar sérstöðu. 

12. gr.

Lagastoð og gildistaka.

Reglugerð þessi er sett samkvæmt 40. gr. laga nr. 130/2014 um vernd afurðarheita sem vísa til uppruna, landsvæðis eða hefðbundinnar sérstöðu og öðlast þegar gildi.

Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu, 15. júní 2016.

Gunnar Bragi Sveinsson
sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra.

Rebekka Hilmarsdóttir. 

VIÐAUKAR
(sjá PDF-skjal)
Þetta vefsvæði byggir á Eplica