Leita
Hreinsa Um leit

Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti

549/2015

Reglugerð um gagnsæi verðlagningar á raforku til iðnfyrirtækja.

1. gr.

Markmið.

Markmið reglugerðar þessarar er að auka gagnsæi verðlagningar á raforku til iðnfyrirtækja.

2. gr.

Skilgreiningar.

Í reglugerð þessari skulu orð og orðasambönd hafa eftirfarandi merkingu:

  1. Iðnfyrirtæki: Aðili sem kaupir raforku til eigin nota fyrir iðnaðarstarfsemi.
  2. Sölufyrirtæki: Fyrirtæki sem selur raforku eða annast raforkuviðskipti, hvort sem er í heildsölu eða smásölu.
  3. Dreifiveita: Fyrirtæki sem hefur leyfi til dreifingar raforku á afmörkuðu svæði.
  4. Flutningsfyrirtæki: Fyrirtæki sem stýrir rekstri flutningskerfisins og annast kerfis­stjórnun.
  5. Vinnslufyrirtæki: Fyrirtæki sem stundar vinnslu á raforku eða hefur fengið virkjunar­leyfi.
  6. Raforkufyrirtæki: Raforkufyrirtæki geta verið sölufyrirtæki, dreifiveita, flutnings­fyrirtæki eða vinnslufyrirtæki.

3. gr.

Verðupplýsingar.

Safna skal upplýsingum frá raforkufyrirtækjum um verð og söluskilmála fyrir rafmagn við sölu til iðnfyrirtækja eins og þau eru skilgreind í viðauka við reglugerð þessa. Upplýsa skal um verðfyrirkomulag, flokkun fyrirtækja og notkun í hverjum flokki samkvæmt viðauka við reglugerð þessa. Raforkufyrirtækjum er skylt að afhenda gögn í samræmi við reglugerð þessa.

4. gr.

Gagnaskil.

Afla skal upplýsinga þeirra sem kveðið er á um í 3. gr. fyrir tímabil sem enda 1. janúar og 1. júlí ár hvert. Í viðauka við reglugerð þessa er nánar greint frá á hvaða formi upplýsingarnar skulu vera og hvað skuli koma fram í þeim. Umræddum upplýsingum er skilað til Hagstofu Evrópusambandsins (Eurostat) innan tveggja mánaða frá lokum tímabils eins og kveðið er á um í viðauka við reglugerðina.

5. gr.

Innleiðing EES-gerðar.

Reglugerð þessi er sett til innleiðingar á tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2008/92/EB, frá 22. október 2008, um starfsreglur Bandalagsins til að auka gagnsæi verðlagningar á gasi og rafmagni til iðnfyrirtækja, og niðurfellingu tilskipana 90/377/EBE, eins og hún var tekin upp í samninginn um Evrópska efnahagssvæðið með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 13/2013 þann 1. febrúar 2013 og birt í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópu­sambands­ins nr. 31/21 þann 30. maí 2013.

6. gr.

Lagastoð og gildistaka.

Reglugerð þessi er sett með stoð í 5. mgr. 2. gr. laga nr. 87/2003 um Orkustofnun, með síðari breytingum, og öðlast þegar gildi.

Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu, 8. júní 2015.

Ragnheiður Elín Árnadóttir
iðnaðar- og viðskiptaráðherra.

Erla Sigríður Gestsdóttir.

VIÐAUKI
(sjá PDF-skjal)
Þetta vefsvæði byggir á Eplica