Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti

866/2014

Reglugerð um (3.) breytingu á reglugerð nr. 448/2012 um varnir gegn því að dýrasjúkdómar og sýktar afurðir berist til landsins. - Brottfallin

1. gr.

Í stað orðanna "í einn mánuð" í c-lið 1. mgr. 5. gr. reglugerðarinnar kemur: samfellt í 30 sólarhringa.

2. gr.

7. gr. reglugerðarinnar verður svohljóðandi:

Innflytjandi notaðra landbúnaðarvéla og áhalda, þar með talinna hestakerra og annarra tækja sem notuð hafa verið í landbúnaði eða sambærilegri starfsemi sbr. j-lið 3. gr., skal ávallt tilkynna Matvælastofnun um fyrirhugaðan innflutning tuttugu dögum fyrir áætlaðan innflutningsdag, eða með styttri fyrirvara ef skilyrði a-f-liða hér að neðan eru þegar uppfyllt. Fyrir innflutning skal framkvæma sérstaka sótthreinsun. Allur kostnaður vegna innflutningsins skal greiddur af innflytjanda. Eftirfarandi skilyrði skulu uppfyllt fyrir innflutning:

  1. Upplýsingar um tegundarheiti, árgerð, lýsingu og verksmiðju-/framleiðslunúmer skal senda Matvælastofnun. Framangreind atriði skulu skráð á öll vottorð og önnur upprunaleg gögn er málið varðar.
  2. Alla hluta, innan sem utan, hjólbarða og hjólabúnað, eftir því sem við á, skal þvo með heitu vatni undir þrýstingi.
  3. Fjarlægja skal öll skilrúm, stoðir og aðra lausa hluta til að auðvelda aðgengi til þvottar á holrýmum. Timbur, gúmmí, plast og slitna/skemmda hluta skal fjarlægja eftir föngum.
  4. Sótthreinsa skal alla hluta, utan sem innan. Sérstaka áherslu skal leggja á sótt­hreinsun á undirvagni, öxlum, hjólbörðum og stýrishúsi, eftir því sem við á. Nota skal viðurkennd sótthreinsiefni.
  5. Stafrænar myndir af tækinu eða áhaldinu, sérstaklega af stöðum þar sem líklegt er að óhreinindi safnist fyrir, bæði að utan og innan og af undirvagni, skal senda Matvælastofnun að verki loknu.
  6. Vottorð frá opinberum dýralækni í útflutningslandi sem staðfestir að þrif og sótthreinsun hafi farið fram skal sent Matvælastofnun.
  7. Innflutningsaðili skal leita heimildar Matvælastofnunar áður en útskipun fer fram. Dýralæknir inn- og útflutningsskrifstofu Matvælastofnunar veitir heimild til útskip­unar frá útflutningslandi að uppfylltum skilyrðum samkvæmt a-f-lið.
  8. Vélar eða tæki skulu flutt til uppskipunarhafnar og ekki tollafgreidd fyrr en farið hefur fram úttekt af hálfu héraðsdýralæknis viðkomandi umdæmis um að þvottur og sótthreinsun hafi verið fullnægjandi. Að öðrum kosti skulu vélar eða tæki þvegin og/eða sótthreinsuð að nýju ef þörf krefur að mati héraðsdýralæknis.

Óheimilt er að flytja notaðar landbúnaðarvélar og áhöld, þar með taldar hestakerrur og önnur tæki sem notuð hafa verið í landbúnaði eða gætu hafa verið í snertingu við dýr, dýraafurðir og dýraúrgang til landsins ef skilyrði sbr. 1. mgr. eru ekki uppfyllt. Telji Matvælastofnun hættu á því að smitefni berist til landsins með notaðri landbúnaðarvél eða tæki þrátt fyrir að uppfyllt séu skilyrði 1. mgr. fyrir innflutning eða hreinsun viðkomandi vélar eða tækis er ekki fullnægjandi við innflutning er Matvælastofnun heimilt að stöðva innflutning.

Ráðherra getur heimilað innflutning á notuðum landbúnaðarvélum og tækjum að fengnum meðmælum Matvælastofnunar hafi innflutningur verið stöðvaður enda hafi verið framkvæmd sérstök hreinsun og sótthreinsun á kostnað innflytjanda eða viðeigandi breytingar verið gerðar á viðkomandi vél eða tæki. Einungis skal heimila innflutning ef sannað þykir að ekki berist smitefni með þeim sem valdið geta dýrasjúkdómum.

3. gr.

Reglugerð þessi er sett með heimild í lögum nr. 25/1993 um dýrasjúkdóma og varnir gegn þeim og lögum nr. 93/1995 um matvæli, með síðari breytingum. Reglugerðin öðlast þegar gildi.

Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu, 1. október 2014.

F. h. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra,

Ólafur Friðriksson.

Rebekka Hilmarsdóttir.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica