Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti

644/2014

Reglugerð um (3.) breytingu á reglugerð nr. 376/2014 um stjórn makrílveiða íslenskra fiskiskipa árið 2014. - Brottfallin

1. gr.

3. mgr. 1. gr. reglugerðarinnar orðast svo:

Fari leyfilegur heildarafli íslenskra skipa í makríl á árinu 2014 yfir 167.826 lestir, þar með talið 20.000 lestir á samningssvæði NEAFC, utan lögsögu ríkja, ákveður ráðherra hvort veiðar á makríl skuli bannaðar.

2. gr.

2. gr. reglugerðarinnar verður svohljóðandi:

Skipting heildarafla á flokka skipa.

Viðmiðun leyfilegs heildarafla skal ráðstafað til skipa sem stunduðu veiðar á makríl á árunum 2007, 2008 eða 2009, sbr. 4. tl. 1. mgr. þessarar greinar, skipa sem fyrirhugað er að stundi veiðar skv. 1. og 2. tl. 1. mgr. þessarar greinar og skipa sem öðluðust leyfi skv. 3. tl. 2. gr. reglugerðar nr. 233/2011. Ráðstafað er til skipa í einstökum flokkum, sem hér segir:

 1. 6.817 lestum skal ráðstafað til skipa sem stunda makrílveiðar með línu eða handfærum. Þeim skal skipt eftir veiðitímabilum sem hér segir: 1.300 lestir á tímabilið 1. til 31. júlí, 3.817 lestir á tímabilið 1. til 31. ágúst og 1.700 lestir á tímabilið 1. september til 31. desember.
 2. 8.995 lestum skal ráðstafað til skipa sem ekki frysta afla um borð enda hafi útgerðir þeirra sýnt fram á að aflinn verði unninn í landi í samræmi við ákvæði 3. gr. Við útgáfu veiðileyfis skal viðkomandi útgerð sýna fram á að til staðar sé gildandi samningur um vinnslu í landi eða jafngilda yfirlýsingu þegar um eigin vinnslu er að ræða. Aflaheimildum þessum skal skipt á milli eftirfarandi stærðarflokka sem hér segir:

  1. Skip 200 BT og yfir.
  2. Skip undir 200 BT.
  Hvert skip sem fellur undir a-lið skal fá í sinn hlut X lestir af makríl. Hvert skip sem fellur undir b-lið skal fá í sinn hlut 0,20 sinnum X lestir af makríl. X skal fundið með eftirfarandi jöfnu: aX + 0,20bX = 8.995 lestir (a er fjöldi skipa sem fellur undir a-lið; b er fjöldi skipa sem fellur undir b-lið). X skal þó aldrei vera hærra en 1.000 lestir.
 3. 34.858 lestum skal ráðstafað til vinnsluskipa sem fengu leyfi skv. 3. tl. 2. gr. reglugerðar nr. 233/2011. Skipum skal skipt í þrjá flokka eftir stærð:
  1. Vinnsluskip sem mælast minni en 800 BT.
  2. Vinnsluskip sem mælast 800 - 2.400 BT.
  3. Vinnsluskip sem mælast stærri en 2.400 BT.
  Úthlutun á vinnsluskip sem falla undir a. flokk er 50% af úthlutun skipa sem falla undir b. flokk og úthlutun til skipa sem falla undir c. flokk er 50% meiri en til skipa sem falla undir b. flokk. Heildarúthlutun skv. þessu reiknast skv. eftirfarandi jöfnu:
  Nb×X+Na×X/2+Nc×X×1,5= 34.858.
  N= fjöldi skipa með leyfi til veiða á makríl í viðkomandi flokki,
  X= afli skips í b. flokki.
 4. 117.156 lestum skal ráðstafað til skipa sem veitt hafa makríl í flottroll og nót á árunum 2007, 2008 og 2009 og skal skipt hlutfallslega miðað við aflareynslu þeirra á árunum 2007, 2008 til og með 11. júlí 2009, miðað við landaðan afla, að undanskildum sérstökum heimildum til veiða í lögsögu Færeyja..

Hafi skip, sem fellur undir 3. eða 4. tl. 1. mgr., horfið úr rekstri, er síðasta eiganda skipsins áður en það hvarf úr rekstri heimilt að ákveða á hvaða skip í hans eigu úthlutuðum aflaheimildum er ráðstafað.

Nái þau skip sem njóta leyfis skv. 1. tl. 1. mgr. ekki að veiða heimilaðan viðmiðunarafla á tímabilinu, skal óveiddu aflamagni ráðstafað á næsta tímabil sbr. 1. tl.

Leyfi skipa til makrílveiða skv. 2. tl. 1. mgr. fellur úr gildi ef skip hefur ekki landað a.m.k. 50% af aflaheimildum sínum 20. ágúst 2014. Ónýttum heimildum skipa skal ráðstafa til annarra skipa í sama flokki. Þó er ráðherra heimilt að ráðstafa ónýttum heimildum milli flokka, megi ætla að skip í viðkomandi flokki muni ekki geta veitt það aflamagn sem tilgreint er í hverjum flokki. Við þá tilfærslu skulu njóta forgangs flokkar sem hafa lægra raðtölunúmer skv. 1. mgr. en sá flokkur sem flutt er frá gefi veiði tilefni til.

Á árinu 2014 getur hvert skip aðeins öðlast eitt af veiðileyfum skv. 1.-4. tl. 1. mgr.

3. gr.

Reglugerð þessi er sett samkvæmt ákvæðum laga nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða, laga nr. 79/1997, um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands, með síðari breytingum og laga nr. 151/1996, um fiskveiðar utan lögsögu Íslands, með síðari breytingum. Reglugerðin öðlast þegar gildi. Jafnframt fellur brott reglugerð nr. 616/2014 um (2.) breytingu á reglugerð nr. 376/2014 um stjórn makrílveiða íslenskra fiskiskipa árið 2014.

Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu, 2. júlí 2014.

 

F. h. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra,

Jóhann Guðmundsson.

Baldur P. Erlingsson.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica