Fara beint í efnið

Prentað þann 28. mars 2024

Stofnreglugerð

549/2015

Reglugerð um gagnsæi verðlagningar á raforku til iðnfyrirtækja.

1. gr. Markmið.

Markmið reglugerðar þessarar er að auka gagnsæi verðlagningar á raforku til iðnfyrirtækja.

2. gr. Skilgreiningar.

Í reglugerð þessari skulu orð og orðasambönd hafa eftirfarandi merkingu:

  1. Iðnfyrirtæki: Aðili sem kaupir raforku til eigin nota fyrir iðnaðarstarfsemi.
  2. Sölufyrirtæki: Fyrirtæki sem selur raforku eða annast raforkuviðskipti, hvort sem er í heildsölu eða smásölu.
  3. Dreifiveita: Fyrirtæki sem hefur leyfi til dreifingar raforku á afmörkuðu svæði.
  4. Flutningsfyrirtæki: Fyrirtæki sem stýrir rekstri flutningskerfisins og annast kerfisstjórnun.
  5. Vinnslufyrirtæki: Fyrirtæki sem stundar vinnslu á raforku eða hefur fengið virkjunarleyfi.
  6. Raforkufyrirtæki: Raforkufyrirtæki geta verið sölufyrirtæki, dreifiveita, flutningsfyrirtæki eða vinnslufyrirtæki.

3. gr. Verðupplýsingar.

Safna skal upplýsingum frá raforkufyrirtækjum um verð og söluskilmála fyrir rafmagn við sölu til iðnfyrirtækja eins og þau eru skilgreind í viðauka við reglugerð þessa. Upplýsa skal um verðfyrirkomulag, flokkun fyrirtækja og notkun í hverjum flokki samkvæmt viðauka við reglugerð þessa. Raforkufyrirtækjum er skylt að afhenda gögn í samræmi við reglugerð þessa.

4. gr. Gagnaskil.

Afla skal upplýsinga þeirra sem kveðið er á um í 3. gr. fyrir tímabil sem enda 1. janúar og 1. júlí ár hvert. Í viðauka við reglugerð þessa er nánar greint frá á hvaða formi upplýsingarnar skulu vera og hvað skuli koma fram í þeim. Umræddum upplýsingum er skilað til Hagstofu Evrópusambandsins (Eurostat) innan tveggja mánaða frá lokum tímabils eins og kveðið er á um í viðauka við reglugerðina.

5. gr. Innleiðing EES-gerðar.

Reglugerð þessi er sett til innleiðingar á tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2008/92/EB, frá 22. október 2008, um starfsreglur Bandalagsins til að auka gagnsæi verðlagningar á gasi og rafmagni til iðnfyrirtækja, og niðurfellingu tilskipana 90/377/EBE, eins og hún var tekin upp í samninginn um Evrópska efnahagssvæðið með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 13/2013 þann 1. febrúar 2013 og birt í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins nr. 31/21 þann 30. maí 2013.

6. gr. Lagastoð og gildistaka.

Reglugerð þessi er sett með stoð í 5. mgr. 2. gr. laga nr. 87/2003 um Orkustofnun, með síðari breytingum, og öðlast þegar gildi.

Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu, 8. júní 2015.

Ragnheiður Elín Árnadóttir
iðnaðar- og viðskiptaráðherra.

Erla Sigríður Gestsdóttir.

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.